Á síðustu misserum hafa íslenskar viðskiptasendinefndir farið nokkrum sinnum til Rússlands, m.a. í samvinnu utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu. Sömuleiðis hafa fyrirtæki kynnt starfsemi sína og sótt sýningar í þessu víðfeðma landi.
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Rússlandi, segist finna fyrir vaxandi áhuga á íslenskum sjávarútvegi og þeim árangri sem þar hafi náðst. Hægt og bítandi hafi þekking á íslenskum fyrirtækjum, hönnun og hugviti farið vaxandi.
Hún segist ekki vita annað en að samningur fyrirtækjanna þriggja um uppbyggingu á Shikotan sé stærsti einstaki samningur sem íslensk fyrirtæki hafi gert í áratugi í Rússlandi. „Útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi til Rússlands hrundi um 95% á milli áranna 2014 og 2016, eftir að rússneska viðskiptabannið var sett á sumarið 2015. Ég veit ekki um neina þjóð sem missti svo mikið vegna viðskiptabannsins. Því er dýrmætt að það skuli þó gefast möguleikar á öðrum tækifærum,“ segir Berglind.
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Rússlandi.
Aðspurð hvort þessi samningur gæti verið upphafið að lausn hvað varðar viðskiptabannið segist hún ekki telja að svo sé, þetta tvennt sé algerlega aðskilið.
Berglind segir að í gangi sé metnaðarfull áætlun rússneskra stjórnvalda um endurnýjun fiskiskipaflotans og uppbyggingu landvinnslu. Þetta hafi m.a.verið gert á þann hátt að heimildir hafi verið innkallaðar nú í lok 10 ára úthlutunar. Í staðinn taki við 15 ára úthlutun með sérstökum hvata um að þeir sem ráðist í uppbyggingu fái aukinn kvóta.
Landsliðið í fótbolta
Sjávarútvegur var þó ekki efstur á verkefnalista sendiherrans í gær heldur knattspyrna. Á vinnufundi sendiherra um 30 þjóða var farið yfir ýmislegt varðandi HM í Rússlandi í sumar. Íslenski sendiherrann fór síðan í viðtal beint á eftir rússneska íþróttaráðherranum þar sem fjölmargir fjölmiðlar voru. Berglind segir að áhugi á Íslandi sé greinilega mikill. aij@mbl.is