Þjálfa þær eins og meistaraflokk frá 8. bekk

Stjörnukonan Ísold Sævarsdóttir í baráttunni í kvöld.
Stjörnukonan Ísold Sævarsdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Skúli

Kvennalið Stjörnunnar er úr leik í Íslandsmóti kvenna í körfubolta eftir naumt tap gegn Keflavík í undanúrslitaeinvígi liðanna í kvöld. Það má hæglega segja að Stjarnan falli úr keppni með mikilli reisn eftir að hafa veitt Keflavík harða keppni í 5 leikja seríu sem endaði með hörkuspennandi oddaleik.

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar var að þjálfa sinn síðasta leik hjá Stjörnukonum en hann tekur nú við nýju starfi hjá KKÍ. Við ræddum við Arnar að leik loknum.

Hvað segir fráfarandi þjálfari eftir svona hetjulega baráttu hér í kvöld?

„Við vorum grátlega nálægt þessu og við létum þær hafa fyrir hlutunum en þegar allt kom til alls þá voru þær betri í þremur af þessum fimm leikjum. Ég óska þeim góðs gengis í úrslitaeinvíginu og batakveðjur til Birnu Benonýsdóttur og ég vona innilega að hún verði með liðinu í úrslitunum."

Þið tapið eiginlega með minnsta mögulega mun og fóruð gegn spám flestra með því að koma þessu í 5 leikja seríu gegn liði sem átti að sópa ykkur úr keppni í þremur leikjum. Hver er lykillinn að þessum góða árangri Stjörnunnar á tímabilinu?

„Hrósið fer til stelpnanna í liðinu og þeirra sem koma að liðinu og hafa komið að liðinu. Þær hafa fengið ótrúlega flotta þjálfun. Helmingurinn af þessum stelpum voru í þjálfun hjá Brynjari Karli á sínum tíma og svo hjá Hlyni í eitt ár.

Þegar ég fæ þær í 8 bekk þá geta þær allar sent með hægri og vinstri, skilja allar körfuboltatungumál. Ég þjálfa þær eins og meistaraflokk alveg frá 8. bekk. Við vorum ekkert í neinum pizzapartýum og ísbíltúrum. Það var bara æft eins og meistaraflokkslið."

Arnar hélt áfram að hrósa bæði sínu liði og liði Keflavíkur:

„Ég vill líka hrósa stuðningsmönnum okkar sem slaga í að vera helmingurinn af fullu húsi hér í kvöld. Í leik þrjú voru held ég innan við 10 stuðningsmenn. Þetta er frábært.

Það skal líka tekið fram að þetta var frábært hjá Keflavík líka. Þau eru búin að gera þetta í mörg ár en þetta er alveg nýtt fyrir okkur. Keflavík er með flottasta starf á landinu í kvennaflokki. Þú sérð þetta lið. Þær eru með tvo atvinnumenn og restin er alin upp hérna. Þær eru ekki að kaupa sér titla þó ég voni innilega að allir leikmenn Keflavíkur séu á góðum launum og geti æft meira og unnið minna.

Það sem ég á við er að þær eru allar aldnar upp hérna og þetta er unglingastarfið þeirra sem er að vinna unglingastarfið okkar. Munurinn er bara að þær eru eldri en við. Það er búið að vera ótrúlega flott að fylgjast með Keflavík og þær eiga enn fleiri leikmenn í öðrum liðum og í skólum erlendis. Vonandi taka bara fleiri lið sér þetta til fyrirmyndar."

Þú ert að hætta í þjálfun og Ólafur Jónas tekur við. Er framtíðin björg hjá Stjörnunni?

„Framtíðin er mjög björt. Diljá kemur aftur inn í liðið og allar íslensku stelpurnar eru með samning út næsta tímabil. Síðan er bara spurning með erlendu leikmennina. Svo eru að koma fullt af efnilegum leikmönnum upp sem mun veita þessum stelpum hér mikla og harða samkeppni," sagði Arnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert