c

Pistlar:

18. maí 2024 kl. 18:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Blaðamennska í breyttum heimi

Mörgum fjölmiðlamönnum finnst eins og það sé stöðugt meira sótt að þeim og starfi þeirra en með samfélagsmiðlum má segja að almenningur hafi fengið eigin rödd á vettvangi þjóðmálaumræðunnar. Sú rödd dregur oftar en ekki í efa það sem birtist í fjölmiðlum sem í eina tíð höfðu einskonar einkarétt á því að segja hvað væri í fréttum og tóku sér hlutverk hliðvarðar sem réði því hvað væri yfir höfuð fréttnæmt. Það birtist í þeim orðum sem höfð voru eftir starfsmönnum Morgunblaðsins á þeirra gullaldarskeiði; ef það hefur ekki komið í Morgunblaðinu hefur það ekki gerst!

Þessi heimur fjölmiðla var að sumu leyti lokaður og fastmótaður og birtist það skýrast á tímum flokksblaðanna, þar sem allir fengu sína útgáfu af veruleikanum senda heim að morgni. Þeir gátu þá tekið þátt í pólitískri umræðu dagsins á kaffistofunum nestaðir úr málgagninu. Í dag er erfitt að segja hvar miðpunktur fjölmiðla og fjölmiðlunar nákvæmlega er og þeir sem þar starfa mæta vaxandi tortryggni og vantrú samfara því að afstæðishyggja nútímans hefur sprengt upp sannleikshugtak fortíðarinnar.blaðalestur

Hafi menn væntingar um að einhver endanlegur sannleikur fáist út úr fjölmiðlaumfjöllun þá er það tálsýn. Þar virðist skipta mestu að efna til hávaða og láta. Ef á þig hallar segist þú bara búa við „ósvífna upplýsingaóreiðu“ eins og borgarfulltrúi Pírata lét hafa eftir sér vegna bensínstöðvamálsins. Þar eru Píratar í nýju hlutverki, að reyna að breiða yfir spillingu og óreiðu. Upplýsingaóreiða er Pírötum augljóslega hugleikin og í pallborðsumræðu vegna 75 ára afmælis Nató sagði þingmaður þeirra, Andrés Ingi Jónsson, að sterkir fjölmiðlar væru lykilaðili til að berjast gegn upplýsingaóreiðu. Má vera, en þegar stjórnmálamenn ræða upplýsingaóreiðu gætu þeir eins verið að ræða tíma gömlu flokksblaðanna. Þeir sakna þess að stýra ekki umræðunni.

Farandverkamenn

Af öllu þessu leiðir að fjölmiðlamenn og þá ekki síst blaðamenn eru í tilvistarkreppu, þeir eru ekki lengur drottnandi þjónar eins og einn fyrsti fjölmiðlafræðingur landsins, Þorbjörn Broddason prófessor emeritus, kallaði fréttamenn Ríkisútvarpsins í eina tíð. Skilgreining sem var óljós þá og er nánast óskiljanleg í dag. Því miður eru blaðamenn í dag frekar eins og farandverkamenn með ótryggan náttstað. Dagblöð og tímarit eru á fallanda fæti og allsendis óvíst hvernig þeim reiðir af, ungt fólk virðist ekki kunna að meta formið sem er okkur sem komin eru yfir miðjan aldur svo kært. Færri og færri líta á störf við fjölmiðla sem framtíðarstarf.

Ef litið er til sögunnar má segja að samfara risi vestrænnar siðmenningar í kjölfar upplýsingarinnar hafi blaðamaðurinn tekið að sér margvísleg og mismunandi hlutverk. Oft hefur hann leitað sannleikans, að því er virðist óttalaus og stundum sett sig í lífshættu, nánast eins og hann skeyti ekki um eigin velferð eins og á við um þá sem starfa á stríðs- og átakasvæðum. Stundum verða þeir viðurkennd skotmörk stríðsaðila eins og átti við um Sýrland, Mexíkó og nú síðast Gasa-svæðið. Flestir blaðamenn eru hins vegar skrifstofumenn sem afla frétta í gegnum símann eða hanga á borðsenda samfélagsmiðlanna í von um að eitthvað bitastætt hrökkvi af. Óhætt er að segja að 90% af fjölmiðlaefni verði til með þeim hætti.blöðusa

