„Gátum ekkert annað gert en beðið“

Barðinn strandaði við Hólahóla á Snæfellsnesi.
Barðinn strandaði við Hólahóla á Snæfellsnesi. mbl.is/RAX

Þrjátíu ár eru í dag liðin frá því þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, bjargaði níu skipverjum af Barðanum GK-475. Skipið var komið upp í kletta norður undir Hólahólum á Snæfellsnesi þegar varðskipinu Óðni barst neyðarkall.

Óðinn tilkynnti þá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um strandið og klukkan 6.47 um morguninn hafði áhöfn þyrlunnar verið kölluð út. Þyrlan var komin í loftið klukkan 7.31, en þyrla varnarliðsins komst ekki í loftið á þeim tíma, vegna óveðurs og ísingar yfir Keflavík.

„Aðkoman var ekki glæsileg því báturinn var á hliðinni, skorðaður milli kletta og sjóirnir gengu yfir hann og ekkert lífsmark að sjá,“ sagði Páll Halldórsson í samtali við Morgunblaðið degi eftir björgunina, sunnudaginn 15. mars.

Sáu mann veifa inni í brúnni

„Björgunarsveitarmenn stóðu á klettaveggnum en líklega engin leið að koma fluglínutækjum að. Við flugum nokkra stund yfir og könnuðum allar aðstæður. Báturinn lá á hliðinni og möstrin voru það neðarlega að við vorum hræddir um að þau myndu slást upp ef hann rétti sig,“ sagði Páll.

„Við vorum búnir að fá tilkynningu um að nokkrir menn væru komnir upp í fjöru en það reyndust svo vera lóðabelgir. Eftir nokkrar mínútur sáu Sigurður og Kristján mann veifa inni í brúnni svo við tókum til starfa. Við settum lækninn í land þar sem hann kom sínum útbúnaði fyrir og bjó sig undir að taka á móti mönnunum.

Við komum á sambandi með svokallaðri tengilínu og tók maður á móti henni í brú bátsins; hann hefur líklega staðið á hurðarkarmi í brúnni. Sigurður sendi björgunarlykkjuna niður og hann sá á eftir lykkjunni niður og inn í brú. Síðan gekk þetta eins og hann væri á skaki.“

Skipið á siglingu í lygnum sjó.
Skipið á siglingu í lygnum sjó. mbl.is/Snorri Snorrason

Sex skip dældu olíu í sjóinn

„Mennirnir voru allir í herbergi skipstjórans og það var mjög erfitt að koma björgunarlykkjunni að,“ sagði Sigurður Steinar Ketilsson, stýrimaður á þyrlunni, í samtali við Morgunblaðið.

„Þó svo að við höfum æft hífingar við allar mögulegar aðstæður höfum við aldrei gert okkur grein fyrir að þessi staða gæti komið upp, að hífa menn út um dyr á brú. Við höfðum sigmann í þessari ferð sem víð ákváðum að nota ekki því við vildum ekki hætta lífi eins manns í viðbót. Þarna var haugasjór með einhverju versta sjólagi sem við þekkjum en 6 fiskiskip fyrir utan dældu olíu í sjóinn og lægðu hann og það hefur haft sitt að segja,“ sagði Sigurður.

Klukkan 8.51 var búið að bjarga 6 mönnum um borð í þyrluna og var þá farið með þá í land þar sem Guðmundur Björnsson læknir hafði sett upp eins konar heilsugæslustöð. Síðan voru þeir sem eftir voru sóttir og klukkan 8.58 var búið að bjarga síðasta manninum.

Guðsmildi að enginn skyldi slasast

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að skipverjarnir hafi allir verið mjög kaldir og hraktir þegar þeim var bjargað. Þar af var einn lífshættulega kaldur og var hann fluttur á Borgarspítalann. Guðsmildi hafi þá verið að enginn skyldi slasast þegar verið var að ná þeim upp við erfiðar aðstæður.

„En þeir hefðu ekki mátt vera meira en klukkutíma í viðbót í köldu vatninu,“ sagði Guðmundur.

