Hæstaréttarlögmaður brýnir fyrir sjómönnum að ganga úr skugga um að rétt sé staðið að skráninum á slysum sem verða til sjós. Miklir hagsmunir séu í húfi og mikilvægt er að leita strax til stéttarfélags ef menn verða fyrir meiðslum.
Jónas Þór Jónasson, hæstaréttarlögmaður og eigandi á lögmannsstofunni Jónas og Jónas Þór sf., hefur áralanga reynslu af líkamstjónamálum og sérhæfir sig í slysamálum sjómanna.
Eins og fram kom í frétt 200 mílna voru 219 slys á sjómönnum skráð hjá Sjúkratryggingum Íslands árið 2015, en af þeim var einungis 51 tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa, RNSA.
Sætir furðu að svo lágt hlutfall slysa sem verða til sjós séu tilkynnt með réttum hætti til RNSA þar sem lögbundin skylda hvílir á sérhverjum sem veit um sjóslys eða sjóatvik að tilkynna það til nefndarinnar. RNSA hefur margsinnis látið hafa eftir sér á opinberum vettvangi að menn virði þessa skyldu, enda greining og sundurliðun tölulegra upplýsinga um tildrög og eðli slysa veigamesti þátturinn í því að vinna gegn þessari vá.
„Það er skylt samkvæmt lögum að tilkynna öll slys til RNSA. Það ætti að vera dálítill þungi í þeirri staðreynd. En af þeim líkamstjónamálum sem ég hef sinnt vegna sjóslysa undanfarin ár hafa einungis um 5% ratað inn á borða RNSA. Ef rýnt er í þær skýrslur sem þó liggja fyrir í slíkum málum og ratað hafa inn á borð RNSA sést að langflestar tilkynningar koma þangað fyrir tilstilli lögreglu, Landhelgisgæslunnar eða annarra opinberra aðila, en í fæstum tilvikum frá útgerðunum sjálfum. Þó eru það útgerð og skipstjóri sem bera þessa skyldu öðrum fremur.”
Jónas tekur fram að hvergi sé tilgreint í lögum hvers eðlis slys þurfi að vera svo tilkynningaskylda stofnist en leggur áherslu á að hún sé skilyrðislaus og öll slys beri að tilkynna með réttum hætti til RNSA. Tilgangur og markmið nefndar á borð við RNSA sé enda að safna gögnum og tilkynningum vegna slysa svo hægt sé að finna leiðir til að fækka þeim. Sinni menn ekki tilkynningaskyldunni þá liggi í augum uppi að árangur af slíku starfi verði lítill eða enginn. Engu að síður sé staðreyndin sú að einungis hverfandi minnihluti slysa sé tilkynntur.
„Það vantar ósköp einfaldlega að halda betur utan um það að slysin séu tilkynnt með réttum hætti. Þó er ekkert stórmál að gera það,“ segir Jónas. „Það er gríðarlegur kostnaður sem fellur á samfélagið allt á ári hverju vegna vinnuslysa og sjómenn eru þar í sérstökum áhættuflokki, starfsaðstæðna sinna vegna. Þrátt fyrir það virðast sumir hirða lítið um að tilkynna svona atvik og á meðan það er þá helst staðan óbreytt.“
Fleira þarf þó að koma til svo að slys teljist skráð með réttum hætti. Samkvæmt reglum um skipsdagbækur skal skrá öll slys í skipsdagbók eigi síðar en í lok viðkomandi vaktar. Sé það ekki gert er hætta á að bótaréttur þess sem fyrir tjóninu verður skerðist eða hreinlega glatist.
„Ég hef heyrt það frá mínum umbjóðendum að sumir skipstjórar taki því fálega þegar menn leiti til þeirra svo skrá megi slys í dagbók eða fái bara hreinlega þau skilaboð að harka af sér, ekki sé hægt að skrá öll slysin sem verða um borð. Þetta leiði til þess að menn veigri sér við það að tilkynna um slys sem þeir verða fyrir um borð,“ segir Jónas.