Í gegnum söguna hefur blaðamaðurinn einnig birst sem heldur ótraustur karakter, oft einstaklingur sem getur ekki haft neitt skipulag á eigin lífi, jafnvel heldur veiklundaður. Skiptir engu hvort við höfum haft trú á Gonzo-blaðamennsku Hunters S. Thompsons, þar sem allt er látið flakka, eða smásmyglslegri nálgun Bob Woodwards og Carls Bernsteins í Watargate-málinu þar sem fyrsta frétt birtist sem lítil klausa inni í blaðinu, nánast sem neðanmálsgrein enda vissu blaðamenn og stjórnendur Washington Post ekki sjálfir hve stóra frétt þeir höfðu í höndunum. Að lokum var það líklega yfirhylmingin frekar en innbrotið sem felldi Nixon sem forseta, sannleikur sem margir stjórnmálamenn hafa orðið að læra af eigin reynslu síðar. En með Watergate-málinu og að hluta til Pentagon-skjölunum vöknuðu upp hugmyndir um að blaðamenn væru nýtt afl, fjórða valdið í lýðræðissamfélagi nútímans.

Ný blaðamennska

Það er ekki sanngjarnt að gera Hunter S. Thompson að erkitýpu blaðamannsins en hann hafði sín áhrif og verður seint kallaður skrifstofumaður. Hann hóf feril sinn sem blaðamaður og fór fljótlega að þróa mjög róttækan stíl. Með gagnrýnum skrifum sínum um bandarískt samfélag á sjöunda áratugnum varð Thompson þannig hluti af hreyfingu sem kennd var við „nýja blaðamennsku“, þar sem pennar á borð við Tom Wolfe og Gay Talese, nálguðust umfjöllunarefni sín á skáldlegri og persónulegri máta en tíðkast hafði. Lykilsaga Thompsons, Fear and Loathing in Las Vegas: A Savage Journey to the Heart of the American Dream, birtist sem frásögn í tveimur hlutum í Rolling Stone tímaritinu. Engum duldist að frásögnin var skrifuð undir áhrifum hugvíkkandi efna og var líklega fremur skáldskapur en blaðamennska en minnti okkur um leið á hvað mörkin þar á milli geta verið óljós. Bókin sjálf fékk ákveðna menningarstöðu og var kvikmynduð 1998.fjölmbl

Það er getur auðvitað verið forvitnilegt að takast á við veruleikann undir margvíslegum formerkjum því það er hvort sem er aldrei allt eins og það sýnist. Það er reyndar dálítið eftirtektarvert að tilfinning manna eins og Thompsons var að Ameríka væri að þróast til hins verra undir stjórn manna eins og Nixons. Nixon gat hins vegar réttilega kvartað því blaðamenn höfðu alltaf horn í síðu hans á meðan þeir til dæmis elskuðu John F. Kennedy og skipti engu hve John eins og aðrir Kennedyar átti auðvelt með að gera siðferðislega málamiðlun í einkalífi sínu. Undir niðri er Thompson þó að fjalla um stöðu fjölmiðla á þeim tíma þegar forsetinn fyrirleit þá og þeir hann á móti. Samskonar ástand ríkir í kringum Donald Trump þar sem blaðamenn telja hann svo auðvirðilegan að beita megi öllum meðulum í baráttunni gegn honum. Þegar vinnubrögðin voru afhjúpuð í Twitter-skjölunum virtist öllum standa á sama.

En tilfinning Thompsons um að allt væri að þróast til hins verra virðist fylgja fjölmiðlum, í nútíð og fortíð. Má vera að það sé vegna fréttamatsins sem er iðulega beinist að hinu afbrigðilega, því sem fer úrskeiðis. „Hefur þú tekið eftir því að lífið, þetta raunverulega, ekta líf með morðum og stórslysum og fólki sem erfir ótrúlegar fjárhæðir, fer nánast eingöngu fram í dagblöðum?“ Þessa setningu lætur franski rithöfundurinn Jean Anouilh eina persónu sína segja í leikritinu Æfingin.

Er blaðamennskan persónuleg vegferð?

En nýja blaðamennskan leit svo á að hlutlæg blaðamennska væri helsta ástæða þess að amerísk stjórnmál hafa orðið svona spillt og fengið að vera það svona lengi. Þú getur ekki sýnt mönnum eins og Nixon hlutlægni, sagði Thompson síðar í viðtali við tímaritið Atlantic. Honum fannst um leið að tilveran væri orðið brjáluð og þegar hann sá herforingja birtast á sjónvarpsskjánum taldi hann þá fara með stjórnlausa lygi og að endingu kaus hann að stimpla sig sjálfur út úr þessari blaðamannatilveru.

Thompson neitaði því að blaðamennska væri starf eða einhverskonar fag, hann virtist líta svo á að hún væri persónuleg vegferð þeirra sem væru utangarðs og tilheyrðu ekki menningarelítunni, jafnvel svo að tala mætti um ólánsfólk. Þeir kaldhæðnari hafa lýst þessu svo að blaðamennska sé ekki starf heldur skapgerðargalli. Við brosum að svona lýsingum en eitt helsta vandamál blaðamanna getur verið það að halda jarðsambandi. Sumir verða svo gagnteknir af tilteknum málum að það jaðrar við þráhyggju og öll hlutlægni hverfur. Á meðan fjölmiðlar nutu eðlilegrar ritstýringar, svo sem í tíð Morgunblaðsins undir stjórn þeirra Matthíasar Johannessen og Styrmis Gunnarssonar, á DV hjá Jónasi Kristjánssyni og á Ríkisútvarpinu undir stjórn Margrétar Indriðadóttur og síðar Kára Jónassonar, voru vinnubrögðin öðruvísi. Þá urðu menn að standa fréttastjóra reikningsskil gerða sinna áður en fréttinni var dembt á almenning. Þetta virðist síður eiga við í dag, fjölmiðlum er eiginlega ekki fréttastýrt og á sama tíma dregur fréttamatið dám af einhverskonar aktívisma.newsroom-768x479

Aðgerðastjórn aktívista

Ný vinnubrögð hafa tekið yfir á fjölmiðlum með lekaveitum eins og Wikileaks og stórum gagnalekum sem hellst hafa yfir almenning. Rafræn vistun gríðarlegs magns af gögnum gerir auðvelt að stela þeim og koma í umferð og meira að segja mestu stórveldi veraldarsögunnar geta ekki varðveitt gögn sín, hvort sem það eru uppljóstrarar eða hreinræktaðir hakkarar sem ná þeim. Lengstum skildu blaðamenn muninn á því að sækja gögn þar sem uppljóstrari kom við sögu eða í gegnum hakkara. Áðurnefnd fréttamál, Watergate og þó sérstaklega Pentagon málið byggðu á uppljóstrurum. Í ljósi þessarar umræðu um fréttastjórn og hvernig gagna er aflað er forvitnilegt að skoða stærri fréttamál, svo sem Namibíu-málið og Panamaskjölin. Varðandi það síðarnefnda þá var bent á það hér í pistli fyrir skömmu að málinu var ritstýrt erlendis, þar var ákvörðun um upplegg og tímasetningar var tekið af einhverskonar alþjóðlegri aðgerðastjórn sem meðal annars mat það svo að með samræmdum aðgerðum væri unnt að fella lýðræðislega kjörin forsætisráðherra Íslands. Það skýrir ágætlega umræðu um fjölmiðla á Íslandi í dag að mál eru ekki rædd á þeim nótum enda ríkir þögnin ein hjá fjölmiðlum um eigin ávirðingar. Þar þurfa tilfallandi bloggarar að standa vaktina.