„Þetta gekk eins og í lygasögu. Við lítum á þetta sem meiri háttar björgunarafrek hjá þyrluáhöfninni,“ sagði þá Bergþór Ingibergsson, stýrimaður á Barðanum.

Eini möguleikinn var að komast í þyrluna

„Báturinn lá á stjórnborðshliðinni uppi í klettunum og hallaði 70 eða 80 gráður. Við vorum allir í þvögu inni í kortaklefanum inn af stýrishúsinu. Stýrishúsið var opið og gekk sjórinn þar í gegn og annað hvert brot gekk yfir okkur þannig að við vorum allan tímann meira eða minna í sjó.

Við gátum ekki annað gert en beðið. Ekki voru neinar aðstæður til að taka við línu úr landi. Við sáum björgunarsveitarmennina í landi, en gátum ekkert gert. Eini möguleikinn var að komast í þyrluna.

Þyrlumönnunum tókst að slaka línunni beint niður um brúardyrnar og í hendurnar á okkur. Síðan kom björgunarstóllinn og þeir hífðu okkur upp, einn og einn í einu. Björgunin gekk ótrúlega vel.“

Fyrsta stóra björgun þyrlunnar

Á vef Landhelgisgæslunnar er björgunarinnar minnst í dag. Þar er hún sögð söguleg af mörgum ástæðum, ekki síst vegna þess að um fyrstu stóru björgun íslenskrar þyrlu var að ræða. Það sé þá samdóma álit flestra að ekki hefði reynst unnt að bjarga áhöfn Barðans, nema með aðstoð þyrlunnar.

Umfjöllun Morgunblaðsins 15. mars 1987

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.7.24 415,50 kr/kg
Þorskur, slægður 18.7.24 329,49 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.7.24 367,45 kr/kg
Ýsa, slægð 18.7.24 283,57 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.7.24 188,83 kr/kg
Ufsi, slægður 18.7.24 160,58 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 18.7.24 366,40 kr/kg
Litli karfi 8.7.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 1.7.24 106,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.7.24 Hafdís SK 4 Dragnót
Steinbítur 3.512 kg
Þorskur 977 kg
Ýsa 652 kg
Skarkoli 156 kg
Sandkoli 88 kg
Samtals 5.385 kg
18.7.24 Hafrún HU 12 Dragnót
Ýsa 7.462 kg
Steinbítur 1.185 kg
Þorskur 862 kg
Skarkoli 113 kg
Sandkoli 109 kg
Langlúra 7 kg
Samtals 9.738 kg
18.7.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Ýsa 3.274 kg
Þorskur 1.585 kg
Skarkoli 379 kg
Steinbítur 77 kg
Sandkoli 47 kg
Langlúra 31 kg
Þykkvalúra 2 kg
Samtals 5.395 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.7.24 415,50 kr/kg
Þorskur, slægður 18.7.24 329,49 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.7.24 367,45 kr/kg
Ýsa, slægð 18.7.24 283,57 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.7.24 188,83 kr/kg
Ufsi, slægður 18.7.24 160,58 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 18.7.24 366,40 kr/kg
Litli karfi 8.7.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 1.7.24 106,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.7.24 Hafdís SK 4 Dragnót
Steinbítur 3.512 kg
Þorskur 977 kg
Ýsa 652 kg
Skarkoli 156 kg
Sandkoli 88 kg
Samtals 5.385 kg
18.7.24 Hafrún HU 12 Dragnót
Ýsa 7.462 kg
Steinbítur 1.185 kg
Þorskur 862 kg
Skarkoli 113 kg
Sandkoli 109 kg
Langlúra 7 kg
Samtals 9.738 kg
18.7.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Ýsa 3.274 kg
Þorskur 1.585 kg
Skarkoli 379 kg
Steinbítur 77 kg
Sandkoli 47 kg
Langlúra 31 kg
Þykkvalúra 2 kg
Samtals 5.395 kg

Skoða allar landanir »