Þingmennskan leggst prýðilega í Sigurð Pál Jónsson, nýkjörinn þingmann Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, en hann býr yfir reynslu af þingstörfum frá því að hann tók sæti sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í nokkur skipti. „Ég var varaþingmaður fyrir fjóra þingmenn þegar Sigmundur var forsætisráðherra. Einn þessara þingmanna var Gunnar Bragi sem þá var utanríkisráðherra þannig að ég tók oft sæti fyrir hann og fleiri. Síðan var ég aftur varaþingmaður á nýliðnu kjörtímabili og tók síðast sæti í maí 2017.“
Fyrir kosningarnar í fyrra skipaði Sigurður þriðja sæti lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi en fyrir kosningarnar 2013 skipaði hann fimmta sæti listans. „Ég segi það nú í hálfkæringi, þó það sé satt, að ég tók sæti á þeim tíma því að mér var sagt að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að taka fimmta sæti. Ég var síðan með hnút í maganum allt það sumar af því að ég hafði ekkert gengið með það í maganum að fara á þing. Síðan var það bara staðreynd og ég var kominn inn sem varaþingmaður fyrst í desember 2013. Þá jókst áhuginn á þingstörfum en stjórnmálaáhuginn hefur alltaf verið til staðar. Ætli það hafi ekki líka tikkað inn meira og meira sjálfstraust með reynslunni auk þess sem baklandið mitt hefur alltaf staðið með mér í þessu,“ segir Sigurður Páll.
Spurður um það hvort ákvörðunin um að ganga til liðs við Miðflokkinn hafi verið erfið játar Sigurður það. „Hún var það. Ég hef verið félagi í Framsóknarflokknum í ansi mörg ár og ég gerði þetta ekkert með glöðu geði. Ég hélt að við myndum fara í kosningabaráttuna sem ein heild en síðan kom annað í ljós. Þá dró ég mig til baka og var í raun og veru bara að hugsa um að sinna minni vinnu hérna heima en eftir mörg símtöl og hvatningu frá fjölskyldu og vinum ákvað ég að bjóða mig fram fyrir Miðflokkinn. Þetta var svolítið skrýtin vika og þetta gerðist allt mjög hratt,“ segir Sigurður sem átti alls ekki von á því að verða þingmaður fyrir einum og hálfum mánuði.
Sigurður er fæddur og uppalinn í Borgarnesi en hann hefur búið í Stykkishólmi frá 25 ára aldri. „Ég er menntaður rafvirki og kom hingað í Stykkishólm til að hvíla mig aðeins á rafvirkjastörfunum. Ég kom hingað til að fara á sjóinn og hef verið á sjónum síðan,“ segir Sigurður. „Ég var síðan kominn í mína eigin útgerð 1989, þá gerði ég upp gamlan trébát sem afi minn átti, byrjaði að róa honum og eitt leiddi af örðu. Á þeim tíma var ég líka á vertíðum á öðrum bátum en frá 1995 hef ég algjörlega verið í heilsársútgerð með minn eigin bát.“
Útgerðarfélag Sigurðar heitir Útgerðarfélagið Kári ehf. en aðspurður um umsvif útgerðarinnar segir Sigurður félagið vera fjölskyldufyrirtæki. „Ég er með 11 tonna bát, Kára SH-78, það eru tveir menn á sjó og þrír til fjórir í landi að bita. Við róum aðallega með landbeitta línu og erum með 150 tonna kvóta sem eru um 200 tonn upp úr sjó, það er nú ekki stærra en það þótt sumir segi að ég sé stórútgerðarmaður en það er aðallega vegna þess að ég er nærri tveir metrar á hæð,“ segir Sigurður.
En hvað verður um útgerðina nú þegar þú ert kominn á þing?
