„Ég ætla að djamma þar til ég drepst“

Lífið hefur heldur betur breyst. Ívar sinnir hefbundnum störfum í …
Lífið hefur heldur betur breyst. Ívar sinnir hefbundnum störfum í sveitinni eins og að slá. Ljósmynd úr einkasafni

Ég ætla að djamma þar til ég drepst hverfist um endurminningar höfundarins Ívars Arnar Katrínarsonar, en hann á að baki langa neyslusögu. Bókin er harm- og glæpasaga og vitnisburður um það sem gerist í heimi fíkniefna á Íslandi og í undirheimum Reykjavíkur.

„Þetta er saga um mann sem kom sér í aðstæður sem tættu hann í sundur, en með góðum afleiðingum.“

Bókarkápan grípur afstöðu Ívars til lífsins þegar hann var í …
Bókarkápan grípur afstöðu Ívars til lífsins þegar hann var í neyslu.

Ívar hefur skrifað lagatexta frá því hann var níu ára gamall, en hann var m.a. í hljómsveitinni Dr. Mister & Mr. Handsome. Hann segist þó aldrei hafa skrifað neitt í líkingu við þessa bók. Til að klára ferlið stofnaði hann sína eigin útgáfu, Loforð útgáfu, eftir að hafa fengið höfnun hjá öðrum útgefendum. Bókafélagið sér um dreifingu í verslanir, en kom einnig að prófarkarlestri, kápuhönnun, prentmiðlun o.fl.

„Þetta er svakaleg vinna og ég hefði aldrei getað þetta einn.“

Hér með fyrsta upplagið af bókinni, Ég ætla að djamma …
Hér með fyrsta upplagið af bókinni, Ég ætla að djamma þar til ég drepst. Ljósmynd úr einkasafni

Skrifaði sig frá svartnættinu

Ívar segist hafa byrjað að skrifa sögu sína til að takast á við áfallastreituröskun. Hann hafi látið allt flakka því í byrjun var sagan ekki skrifuð með það í huga að aðrir myndu lesa hana.

„Fyrir suma gæti þetta verið eins og ég tali af léttúð um mjög alvarlega hluti og fari kannski fullmikið út í grófar lýsingar,“ segir Ívar en tekur það fram að með skrifunum vilji hann einnig ná til þeirra sem eru á þeim stað sem hann var sjálfur á.

„Þegar ég var ellefu ára byrjaði ég að reykja kannabis og drekka áfengi.“ Þar hófst löng saga fíknar og vegferðin í svartnættið. „Sextán ára prófaði ég kókaín, e-pillur og allt þetta,“ bætir Ívar við og segist hafa verið í neyslu þessara efna í mörg ár.

„Ég fiktaði við að sprauta mig 27 ára og gerði það annað slagið í mörg ár,“ og lýsir Ívar hvernig mynstur neyslunnar hafi tekið breytingum yfir ólík tímabil. Hann hafi t.a.m verið á sýru í tvö ár.

„Síðustu tíu árin af minni neyslu var ég aðallega í amfetamíni og áfengi.“ Sprautuneyslan hafi þó tekið yfir allt þessi þrjú ár áður en hann varð edrú.

Partur af batanum

„Þessi bók er búin að bjarga lífi mínu,“ segir Ívar og áréttar að gott sé að kveðja þetta gamla og gera upp ákveðna hluti.

Sigríður Kristín Helgadóttir fyrrum sóknarprestur á Hvolsvelli, þar sem Ívar er nú búsettur, ráðlagði honum að skrifa um líðan sína og reynslu. Þótt hann hafi ekki lagt upp með að skrifa heila bók þá stefndi fljótt í það eftir viðbrögð hans nánustu.

Móðir Ívars var sú sem las fyrstu textana og sagði að hann yrði að skrifa bók. Friðrik Erlingsson, rithöfundur og fjölskylduvinur, las einnig texta eftir Ívar, gaf honum ráð varðandi skrifin og hvatti hann áfram.

Ívar segir móður sína hafa endurheimt strákana sína eftir áratugi …
Ívar segir móður sína hafa endurheimt strákana sína eftir áratugi af rugli og neyslu. Ljósmynd úr einkasafni

Örlagarík lífsreynsla

Edrúdagur Ívars er 9. júní 2023, en það er dagurinn sem hann fór á Vog.

„Á þessum tíma var ég kominn algerlega í þrot og ekkert víst að líkaminn hefði höndlað neysluna mikið lengur. Svo var það eitt skiptið þegar ég var að sækja krukku af amfetamíni að það var setið fyrir mér og ég laminn. Þá er eins og eitthvað hafi runnið upp fyrir mér.“

Ívar lýsir því að tíminn sem barsmíðarnar stóðu yfir hafi liðið eins og í hægmynd. Á þeim tímapunkti var innri rödd sem hvíslaði: „Jæja, er þetta ekki komið gott.“

Daginn eftir hringdi Ívar á Vog og fékk inn fimm dögum síðar. Þar segist hann hafa átt góðan tíma eftir að hafa sofið í fjóra sólarhringa.

Ívar segir konuna sína, Brynju Mist Snorradóttur, vera enn eitt …
Ívar segir konuna sína, Brynju Mist Snorradóttur, vera enn eitt kraftaverkið í lífi hans. Ljósmynd úr einkasafni

Gengur með Guði

„Þegar ég var staddur í miðjunni á fellibylnum áttaði ég mig ekki á hættunni,“ segir Ívar og lýsir því hvernig allt ógeðið hafi runnið upp fyrir honum inni á Vogi.

Hann átti langan tíma í ástandi þar sem eftisjáin og skömmin náðu til hans. Svo hafi hann brotnað niður og grátið út bæn til Guðs.

„Og svo mætir Guð mér og ég byrjaði að finna frið,“ sem var eitthvað sem Ívar þekkti ekki áður. Í þetta rúmlega ár sem hann hefur verið edrú segist hann ekki hafa farið í fíkn né fengið hugmynd um að fá sér fíkniefni.

Ívar ásamt Rebekku systur sinni á pop-up markaði frá Sveitabúðinni …
Ívar ásamt Rebekku systur sinni á pop-up markaði frá Sveitabúðinni Unu, rétt fyrir utan Vík í Mýrdal. Ljósmynd úr einkasafni

„Ég lifi ekki í eftirsjá“

Ívar verður 42 ára á árinu og er sex barna faðir. Hann stígur varlega til jarðar þegar kemur að því að styrkja sambandið við börnin. Hann segist vinna ötullega í að komast á betri stað en að markmiðið sé að á einhverjum tímapunkti verði hann kominn í samband við öll börnin sín.

Hvað gerirðu til að halda þér edrú?

Ívar segist vera virkur í trúnni.

„Ég geng með Guði og það heldur mér edrú,“ svo var lykilatriði fyrir mig að fara úr borginni. Eftir að hann varð edrú flutti hann á Hvolsvöll og segir stuðninginn frá fjölskyldunni ómetanlegan.

„Ég lifi ekki í eftirsjá.“ Trúin hefur hjálpað Ívari að finna þakklætið fyrir lífsgönguna sem leiddi hann á betri stað.

Aðspurður segist hann stoltastur yfir bókinni og börnunum sínum og að draumurinn sé að gefa út fleiri bækur sem hreyfa við fólki.

Ég ætla að djamma þar til ég drepst er fáanleg í öllum helstu bókaverslunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda