Hagnaður samstæðu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum nam tæplega 12,4 milljónum evra á liðnu ári, eða sem nemur tæplega 1,5 milljörðum íslenskra króna. Þetta kom fram á aðalfundi hlutafélagsins í dag. Hluthafar fá átta milljónir evra í arð, eða rúmlega 960 milljónir króna.
Í tilkynningu á vef Vinnslustöðvarinnar segir að rekstur og starfsemi hennar hafi gengið vel árið 2016. Afkoma félagsins hafi þá verið sú næstbesta frá upphafi.
Framlegð samstæðunnar var 20,4 milljónir evra, nánast hin sama og 2015, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þá jókst eigið fé um 9% og eiginfjárhlutfall er sagt vera 38%.
„Fjárfestingar voru miklar á árinu. Nýtt uppsjávarvinnsluhús var tekið í notkun, nýr togari er í smíðum í Kína og skip voru seld og keypt. Framkvæmdakostnaður var 18,4 milljónir evra, að frádregnu söluverði skipa,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
„Leiðarljósið er að láta byggðina í Vestmannaeyjum njóta góðs af arðsömum rekstri og fjárfestingum VSV og styrkja þannig stoðir samfélagsins heima fyrir.
Þrátt fyrir miklar fjárfestingarnar minnkuðu heildarskuldir og skuldbindingar VSV um 3% vegna þess að handbært fé frá fyrri árum var notað til að takast á við nýfjárfestingarnar. Handbært fé dróst að sama skapi saman í reikningum félagsins eða um ríflega 60%.“
Fram kemur að Vinnslustöðin hafi engin langtímalán tekið á árinu, en greitt 12,4 milljónir evra af langtímaskuldum sínum.
Aðalfundurinn samþykkti þá að greiða hluthöfum 8 milljónir evra í arð, sem svarar til 5% af áætluðu markaðsvirði hlutafjár. Þetta er fjórða árið í röð sem hluthafar VSV ákveða að greiða sér arð upp á 8 milljónir evra.
Fjórir stjórnarmenn af fimm voru endurkjörnir á aðalfundinum: Einar Þór Sverrisson, Guðmundur Örn Gunnarsson, Íris Róbertsdóttir og Rut Haraldsdóttir. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, var þá kjörinn í stjórn í stað Ingvars Eyfjörð, að því er segir í tilkynningunni.
„Í varastjórn voru kjörnir Eyjólfur Guðjónsson og Hjálmar Kristjánsson en þriðji frambjóðandinn til varastjórnar, Guðmunda Bjarnadóttir, fór inn í varastjórn á kynjakvóta og var því endurkjörin líkt og Eyjólfur.“