Karen Axelsdóttir - haus
8. september 2010

Farin að telja niður

ssp_ab_5295.jpgNúna eru 2 dagar í brottför og 4 dagar í heimsmeistaramótið. Ég á einungis eftir 2-3 æfingar þar sem ég tek stutta spretti. Í raun get ég gert það sem mér sýnist æfingalega séð því úr því sem komið er ekkert sem gerir mig meira "fit" og það eina sem skiptir máli er að vera vel stemmd og passlega hvíld. Ég hef fókusað á hlaupin síðustu 2 vikur þar sem hjólavöllurinn í Búdapest er of stuttur 38.5 km í stað 40 km en hlaupið er mun lengra þ.e hlaupin úr sundinu á skiptivæði er 800 metrar. Skiptisvæðin eru svo bæði 700 metrar. Það gera 2.2 km aukalega sem er tvímælalaust sterkum hlaupurum í hag. Það er auðvitað þreytandi að vegalengdirnar séu ekki nákvæmar, en þetta er oftast svona á stórmótum því keppendur eru svo margir og þá þarf langt skiptisvæði til að ná utan um öll hjólin. Atvinnumenn losna við þetta en skiptisvæðið þeirra er alltaf mjög stutt og alveg við sundstartið. Þetta sýnir hvað munurinn er oft mikill á milli valla og þess vegna erfitt að tala um persónuleg met eða bera saman afrekaskrár nema völlurinn sé sá sami og vegalengd í skiptisvæði jafnlöng. Svo ekki sé minnst á veðráttu eða hvað völlurinn er hæðóttur sem spilar einnig mikið inní. Þannig þó ég fari einn völl á 2:09 þá get ég farið þann næsta á 2:16. Í Ironman getur þessi munur verið 45 mínútur hjá fremstu mönnum milli valla t.d ef þú berð saman tíma sömu atvinnumanna sem fara mismunandi velli á sama keppnistímabili. Það skyggir þó ekki á Íslandsmet Steins um helgina, því völlurinn sem gamla metið var sett á er almennt talinn hraðasti Ironmanvöllur í heimi.

Annars er ég vel stemmd og hlakka til helgarinnar. Startlistinn er feitur, um 80 konur í hverjum aldurshóp sem gera 500-600 keppendur í kvennaflokki. Það er spennandi og ótrúlegt að vera að keppa við fólk sem kemur alla leið frá Japan, Suður-Afríku, Chile og Rússlandi svo fátt eitt sé nefnt.