Virkni eldgossins milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells virðist hafa náð hámarki.
Gossprungan er hætt að stækka og benda engar mælingar Veðurstofu til þess að virknin muni aukast, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar.
Lengd sprungunnar er áætluð um þrír kílómetrar og dreifist hraunstraumurinn bæði til austurs og vesturs. Hraunið sem rennur til vesturs er nú um 500 metra frá Grindavíkurvegi.
Hraun flæðir ekki í átt til Grindavíkur.
Gosið virðist minna en það sem hófst í ágúst. Er áætlað hraunflæði nú um 1.300 rúmmetrar á sekúndu samanborið við 2.500 rúmmetra í síðasta gosi.
Aðdragandi þessa gos er ólíkur fyrri eldgosum á Reykjanesskaga að því leytinu til að skjálftavirkni jókst ekki á svæðinu vikurnar fyrir eldsumbrotin.
Kvikumagnið sem hafði safnast undir Svartsengi var svipað og fyrir síðasta gos. Aftur á móti hefur þróunin undanfarið ár verið með þeim hætti að sífellt meira magn af kviku hefur þurft að safnast fyrir undir Svartsengi til að koma af stað næsta atburði.
„Þetta er vísbending um að það mynstur sem sést hefur hingað til í fyrri eldgosum er mögulega að breytast.“
Runólfur Þórhallsson, sviðsstjóri almannavarna, sagði við mbl.is fyrr í nótt að hraunrennslið stefndi í átt að Grindavíkurvegi.
Sagði hann almannavarnir skoða mögulegar sviðsmyndir sem geti orðið í tengslum við innviði og hvaða ráðstafana þurfi að grípa til.
Haldi hraunflæðið áfram með svipuðum styrk geti það stefnt í áttina að lögnum sem þurfi að verja. Eins þurfi að fylgjast með því hvort varnarmannvirkin haldi örugglega.