Veðurspár á netinu hafa verið í umræðunni að undanförnu. Ég hef legið mikið yfir þessum spákortum til að glöggva mig á veðurútliti fyrir fjallaferðir. Veður til fjalla getur verið mjög frábrugðið veðurfari á láglendi. Allir fjallamenn hafa upplifað að hörfa af fjalli í stormi en þegar niður er komið er þar hið besta veður. Til fjalla verða veðrabreytingar mjög hraðar og nokkrir klukkutímar til eða frá geta skipt sköpum. Góðar upplýsingar um veðurútlit eru því mikilvægar fyrir alla ákvarðanatöku.
Gott dæmi um þetta var þegar ég var fararstjóri í gönguskíðaferð yfir Vatnajökul. Við gistum síðustu nóttina uppi á Öræfajökli undir Hvannadalshnúki. Að morgni síðasta göngudagsins stóð til að ganga á Hnúkinn og halda síðan niður Hnappaleið. Það var nokkur vindur um morguninn og blinda. Ég hringdi til Reykjavíkur og spurðist fyrir um útlitið. Þetta var áður en þróaðar netveðurspár komu til sögunnar. Veðurspár voru aðeins gerðar fyrir láglendi í textaspám og á veðurkortum í sjónvarpi. Veðurspáin fyrir daginn virtist þokkaleg og var því ákveðið að taka upp tjöldin og halda af stað. Þegar við komum að uppgönguleiðinni á Hvannadalshnúk var orðið verulega hvasst og afráðið var að hætta við og halda beint niður af jöklinum. Við gengum yfir sléttu Öræfajökuls í miklum vindi og algerri blindu. Þegar við komum út á brún við Hnappana jókst vindurinn gríðarlega. Það var skollið á fárviðri. Svo mikill var vindstyrkurinn að ekki var hægt að koma upp tjöldum til að komast í skjól. Það var ekki um annað að ræða en að komast niður af jöklinum. Við tók mjög krefjandi barátta við að komast slysalaust niður sprunginn jökulinn. Það tókst við illan leik og var komið fram á nótt þegar við loksins komumst í hús. Þá var veðrið á jöklinum gengið niður og tindar Öræfajökuls blöstu við í sól og blíðu. Það var ljóst að ef við hefðum frestað því að taka upp tjöldin um 12 tíma hefðum við sparað okkur ómælda erfiðleika og vandræði. Spáin sem ég hafði fengið fregnir af um morguninn var láglendisspá og stóðst hún vel enda var ágætis veður í Öræfasveitinni þennan dag. Á suðurbrún Öræfajökuls var hins vegar snælduvitlaust veður. Ef ég hefði haft aðgang að þeim netveðurspám sem eru nú komnar til sögunnar hefði ég án efa séð vindstyrkinn fyrir og frestað brottför.
Þessar nýju netveðurspár eru að mínu mati alger bylting og hafa reynst mér mjög vel. Í dag nota ég fyrst og fremst veðurþáttaspá, skýjahuluspá og Atlantshafsspá á vedur.is en skoða einnig ýmsar aðrar upplýsingar. Það hefur oft komið mér skemmtilega á óvart hversu nákvæmar spárnar eru orðnar. Tilfellið er að þarna eru mun meiri upplýsingar en virðist í fyrstu sýn en það þarf reynslu til að lesa úr þeim og túlka þær. Með því að horfa á þessar spár hef ég oft fært brottför á fjallgöngu til um nokkrar klukkustundir og hefur það skipt sköpum um að fá hagstætt veður.
Síðustu ár hef ég orðið var við að fjallafólk sé farið að styðjast við spár frá norsku veðurstofunni á yr.no. Þessar spár eru að mörgu leyti aðgengilegar. Þær eru þó ekkert annað en staðarspár og hafa því engan veginn sambærilegar upplýsingar og veðurþáttaspár á vedur.is. Auk þess eru reiknipunktar Veðurstofu Íslands mun þéttari en hjá norsku veðurstofunni. Það kann að villa mönnum sýn að á yr.no er hægt að fá veðurspá fyrir ótal marga staði á Íslandi en tilfellið er að upplýsingarnar eru sóttar í næsta reiknipunkt sem kann að vera marga kílómetra í burtu. Það er því ekki um sérstaka spá að ræða fyrir viðkomandi stað.
Það er ekki vafi í mínum huga að á vedur.is er framsetning á veðurupplýsingum með því besta sem gerist í heiminum. Þar eru nákvæmustu og ítarlegustu veðurupplýsingar að finna fyrir Ísland. Þessar spár hafa þó sínar takmarkanir og ekki hægt að treysta þeim í blindni. Sérstaklega verður að fara varlega í að treysta langtímaspánum. Almennt treysti ég ekki á spá nema tvo daga fram í tímann og helst vil ég hafa sólarhringsspá til að byggja á. Einnig verður að hafa í huga að þetta eru spár sem byggja á mjög flóknum útreikningum sem stundum reynast ekki réttir. Það eru því alltaf dæmi um að spáin gangi ekki eftir.