Tekst að ná betri samningi?

Ingólfur Friðriksson bendir á að í dag eru lagðir tollar …
Ingólfur Friðriksson bendir á að í dag eru lagðir tollar á sumar íslenskar sjávarafurðir sem seldar eru til Bretlands,s.s. lax, síld, hörpudisk og leturhumar. Kannski verður hægt að losna við þá tolla með nýjum samningum eftir Brexit.

Fyrr í vikunni hófust formlegar viðræður um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Mikið er í húfi fyrir íslensk fyrirtæki enda hefur aðild Bretlands að innri markaði EES þýtt að litlir sem engir tollar eru á flestum vörum sem fluttar eru á milli landanna. Ingólfur Friðriksson, sendiráðunautur hjá íslenska sendiráðinu í London, bendir á að ef vel tekst til megi gera betri fríverslunarsamning við Bretland og m.a. liðka enn frekar fyrir sölu sjávarafurða þangað.

„Þeir samningar sem eru núna í gildi þýða að flytja má flestar íslenskar sjávarafurðir inn til Bretlands á engum eða mjög lágum tollum. Á það t.d. við um öll fryst flök úr sjó, ferskan þorsk, ýsu, ufsa, grálúðu og rækju, og sömuleiðis er enginn tollur lagður á fiskimjöl eða lýsi sem selt er þangað. Aftur á móti eru ákveðnar vörur sem ekki falla undir EES-samninginn frá 1992 eða fríverslunarsamning Bretlands og Íslands frá 1972, sem enn er í gildi. Afurðir á borð við t.d. lax, síld, hörpudisk og leturhumar njóta takmarkaðri tollfríðinda eða jafnvel engra.“

Ingólfur flutti erindi á ráðstefnu sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hélt í síðustu viku í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Bændasamtökin. Yfirskrift ráðstefnunnar var Brexit – tækifæri og áskoranir til sjós og lands. Ingólfur er lögfræðingur að mennt, með mikla þekkingu á Evrópurétti og alþjóðlegum viðskiptarétti og reynslu af samningaviðræðum við önnur ríki. Hann hefur m.a. starfað hjá sendiráðum Íslands í Genf, París og Brussel, en var fluttur til Lundúna þegar sú ákvörðun var tekin í utanríkisráðuneytinu að styrkja sendiráðið þar vegna Brexit-ferlisins.

Semja Eftaríkin saman?

Segir Ingólfur að málin geti þróast á ýmsa vegu, og niðurstöður viðræðna Bretlands og ESB geti haft umtalsverða þýðingu fyrir samband Íslands og Bretlands. „Við stöndum frammi fyrir ákveðnum tímasetningarvanda því strangt til tekið er Bretland áfram aðildarríki ESB a.m.k. næstu tvö árin, og landið því formlega bundið af öllum reglum Evrópusambandsins. Þýðir það m.a. að Bretland má ekki ljúka við gerð neinna fríverslunarsamninga við önnur ríki á meðan. Hugsanlega geta bresk stjórnvöld átt í könnunarviðræðum, eða þreifingum, en líklega er ekki hægt að klára samninga fyrr en gengið er endanlega úr ESB.“

Íslensk stjórnvöld munu vinna út frá ólíkum sviðsmyndum, svo sem að Ísland semji tvíhliða, að EFTA-ríkin semji saman eða jafnvel að Bretland gangi í EFTA. Segir Ingólfur að það hafi farnast Íslandi vel að semja sameiginlega með EFTA-ríkjunum áður og eðlilegt sé að skoða þann kost vel. Segir hann að ráðherrar EFTA-ríkjanna hafi áhuga á samráði og samstarfi í tengslum við viðræður við Bretland, enda þótt engin ákvörðun liggi fyrir um samflot í viðræðum. Vilja ríkin reyna að tryggja að viðskipti séu sem frjálsust og einnig standa vörð um réttindi eigin borgara til að lifa, starfa og mennta sig í Bretlandi, og heimsækja landið sem ferðamenn hindrunarlaust.

Ingólfur segir utanríkisráðuneytið nú standa fyrir hagsmunagreiningu, undir stjórn Gunnars Snorra Gunnarssonar, í aðdraganda viðræðna við bresk stjórnvöld. „Við höfum undanfarið verið að sanka að okkur upplýsingum frá öllum ráðuneytum um hvaða áhrif þau sjá á sínum ábyrgðarsviðum ef þeir samningar sem núna gilda mili Íslands og Bretlands, í gegnum EES, falla niður. Er verið að leggja lokahönd á skýrslu þar sem svörin eru tekin saman, og hefst þá vinna við næsta fasa sem felst í víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Á sama tíma er meiningin að setja á laggirnar fimm hópa sem helgaðir verða mismunandi málefnasviðum. Þeir munu kafa betur ofan í helstu hagsmunamál og undirbúa viðræður Íslands og Bretlands.“

Bæði löndin eru hvort öðru háð

Reikna má með að hagsmunir íslensks sjávarútvegs verði settir á oddinn enda sjávarafurðir um 69% af útflutningi Íslands til Bretlands. „Árið 2016 seldu íslensk fyrirtæki Bretum fisk fyrir 41 milljarð króna, sem er um 18% af heildarverðmæti útfluttra íslenskra sjávarafurða,“ segir Ingólfur, og minnir á að Íslendingar eru Bretum mikilvægir sem seljendur, rétt eins og breski markaðurinn er Íslandi mikilvægur. „Ísland er stærsti birgir sjávarafurða á Bretlandsmarkaði miðað við virði seldrar vöru. Færeyingar koma í öðru sæti og Noregur nokkru neðar á blaði – hálfdrættingar í samanburði við Ísland.“

