Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fagnaði með íbúum og starfsmönnum í afmælishófi Hrafnistu í Hafnarfirði þegar 40 ára starfsafmælis heimilisins var minnst 5. júní. Við það tilefni afhenti Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi formaður Sjómannadagsráðs, forsetanum mynd af Guðna Thorlacius, skipstjóra á vitaskipinu Árvakri, en hann var afi Guðna forseta.
Myndin var teiknuð af syni Guðna skipstjóra, Ólafi Þór Thorlacius, árið 1966. Við afhendinguna voru einnig hjónin Kristjana Kristjánsdóttir og Guðni Sigurðsson, en Kristjana starfaði í Flataskóla á sama tíma og Jóhanna Thorlacius kennari, sem var mágkona Margrétar, eiginkonu Guðna skipstjóra.
Einhverju sinni er þær samstarfskonur í Flataskóla, Kristjana og Jóhanna, áttu tal saman kom í ljós að Guðni, eiginmaður Kristjönu, var í áhöfn Árvakurs undir stjórn Guðna skipstjóra. Ákvað Jóhanna því að gefa Kristjönu myndina ef vera mætti að Guðni hefði gaman af að eiga mynd af skipstjóra sínum á Árvakri.
Myndin var lengi á heimili þeirra, eða allt þar til Guðni ákvað að gefa myndina Sjómannadagsráði, þar sem hún hefur prýtt húsakynni þar til nú er forseti Íslands hefur fengið myndina af afa sínum að gjöf. Guðmundur Hallvarðsson afhenti forsetanum myndina, en hann var á sjöunda áratugnum stýrimaður á Árvakri þar sem hann sigldi um tíma með Guðna Sigurðssyni undir stjórn Guðna Sigmundssonar Thorlacius skipstjóra.
Guðni Thorlacius var lengi í vitaþjónustunni, hann var stýrimaður á gamla Hermóði undir skipstjórn Guðmundar B. Kristjánssonar og síðan skipstjóri á nýja Hermóði frá 1947 og á Árvakri frá upphafi og til um 1970. Skipið var selt 1990.
Fyrir tveimur árum hittust skipverjar af vitaskipinu og rifjuðu upp gamla daga, minntust gamalla félaga og sögðu sögur af baráttu í erfiðum lendingum og brasi með yfir 100 kílóa gashylki, rifjuðu upp hnyttin tilsvör og alls konar skrýtilegheit og uppákomur.
„Við hittumst þarna vitasveinar, og Guðlaug kokkur, sem vorum á Árvakri þar til Landhelgisgæslan yfirtók rekstur hans í árslok 1969,“ sagði Guðmundur Hallvarðsson í samtali við Morgunblaðið fyrir tveimur árum, en á vitaskipunum var alla tíð samheldinn hópur.