Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Trúum á vinsamlega samvinnu þjóðanna

Ræðan, sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra Íslands, flutti í Washington hinn 4. apríl 1949, er Atlantshafssáttmálinn var undirritaður, fer hér á eftir:

„Þjóðir þær, sem nú eru að ganga í þetta nýja bræðralag, eru að mörgu leyti ólíkar hver annarri. Sumar þeirra eru hinar mestu og voldugustu í heimi, aðrar eru smáar og lítils megandi. Engin er þó minni nje má sín minna en þjóð mín - íslenska þjóðin. Íslendingar eru vopnlausir og hafa verið vopnlausir síðan á dögum víkinganna, forfeðra okkar. Við höfum engan her og getum ekki haft.

Ísland hefir aldrei farið með hernað gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við nje munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af sameinuðu þjóðunum. Staðreynd er að við getum alls ekki varið okkur gegn neinni erlendri, vopnaðri árás. Við vorum þess vegna í vafa um, hvort við gætum gerst aðilar þessa varnarbandalags, en svo getur staðið á, að Ísland hafi úrslitaþýðingu um öryggi landanna við Norður-Atlantshaf.

Í síðasta stríði tók Bretland að sjer varnir Íslands, og síðan gerðum við samning við stjórn Bandaríkjanna um hervarnir Íslands meðan á stríðinu stóð. Aðild okkar að Norðuratlantshafssamningnum sýnir, að bæði sjálfra okkar vegna og annarra viljum við svipaða skipan og þá á vörnum landsins, ef ný styrjöld brýtst út, sem við vonum og biðjum að ekki verði.

Tilheyrum frjálsu samfjelagi frjálsra þjóða
En það er ekki aðeins þessi ástæða, sem ráðið hefir afstöðu okkar. Við viljum einnig láta það koma alveg ótvírætt fram, að við tilheyrum og viljum tilheyra því frjálsa samfjelagi frjálsra þjóða, sem nú er formlega verið að stofna.

Að vísu er það rjett, sem jeg áðan sagði, að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt. En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum, þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar - eða enginn.

Alstaðar sömu upplausnaröflin að verki
Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Alstaðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum. Þegar samningur þessi var ræddur á Alþingi Íslendinga, reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu.

Slíkt ofbeldi hefir aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að hrópa á frið. Þetta framferði að kasta grjóti með höndunum, en hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga nje vestræna menningu. Allir vitum við, hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari.

Tilheyrum sömu menningu
En það er ekki aðeins þessi ógnun við heimsfriðinn og velferð mannkynsins, sem sameinar okkur. Það er heldur ekki einungis það, að lönd okkar eru öll í sama heimshluta. Sterkari bönd tengja okkur saman.

Allir tilheyrum við sömu menningunni, allir mundum við fremur kjósa að missa lífið en frelsið, hvort heldur frelsi sjálfra okkar, eða þjóða okkar. Allir trúum við á vinsamlega samvinnu þjóða í milli - allir óskum við heiminum friðar og mannkyninu velferðar.

Þessvegna hittumst við hjer í dag með góðar vonir í brjósti til að tengjast tryggðaböndum með undirskrift þessa samnings.“


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO