Karen Axelsdóttir - haus
24. mars 2010

Heilræði frá nýbökuðum Ironman

Ketill Helgason sem fór í Ironman China núna fyrir 10 dögum sendi mér þennan pistil.  Keppnin í Kína fer fram í miklu hita. Það sem einmitt það sem ég þarf að fást við núna á sunnudaginn og því koma ráð hans sér afar vel, en við Íslendingar og N-Evrópubúar erum eðlilega ekki mjög reynd þegar kemur að því að fást við slíkt.  Myndirnar eru teknar ef Katli í keppninni.

Kæra Karen

Mig langar að koma með nokkrar ábendingar um hluti sem ég hefði viljað hafa betur á bak við eyrað.

ketillfinish_973600.jpg

Vatnsbúskapur: Ég feilaði þarna. Ég bæði var að drekka kaffi dagana fyrir keppni og eins var ég ekki að drekka nóg af vatni. Ofan á það, þá tók ég ekki salt töflur þannig að það vatn sem ég drakk staldraði stutt við í líkamanum. Svona til að skreyta þetta að lokum, þá sniðgeng ég salt þegar ég elda og borða. Ég hélt að það væri nóg að drekka vatn á fullu á hjólinu og setja NUUN (www.nuun.com) töflur út í vatnið en það er víst ekki nóg. Einnig var ég ekki með saltpillur eða hylki á mér í hlaupinu, en það hefði verið mjög gott. Ég tel að þetta sé ein stærsta ástæðan fyrir því að þegar ég var búinn með um 140 km á hjólinu þá byrjaði ég að krampa í læri og kálfa sem fóru stigversnandi. Þetta varð í raun til þess að ég kom um tveimur til tveimur og hálfum tíma seinna í mark en ég hafði ráðgert.

Það er sagt að maður eigi að æfa eins og maður sé að keppa. Ég hef gert það varðandi að næra mig á hjólinu á u.þ.b. 30 mín fresti og stundum niður í 20 mín fresti. En þegar maður er að æfa í 5 til 15 stiga frosti og vatnið frýs í brúsanum á hjólinu, þá er erfitt að æfa vatnsbúskap fyrir keppni sem fer fram í 35 til 40 stiga hita. Bara reynslan getur hjálpið manni þar og líka góð ráð frá öðrum sem hafa lent illa í því. Kynntu þér þessa hluti áður en þú leggur í hann og gleymdu ekki að huga að því að drekka vel dagana fyrir keppni.

ketillhjol.jpg

Annað sem ég vil benda á. Í Ironman keppni þá eru tjöld á skiptisvæðinu. Stundum er boðið uppá læknisþjónustu , þannig að þú ert með eymsli þegar þú kemur af hjólinu þá er kannski möguleiki á að fá íspoka til að kæla svæðið. Ég var ekki búin að átta mig á þessu en hefði gjarnan viljað vita af þessu á sínum tíma. Líka getur verið gott að hafa sett kælispray í hlaupa pokann, þannig þegar þú kemur af hjólinu þá ertu með þitt eigið spray og getur jafnvel tekið það með þér í hlaupið ef þér finnst svo. Þannig ég mæli með því að fólk kynni sér í smáatriðum hvað er boðið uppá á skiptisvæðinu. Það er allt örðuvísi heldur en í hefðbundnum OL vegalengdar þríþrautum.

Að lokum, hafðu það sem allra best og mundu að fagna ógurlega þegar þú hleypur yfir línuna.

Kveðja, Ketill