Hann segir ráðningarmál til sjós hafa þróast í undarlega átt undanfarin ár: „Útgerðir eru margar hverjar farnar að gera tímabundna samninga við skipverja fyrir hverja veiðiferð fyrir sig og tilgangurinn er fyrst og síðast sá að fækka þeim tilvikum þar sem útgerðir þurfa að greiða slysa- eða veikindalaun en þetta leiðir einnig til skerðingar á öðrum réttindum sjómanna, svo sem til uppsagnarfrests og annarra starfsaldurstengdra réttinda.“
Jónas segir slíkt fyrirkomulag undarlegt: „Þetta gerir það að verkum að sjómenn sem veikjast eða verða fyrir slysi í frítíma sínum og verða óvinnufærir verða réttindalausir, eiga ekki rétt á greiðslu forfallalauna frá útgerð. Ef ekkert ráðningarsamband er fyrir hendi stofnast enginn veikindalaunaréttur í næstu veiðiferð eins og raunin væri ef menn væru fastráðnir. Það er í raun verið að leita allra leiða til að skera niður þessar forfallalaunagreiðslur.“
Samkvæmt skilmálum slysatrygginga sjómanna eiga þeir að verða eins settir fjárhagslega, slasist þeir við vinnu sína sem veldur óvinnufærni til lengri eða skemmri tíma, eins og ef slysið hefði aldrei orðið.
Ef sjómenn eru hins vegar ekki fastráðnir heldur eru ítrekað ráðnir til einnar veiðiferðar í senn, jafnvel þó svo að þeir hafi verið á sama skipinu um árabil, leiðir það til skerðingar á réttindum þeirra. „Þetta ráðningarfyrirkomulag er mjög slæmt og samræmist til dæmis illa tilgangi og markmiðum lögbundinna slysatrygginga sjómanna,“ bætir Jónas við.
„Stundum gerist það að menn meiða sig eitthvað en finna jafnvel ekki mikið fyrir því í fyrstu og veigra sér jafnvel við að kvarta við sína yfirmenn. Sumir harka af sér og klára jafnvel túrinn án þess að tilkynna um slys og fara heim í mánaðarfrí og tilkynna jafnvel ekki um slysið eða leita til læknis fyrr en löngu síðar, en þá kann að vera svo langur tími liðinn frá því að slysið varð að réttur þeirra er hugsanlega fallinn niður, jafnvel þótt afleiðingarnar kunni að há þeim til langframa og valda þeim erfiðleikum í lífi og starfi.“
„Sjómenn eru upp til hópa miklir naglar og kalla ekki allt ömmu sína,“ segir Jónas Þór, „en menn verða að sýna skynsemi í þessum málum og hugsa lengra. Staða þeirra getur orðið gríðarlega erfið ef ekki er skráð um slysin í skipsdagbók strax eða mjög fljótlega eftir að þau gerast.”
Hann vekur athygli á því að orðrétt segir í lögum að „samkvæmt ákvæðum laga um vátryggingasamninga fellur bótaréttur niður ef slys er ekki tilkynnt til tryggingafélags innan árs frá því hinn slasaði hafði mátt gera sér grein fyrir að um varanlegar afleiðingar slyss væri að ræða. Þá skiptir engu þótt viðkomandi sé þá eða verði síðar óvinnufær til sjós til framtíðar, hafi tilkynning um slysið komið of seint fram hefur viðkomandi glatað öllum sínum rétti til bóta úr slysatryggingu.“
Þótt nauðsynlegt sé að láta skrá slys sem verða til sjós og leita læknis eins fljótt og við verður komið er það hins vegar aðeins byrjunin á ferlinu. Jónas segir gríðarlega mikilvægt að sjómenn setji sig í samband við sitt verkalýðsfélag strax til að koma málum í ferli til að tryggja réttindi sín. Mörgum reynist erfitt að átta sig á því hvernig þeir eiga að bera sig að eða hvert skuli leita, og Jónas leggur mikla áherslu á að leitað sé fagmanna á þessu sviði.
En eru margar lögmannsstofur sem sérhæfa sig í slysamálum sjómanna? „Við höfum gert það, einblínt á sjómennina. Við höfum mikla þekkingu og reynslu í þessum málaflokki,“ segir Jónas að lokum.