„Jú, við söknuðum vélarinnar þennan dag,“ segir Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, spurður út í fjarveru flugvélar Landhelgisgæslunnar þegar kalla þurfti út flugvél Isavia til að leita að bandarísku skútunni sem sendi frá sér boð úr neyðarsendi fyrir viku.
Mastur skútunnar brotnaði þegar hún fékk á sig brotsjó og var þremur skipverjum bjargað um borð í rannsóknaskipið Árna Friðriksson sem var í 30 mílna fjarlægð frá staðsetningu sendisins. Challenger-eftirlitsvél danska flughersins í Kangelussuaq á Grænlandi var einnig kölluð út vegna neyðarkallsins en ekki flugvél Gæslunnar, TF-SIF. Hún er við landamæraeftirlit í Miðjarðarhafi á vegum Frontex.
„Áður fyrr var þetta Flugmálastjórn, vélin var þar og þá var hún alltaf til taks,“ segir Ásgrímur um Isavia-flugvélina. „Mikil samvinna var milli Flugmálastjórnar og Landhelgisgæslunnar í þessum málum, þ.e. leit og björgun. Ef gamli Fokkerinn var í skoðun eða eitthvað leysti þessi vél hann stundum af hólmi við almennt eftirlit,“ segir Ásgrímur. Um tíma var flugvélin hjá Mýflugi og segir hann að þá hafi orðið breyting á. „Þá var hún ekki tiltæk á þann hátt sem hún hafði verið,“ segir hann.
Ásgrímur segir að í ár sé TF-SIF í Frontex-verkefnum í þrjá og hálfan mánuð en sum ár hefur hún verið í verkefnum hálft árið.
„Leitar- og björgunarsvæðið sem Landhelgisgæslan er ábyrg fyrir er gríðarlega stórt og ljóst að þyrlurnar ná ekki út í það nema að takmörkuðu leyti,“ segir hann. „Skip eru töluverðan tíma að sigla út í ystu mörk svæðisins en flugvélin er fljót í förum og nær út í ystu mörkin hratt og getur verið þar í upp undir tvo tíma við leit.“
Segir hann TF-SIF einnig geta varpað út gúmmíbjörgunarbátum svo augljóslega sé flugvélin mikilvæg við leit og björgun á sjó.
Ásgrímur segir þó einna verst að missa TF-SIF úr eftirliti í íslensku efnahagslögsögunni. „Við viljum geta fylgst með hvað er að gerast, hvaða skip eru á siglingu, hverjir eru að koma til og frá landinu, hverjir fara í gegnum efnahagslögsöguna og hvað sé að gerast,“ segir Ásgrímur og bætir við að gervihnettir leysi ekki svona flugvél af hólmi. „Ef einhver slekkur á AIS eða öðrum merkjasendingum nema gervihnettirnir það ekki.“