„Það er nú svo merkilegt með það að það er eins og að það hafi verið einhver fyrirboði að ég var búinn að fá ungan strák í haust til að róa fyrir mig og ætlaði meira að vera reddarinn í landi. Unglingurinn í mér er nú að minnka, ég er að verða sextugur á næsta ári og hef verið slæmur í baki þannig að það stóð ekki til að vera á sjó í vetur. En það kemur sér mjög vel núna þegar ég er kominn inn á þing að hafa gert þessar ráðstafanir.“
Spurður um það hvaða málefni brenni helst á honum segist Sigurður vera landsbyggðarmaður. „Landsbyggðin er eitt af stóru málunum fyrir mér. Undir liðnum Ísland allt í stefnuskrá Miðflokksins er stefnt að því að landið sé allt byggt upp sem ein heild, þannig að allir innviðir eins og samgöngur, heilbrigðismál, raforkumál, menntamál og önnur innviðamál séu jafnfætis á öllu landinu. Þessi hugsun og sú hugmynd að verði einn ráðherra sem beri ábyrgð á því hugnast mér vel.“
En hvað með sjávarútvegsmálin?
„Sjávarútvegurinn er náttúrulega hluti af því. Til þess að byggð haldist í landinu þarf sjávarútvegurinn að vera vítt og breitt. Ég hef nú alltaf talað fyrir litlar og meðalstórar útgerðir, stórútgerðin er nú það öflug að þeir eru í góðum málum. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið byggt upp með sjálfbærum veiðum og þar farið eftir fiskveiðiráðgjöf vísindamanna þannig að auðlindin er takmörkuð. Um það er þjóðarsátt sem nær út fyrir landsteinana sem sést best í því að erlendir kaupmenn sækja í okkar afurðir. Kvótakerfið er búið að vera við lýði síðan 1983 og það hefur sannað sig að það er í raun og veru sjálfbært líka. Það er ekki í fanginu á ríkinu og getur borgað auðlindagjöld sem segir manni að það hlýtur að vera eitthvað gott í þessu kerfi þannig að það sé aflögufært þó að aðferðafræðin hafi kannski ekki verið úthugsuð þegar kerfið var upphaflega sett á.“
Sigurður telur að auðlindagjöld eigi rétt á sér svo framarlega sem viðkomandi grein getur borið slík gjöld. „Stórútgerðin hefur eðlilega meira bolmagn í það en litlar og meðalstórar útgerðir. Nú er verið að hækka veiðigjöld og það þarf að bregðast við því,“ segir Sigurður og bætir við hann vilji fara í þá vinnu að greina hvað teljist vera auðlind og hvað teljist ekki vera auðlind. „Aðrir þættir í samfélaginu sem nýta auðlindir þjóðarinnar ættu líka að geta greitt auðlindagjöld til þjóðarinnar að því gefnu að greinin standi undir því. Partur af slíkum gjöldum ætti síðan að renna til þess byggðarlags sem hýsir starfsemina. Það er atriði sem heyrist ekki mikið talað um í dag þó það hafi verið rætt áður,“ segir Sigurður og bætir því við að hann gæti lengi haldið áfram að tala um sjávarútveginn. „Loks vil ég þó nefna að ég er alveg á því að strandveiðikerfið eigi að fá að lifa áfram og mér finnst vera samhljómur um það þvert yfir.“
Sonur Sigurðar er Bragi Páll Sigurðsson, skáld og fyrrverandi blaðamaður á Stundinni. Spurður um það hvort þeir feðgar séu sammála í stjórnmálum segir Sigurður að svo sé ekki. „Ég er nú stoltur af honum Braga mínum að hann hefur sínar eigin skoðanir. Pabbi hans hefur ekkert lesið yfir honum um hvaða skoðanir hann eigi að hafa. Við erum mjög góðir vinir og heyrumst yfirleitt á hverjum degi. Við virðum skoðanir hvor annars og það skemmir ekki okkar samband, ég segi það bara enn og aftur að mér finnst að menn eigi að fá að hafa sínar skoðanir fyrir sig og tala um þær úti á torgi án þess að það verði einhver vinaslit. Það er algjörlega þannig hjá okkur Braga. Hann studdi mig þegar ég ákvað að fara í framboð og sagðist standa með pabba sínum í því sem hann tæki sér fyrir hendur.“