Stærsta sandhverfa sem veiðst hefur við Ísland, svo vitað sé, kom á land á dögunum. Það var áhöfnin á Hornafjarðarbátnum Sigurði Ólafssyni SF 44 sem veiddi fiskinn á föstudag í síðustu viku. Fiskurinn fékkst út af Ingólfshöfða í troll. Fisksölufyrirtækið North Atlantic á Ísafirði keypti sandhverfuna á fiskmarkaði á Höfn á sunnudaginn var. Hún vigtaði 12 kíló og var 82 sentimetra löng.
„Við fengum það staðfest hjá Hafrannsóknastofnun að þetta væri stærsta sandhverfa sem veiðst hefði við Ísland,“ sagði Víðir Ísfeld Ingþórsson, framkvæmdastjóri North Atlantic. Sandhverfan var send vestur á Ísafjörð þar sem hún var vigtuð, mæld og ljósmynduð.
„Við vildum sjá sandhverfuna. Þetta er nokkuð sem maður sér mögulega einu sinni á ævinni. Það er sjaldgæft að sjá sandhverfu hér á landi, en 12 kílóa og 82 sentimetra langa sandhverfu? Það er ólíklegt að maður sjái svoleiðis fisk aftur á ævinni,“ sagði Víðir.
North Atlantic er heildverslun með fisk og selur veitingahúsum á höfuðborgarsvæðinu ferskt sjávarfang. „Við höfum gott auga fyrir gæðum og erum naskir á að verða okkur úti um það sem þykir sérstakt og fágætt. Það lá beinast við að við eignuðumst þennan fisk. Þetta er okkar sérsvið,“ sagði Víðir. Hann sagði að Leifur Kolbeinsson, matreiðslumeistari í Marshallhúsinu og Kolabrautinni í Hörpu, hefði fengið sandhverfuna. Hún var afhent honum á miðvikudaginn var í Reykjavík.
„Þeir sem vilja smakka þennan fágæta og fræga fisk ættu að vera vakandi fyrir því þegar stór og góð sandhverfa veiðist næst,“ sagði Víðir. Hann sagði að margir fiskisælkerar teldu sandhverfu vera besta fisk í heimi, „Rolls Royce fiskanna“, eins og Víðir orðaði það. Áferðin á holdinu er sérstök, ekki ósvipuð og blanda af góðum þorskhnakka og skötusel. Sandhverfan er feitur flatfiskur og sú sem hér um ræðir var í mjög góðum holdum. Víðir sagði ekki óalgengt að kíló af sandhverfuflökum seldist á í kringum fjögur þúsund krónur í nágrannalöndunum. Hann vildi ekki gefa upp hvað stóra sandhverfan kostaði.
Rifja má upp að trollbáturinn Frár VE fékk 11 kílóa og 78 sentimetra langa sandhverfu út af Ingólfshöfða í september 2013. Hún komst í blöðin. Þá var haft eftir Hafrannsóknastofnun að eitt dæmi væri um lengri sandhverfu. Sú veiddist einnig á Frá VE við Ingólfshöfða í september 1974. Hún var 79 sentimetra löng og 11 kíló. Af þessu má ætla að stórar sandhverfur haldi sig út af Ingólfshöfða, en þær eru sjaldgæfar eins og dæmin sanna.