Semja þarf um fleira en tolla því ef Bretland kveður innri markað ESB þá þýðir það um leið að samræmd matvælalöggjöf Evrópusambandsins á ekki lengur við um viðskipti milli landanna. „Samræmda matvælalögjöfin þýðir að matvara sem framleidd er á Íslandi sætir ekki neinum úttektum við komuna til Evrópusambandsins og er það mikilvægur þáttur í að flytja ferskan fisk á Bretlandsmarkað. Íslensk fyrirtæki hafa líka notað Bretland sem brú yfir á Evrópumarkað. Fiskur er þá fluttur sjóleiðina eða með flugfrakt til Bretlands og svo áfram í gegnum flutningsnetið sem tengir Bretland og meginlandið. Útganga Bretlands ætti ekki að skapa vandamál fyrir vöru sem flutt er innsigluð á áfangastað á meginlandi Evrópu og tollafgreidd þar, en öðru gegnir um það ef ætlunin er að skipta sendingum upp eða vinna frekar í Bretlandi áður en þeim er dreift til kaupenda annars staðar í Evrópu. Er t.d. töluverð vinnsla á íslenskum fiski á Humberside-svæðinu, og eitthvað af honum kann að vera ætlað til áframsölu á meginlandinu.“

Vilji til að varðveita viðskiptatengslin

Að svo stöddu er aðeins hægt að reyna að giska á hvernig viðræður Bretlands og Íslands munu fara. Gefur tilefni til bjartsýni að margir breskir útgöngusinnar litu á skilnaðinn við ESB sem leið fyrir Bretland til að opna sig enn betur fyrir umheiminum. Skyldi þó ekki vanmeta samningamenn breska ríkisins, enda hafa þeir margoft sýnt það og sannað að þeir eru starfi sínu vaxnir og gott betur. Segir Ingólfur að samtöl við breska ráðamenn gefi til kynna ríkan vilja til að varðveita viðskiptatengsl ríkjanna eftir Brexit. „Þetta eru nýir og spennandi tímar fyrir Breta en ekki án áskorana. Undanfarin 30 ár hefur Brussel annast allar fríverslunarviðræður fyrir hönd Bretlands og það er ekki mikið af fólki í London sem hefur mikla reynslu af fríverslunarsamningagerð. Í kjölfar niðurstöðu Brexit-atkvæðagreiðslunnar var sett á laggirnar sérstakt utanríkisviðskiptaráðuneyti til að vinna að samningagerðinni og fólk ráðið þangað í stórum stíl en það hafa verið fréttir um að erfitt hafi reynst að fylla lausar stöður,“ segir Ingólfur. „Nú síðast rataði í fréttir að ráðinn hefði verið nýr aðalsamningamaður, Nýsjálendingurinn Crofford Falconer. Hann ætti að vera Íslendingum ágætlega kunnugur og leiddi m.a. mikilvæga samninganefnd um landbúnaðarmál hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 8.11.24 576,88 kr/kg
Þorskur, slægður 8.11.24 507,64 kr/kg
Ýsa, óslægð 8.11.24 335,58 kr/kg
Ýsa, slægð 8.11.24 231,56 kr/kg
Ufsi, óslægður 8.11.24 186,62 kr/kg
Ufsi, slægður 8.11.24 247,32 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 8.11.24 247,18 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

8.11.24 Hafrafell SU 65 Lína
Þorskur 2.854 kg
Keila 765 kg
Ýsa 271 kg
Steinbítur 87 kg
Hlýri 47 kg
Karfi 16 kg
Ufsi 9 kg
Samtals 4.049 kg
8.11.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 714 kg
Þorskur 206 kg
Þykkvalúra 38 kg
Sandkoli 25 kg
Samtals 983 kg
8.11.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 458 kg
Þorskur 230 kg
Sandkoli 13 kg
Þykkvalúra 11 kg
Ýsa 7 kg
Karfi 4 kg
Samtals 723 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 8.11.24 576,88 kr/kg
Þorskur, slægður 8.11.24 507,64 kr/kg
Ýsa, óslægð 8.11.24 335,58 kr/kg
Ýsa, slægð 8.11.24 231,56 kr/kg
Ufsi, óslægður 8.11.24 186,62 kr/kg
Ufsi, slægður 8.11.24 247,32 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 8.11.24 247,18 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

8.11.24 Hafrafell SU 65 Lína
Þorskur 2.854 kg
Keila 765 kg
Ýsa 271 kg
Steinbítur 87 kg
Hlýri 47 kg
Karfi 16 kg
Ufsi 9 kg
Samtals 4.049 kg
8.11.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 714 kg
Þorskur 206 kg
Þykkvalúra 38 kg
Sandkoli 25 kg
Samtals 983 kg
8.11.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 458 kg
Þorskur 230 kg
Sandkoli 13 kg
Þykkvalúra 11 kg
Ýsa 7 kg
Karfi 4 kg
Samtals 723 kg

Skoða allar landanir »