Karen Axelsdóttir - haus
13. júlí 2011

Engin risaeðla á hlaupabrautinni

Eftir 9 daga hvíld frá æfingum þá er ég aðeins byrjuð að hreyfa mig aftur. Ég hjólaði smá í gær og tók stutta hlaupaæfingu í kvöld. Ég bjóst við að vera eins og stirð risaeðla á hlaupabrautinni en ég blés varla úr nös við það að hlaupa 4 x 1 km á 3:36. Var með mér til skemmtunar með tvo fyrrverandi ólympíu róðramenn á hælunum sem voru við það að fá hjartastopp.  Þetta er  meiri hraði en ég var að æfa á í Ironman undirbúningum og reyndar meiri hraði en ég hef hlaupið á síðustu 10 mánuði.  Ágætt að fá smá ferskleika í þetta og ég ætla að leika mér í stuttum og snörpum æfingum næstu daga áður en ég byrja í Hawaii prógramminu. Ég hreinlega skil ekki hvað ég hef komist vel í gegnum þessa Ironman keppni. Það var slatti eftir í tanknum í sjálfri keppninni. Ég meira að segja hjólaði 6 km uppá hótel eftir keppni og dansaði svo fram eftir öllu á verðlaunahátíðinni kvöldið eftir. Kanski er ég á þessu fræga skýi sem fylgir erfiðum keppnum. Þá eru keppendur orkumiklir strax eftir keppni en brotlenda svo í margar vikur jafnvel mánuði eftir það. Ég neyddi mig þess vegna til að æfa nákvæmlega ekki neitt þessa 9 daga þó ég hefði alveg verið til í það fyrr. Reynslan hefur kennt mér að eftir svona átök þá er líkaminn miklu þreyttari en ég geri mér grein fyrir og ónæmiskerfið afar  veikt.