Eðlileg viðbrögð að fella tár

Guðrún Karls Helgudóttir, Biskup Íslands, ræðir við mbl.is.
Guðrún Karls Helgudóttir, Biskup Íslands, ræðir við mbl.is. mbl.is/Karítas

Þungt er yfir íslensku samfélagi eftir öldu ofbeldis að undanförnu og finna margir fyrir depurð. Það að Íslendingum líði illa er þó heilbrigðismerki því það sýnir að við höfum samkennd.

Þetta segir Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, í samtali við mbl.is.

Sjö manns hef­ur verið banað á ár­inu af hendi annarr­ar mann­eskju, þar af eru þrjú fórnarlömb á bransaldri. Í heild hafa tólf mann­eskj­ur verið myrt­ar á Íslandi á u.þ.b. síðustu átján mánuðum.

„Við erum öll sleginn og það er þungt yfir samfélaginu – yfir okkur Íslendingum núna. Það má eiginlega segja að þjóðin þurfi sálgæslu. En ástæðan fyrir því að okkur líður svona illa er sú að við höfum samkennd og það er heilbrigðismerki,“ segir hún.

„Þetta var einhvern veginn of mikið“

Guðrún segir fólk vera í leit að tilgangi og merkingu yfir því sem hefur gerst, en tilgangsleysið í atburðunum sé algjört.

Það hafi verið fallegt og gott þegar foreldrar Bryndísar Klöru, sem lést eftir stunguárás á menningarnótt, kölluðu eftir því að samfélagið myndi læra af voðaverkinu og reyna gera samfélagið kærleiksríkara.

„Svona um það bil þegar við vorum að ná áttum með það sem hafði gerst þar þá bætist við andlát af einu öðru barni og þetta var einhvern veginn of mikið,“ segir Guðrún og vísar í andlát 10 ára gamallar stúlku sem var ráðinn bani á sunnudag.

Sér­stök kyrrðar- og bæna­stund var í Dóm­kirkj­unni í Reykja­vík í …
Sér­stök kyrrðar- og bæna­stund var í Dóm­kirkj­unni í Reykja­vík í gær­kvöldi vegna þeirra áfalla sem dunið hafa á sam­fé­lag­inu síðustu daga og vik­ur. mbl.is/Eyþór

Kirkjurnar koma sterkar inn

Hún segir að grundvallaratriði í sorgarvinnu, áfallahjálp og sálgæslu sé að tala um tilfinningarnar sem maður ber innra með sér, ræða um það sem hefur gerst, hvernig fólki líður og spegla sig í öðru fólki.

„Þarna koma kirkjurnar mjög sterkar inn, enda í öllum þessum atburðum sem hafa átt sér stað allt þetta ár – það eru sjö manneskjur sem hafa verið myrtar á Íslandi á þessu ári og af því þrjú börn – og í öllum þessum málum koma prestar og djáknar.

Kirkjan er að styðja allt það fólk sem er í kringum þau og kirkjurnar bjóða upp á rými til þess að koma inn, sitja í þögn, kveikja á kerti en líka til þess að eiga samtöl,“ segir Guðrún og bendir á að það hafi verið boðið upp á fjölmargar bænastundir að undanförnu.

Samkenndin veitir fjölskyldum fórnarlamba styrk

Getur fólk fundið samfélag í kirkjunni á svona stundum?

„Já, það getur það svo sannarlega og það er svolítið það sem kirkjan er til fyrir,“ svarar hún.

Hún segir að það séu eðlileg viðbrögð að fella tár yfir atburðunum þrátt fyrir það að hafa enga tengingu við fórnarlömb ofbeldisins eða aðstandendur.

„Ég held að það sé mjög dýrmætt fyrir þær fjölskyldur sem standa næst þessum einstaklingum að finna þetta, að finna samkenndina í samfélaginu. Það veitir þeim styrk.“

Reynum að vera kærleiksríkari í dag en í gær

Spurð hvað fólk getur gert í dag til þess að reyna gera samfélagið að aðeins betri stað segir Guðrún:

„Það er með því að reyna alltaf, á hverjum einasta degi, að verða svolítið kærleiksríkari og betri manneskja en í gær. En líka með því að sjá náungann og með því að sjá fólkið í kringum okkur.

Kannski átta okkur á því að hver einasta manneskja sem við sjáum, hún er að bera eitthvað sem við vitum ekkert um. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum almennileg, að við séum ekki að ráðast á náungann – hvort sem það er á raunheimum eða netheimum.“

Hún bætir því við að það skipti máli að ræða við börn og að „halda okkur við staðreyndir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert