Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og fyrirhugaða lækkun veiðigjalda í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hún sagði að núna sex mánuðum eftir myndun ríkisstjórnarinnar hefði skýr mynd teiknast upp af ríkisstjórninni.
„Skýr mynd af bandalagi um sérhagsmuni,“ sagði Oddný og benti í því samhengi á þá „skjaldborg“ sem sem hún sagði ríkisstjórnina hafa slegið um embættisfærslur Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipun dómara í Landsrétt og einnig á fyrirhugaða lækkun veiðigjalda.
Hún sagði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bregðast við kalli útgerðarmanna um lægri veiðigjöld á meðan að aðrir þurfi að bíða.
„Ríkisstjórnin ætlar að rétta útgerðinni tæpa þrjá milljarða og stórútgerðinni bróðurpartinn af því fé, stórútgerðinni sem sannarlega líður engan skort. Það gera hins vegar öryrkjar og aldraðir sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar,“ sagði Oddný.
Ríkisstjórnin ætli ekki að jafna leikinn
Oddný sagði ójöfnuð vera að aukast hér á landi og að það væri óheillaþróun sem ýtti undir ósætti í samfélaginu. Hún sagðist ekki telja að ríkisstjórnin vildi minnka ójöfnuð á Íslandi á þessu kjörtímabili og að það sjáist á fjármálaáætlun stjórnarinnar til næstu fimm ára.
Hún vitnaði til orða forsætisráðherra frá eldhúsdagsumræðum í fyrra, þar sem Katrín gagnrýndi þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir misskiptingu auðs í íslensku samfélagi og talaði fyrir því að tryggja þyrfti að arður af auðlindum landsins rynni til þjóðarinnar.
„Ég var þá svo innilega sammála Katrínu Jakobsdóttur og þess vegna hryggir mig áhrifaleysi hennar sem forsætisráðherra sem engu kemur í gegnum ríkisstjórn sína í þessum efnum nema málamyndabreytingum á fjármagnstekjuskatti með litlum ávinningi fyrir ríkissjóð,“ sagði Oddný.