Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Járnkonan er mætt
11. júlí 2011

Járnkonan er mætt

2011IronmanAustria 102 Í næstu viku hefst hjá mér undirbúningstími fyrir heimsmeistaramótið í Ironman sem haldið verður í Hawaii þann 8 október en ég vann mér inn þátttökurétt þangað eftir góðan árangur í Ironman Austria núna um daginn. Eftir að hafa fengið mikinn fjölda af skeytum og beiðnum ákvað ég að taka upp pennann og leyfa ykkur að fylgjast með þessu ferðalagi. Ég hætti að skrifa í fyrra einfaldlega af því að það er tímafrekt og ég var gjörsamlega örmagna af því að reyna að púsla saman bar stífum æfingum og keppnum, barnauppeldi, vinnu og auðvitað öllu öðru sem fylgir því að reka heimili. Stundum þarf maður að velja og hafna. 

Núna finnst mér ég vera að springa úr orku (gæti rafknúið heilt hverfi segja vinirnir) og ég hlakka til að deila með ykkur krefjandi og skemmtilegum undirbúningi sem framundan er næstu 3 mánuði. Sumarfríið í ágúst verður tekið með trompi, allt lagt í sölurnar og ég stefni á að æfa meira en nokkru sinni fyrr. Það verða blóð, sviti og tár en umfram allt verður gaman og ég ætla að njóta mín á hverri einustu æfingu. Eiginmaðurinn ætlar að styðja við bakið á mér, svo ég geti æft almennilega. Hljómar klisjulega en ég get ekki lýst því hvað ég er þakklát fyrir að vera svona vel gift, hvað ég á góða fjölskyldu og fyrir stuðning sem ég hef fengið frá ykkur lesendum. Ég verð að mestu á Íslandi á þessum tíma þannig það verður spennandi að sjá hvort mér takist að skapa mér góða æfinga rútinu og æfingaaðstæður en eins og þið þekkið öll þá er mun erfiðara að stunda æfingar eða vinnu þegar að maður er í fríi einhvers staðar eða fjarri vinnustað. Vonandi næ ég að troða slóðina fyrir fleiri íslenskt þríþrautarfólk til Hawaii og auðvelda þeim verkið í framtíðinni með því að sjá hvað þarf til og hvernig ég púsla þessu saman.