Sjómannasambandið vísar því á bug að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi komið til móts við flestar kröfur sjómanna í yfirstandandi kjaradeilum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sambandinu.
Þannig hafi verið hafnað þeirri kröfu sjómanna að viðsemjendur þeirra bættu þeim upp þá ákvörðun ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að afnema sjómannaafsláttinn sem og að skipverjar fái greitt fyrir þann tíma sem það tekur að ferðast á milli heimilis og skips þegar landað er utan heimahafnar.
Hér á eftir fer listi frá Sjómannasambandinu yfir kröfur sem það hefur sett fram og hvernig þeim hefur verið tekið að þess sögn. Fram kemur að listinn sé ekki tæmandi en sýni stóru myndina. Tekið er fram að vitanlega séu útgerðarmenn einnig með sinn lista yfir kröfur sem flestum hefur verið hafnað. Það sé önnur saga.
1. Sjómannaafslátturinn var sleginn af í tíð síðustu ríkisstjórnar og nú fá sjómenn engan afslátt á sköttum sínum. Ríkið er ekki samningsaðili og sjómenn snúa sér auðvitað til sinna viðsemjenda og reisa kröfu um að útgerðin bæti sjómönnum sjómannaafsláttinn. Sú krafa er enda á útgerðinasem hljóðar svo í kröfugerð sjómanna: „Útgerðin greiði mánaðarlega laun sem bæta skerðingu sjómannaafsláttar.“ Hafnað.
2. Verðmyndun á fiski. Komið var til móts við kröfu okkar um allan fisk á markað. Þ.e. verð á slægðum þorski verði 80% af markaðsverði.
3. Hlutaskiptin. Olíuverðsviðmiðun endurskoðuð/afnumin. Olíuverðsviðmiðunar töflur hækkaðar um erlenda verðbólgu. Nægir þó ekki til að hækka skiptaprósentur þrátt fyrir tiltölulega lágt olíuverð. Skiptaprósenta verður áfram 70% og 72% á frystitogurum.
4. Heildarverðmæti VS afla komi til skipta, ekki 20% aflaverðmætis eins og nú er. Hafnað. Mál er nú fyrir Héraðsdómi til viðurkenningar á þessu.
5. Skýr ákvæði um að sjómenn sæti ekki launaskerðingu vegna landhelgisbrota. Hafnað.
6. Slysa- og veikindaréttur. Settar verði skýrar reglur um kaupgreiðslur, veikindarétt í skiptimannakerfum. Tilraun var gerð í þá átt en gekk ekki. Þarf að skoðast betur.
7. Framlag komi frá útgerð í starfsmenntasjóði. Fjarskiptakostnaður verði skilgreindur. Hafnað. Nema að gera könnun á fjarskiptakostnaði og skilgreina hann betur en nú er.
8. Kauptrygging og kaupliðir hækki verulega. Komið til móts við að verulegu leyti.
9. Orlofsprósentur verði lagfærðar og orlof miðist við starfsaldur á sjó. Að hluta til, réttindaávinnsla lagfærð.
10. Upphæð fæðispeninga hækki og verði endurskoðuð örar. Hafnað. Gert var samkomulag við ríkið að hluti fæðispeninga yrði skattfrjáls.
11. Aukahlutir á línuskipum og aukahlutir Baadermanna hækki og að netamenn verði á humarskipum og uppsjávarskipum. Hafnað.
12. Frí í heimahöfn frá 20. des til 2. janúar á öllum veiðum og frí við löndun á öllum veiðum. Hafnað.
13. Settar verði skorður við of mikili fækkun í áhöfn, þ.e. gólf í fækkun. Hafnað nema að því leyti að skoða eigi mönnun með könnunum á vinnutíma og hvíldartíma og að þær kannanir verði grundvöllur að nýjum reglum um mönnun.
14. Ákvæði um báta og togara undir 42. metrum verði lagfærð. Hafnað.
15. Stærðarviðmiðum í kjarasamningi breytt í metra úr brúttórúmlestum. Hafnað en fallist á að útgerð láti brúttó mæla þau skip sem eru það ekki.
16. Nýsmíðaálagið hverfi eða verði þrengt. Samþykkt að hluta til. Það hverfur á 14 árum.
17. Skipverjar fái greitt kaup þann tíma sem tekur að ferðast til og frá skipi þegar það er utan heimahafnar. Hafnað.
18. Fatapeningar hækki verulega eða útgerð skaffi allan vinnufatnað. Samþykkt að hluta til. Fatapeningar hækkuðu um 130% og skerpt var á ákvæði að heimilt væri útgerð og sjómönnum að semja um frían vinnufatnað gegn niðurfellingu fatapeninga.