Slökkva á staðsetningarbúnaði bátanna

Andstæðingar hvalveiða fylgdust með verkun langreyðar úr fjarska í Hvalfirði …
Andstæðingar hvalveiða fylgdust með verkun langreyðar úr fjarska í Hvalfirði í gær. Ljósmynd/Stop Whaling Iceland

Fyrirtækið Hvalur hf. hefur hafið langreyðaveiðar á ný, eftir tveggja ára hlé. Andstæðingar hvalveiða við Íslandsstrendur hafa mótmælt veiðunum frá því að þær hófust. Valgerður Árnadóttir formaður Samtaka grænmetisæta segir í samtali við mbl.is að Íslendingar viti almennt ekki nóg um hvalveiðar og telur þær stangast á við lög.

„Mátinn sem hvalir eru drepnir á, sem spendýr, brýtur dýravelferðarlög og líka lög um matvælahreinlæti. Þessi máti, að verka kjöt undir berum himni líka er bannaður, samkvæmt lögum um matvælahreinlæti,“ segir Valgerður og bætir því að þögn mæti andstæðingum hvalveiða er þeir sendi fyrirspurnir til opinberra stofnana vegna veiðanna.

„Við erum búin að senda fyrirspurnir á MAST, sem hafa ekki svarað hvort þetta brýtur þessi lög og okkur finnst rosalega einkennilegt að það sé þögn frá öllum embættum,“ segir Valgerður sem nefnir jafnframt að Landhelgisgæslan láti það viðgangast að hvalveiðiskip Hvals fari til veiða án þess að hafa kveikt á AIS-staðsetningarbúnaði skipanna.

Það geri það ómögulegt að fylgjast með ferðum hvalveiðiskipanna og telur Valgerður það gert til þess að andstæðingar hvalveiða geti ekki vitað hvenær skip Hvals hf. koma með afla sinn að landi í Hvalfirði.

Afli annarar veiðiferðar Hvals hf. í sumar.
Afli annarar veiðiferðar Hvals hf. í sumar. Ljósmynd/Stop Whaling Iceland

„Svo eru engir kaupendur fyrir þessu og engar sannanir fyrir því,“ segir Valgerður en erfitt hefur reynst að koma íslensku hvalkjöti á Japansmarkað undanfarin ár vegna aðgangshindrana og í fyrra flutti Hvalur hf. hvalkjöt til Japans sem hafði legið í frystigeymslum á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár.

Í Japan er helsti markaður heims fyrir hvalkjöt, en hvalveiðar í atvinnuskyni voru bannaðar af Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1986, en hófust á ný hér á landi árið 2006.

Alltaf verið hægt að selja kjötið

Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. hefur sagt loforð japanskra embættismanna um að taka upp nýjar aðferðir við efnagreiningu á hvalkjöti forsendu fyrir því að fyrirtækið hefji langreyðaveiðar á ný á þessari vertíð, en þær hafa sem áður segir ekki verið stundaðar síðan árið 2015.

Hann segir í samtali við mbl.is að hann búist við því að það loforð verði efnt, en það verði að koma í ljós í haust.

„Það hefur alltaf verið hægt að selja [hvalkjötið]. Þetta snýst ekkert um það, þetta snýst um efnagreiningar í Japan hjá opinberum aðilum sem hafa verið að nota aðferðir sem enginn notar í heiminum nema þeir en þeir hafa lofað því að þeir muni taka upp þessar alþjóðlegu aðferðir héðan í frá. Svoleiðis að við tökum bara sénsinn á því að þeir standi við það,“ segir Kristján.

Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. segir best að andstæðingar hvalveiða …
Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. segir best að andstæðingar hvalveiða viti sem minnst um veiðar fyrirtækisins. mbl.is/RAX

Hann segist þó ekki hafa neitt fast í hendi um það, annað en fyrirheit embættismanna sem hafa verið í viðræðum við fyrirtækið.

„Ég reikna nú með að þeir muni standa við það en þú veist ekkert hlutinn fyrr en hann hefur gerst,“ segir Kristján.

Þeim mun minna sem þeir vita, þeim mun betra

Andstæðingar hvalveiða hafa sett upp Facebook-síðu þar sem ýmislegt er fullyrt um hvalveiðar Hvals hf., en að síðunni standa m.a. samtökin Jarðarvinir, Samtök grænmetisæta, Hard to Port og Vegan-samtökin. Meðal annars segir þar að það að fyrirtækið slökkvi á AIS-staðsetningarbúnaði hvalveiðibáta sinna stangist á við siglingalög.

„Jájá, blessaður vertu. Hvernig nennið þið að elta þetta? Allt sem út úr kjaftinum á þeim kemur er nú vanalega lygi. Nú eru þeir orðnir helvíti fúlir að geta ekki vitað hvar við erum. Ég vissi það líka,“ segir Kristján og hlær.

„Þú býður ekki þessu fólki í heimsókn, ég geri það ekki. Þeim mun minna sem þeir vita um okkur, þeim mun betra,“ bætir hann við. 

Hann segir Hval hf. skila staðsetningu bátanna sjálfvirkt inn til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð á meðan þeir séu við veiðar. „Þeir fá allar upplýsingar um okkur,“ segir Kristján.

Hvalveiðivertíðin er hafin.
Hvalveiðivertíðin er hafin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæpið að allur kvótinn verði veiddur

Langreyðakvóti Hvals hf. á þessari vertíð er nærri því 200 dýr, en Kristján er efins um að það verði hægt að veiða hann allan.

„Þetta fer allt eftir veðri og öðru og hvað hann liggur djúpt og svona. Við tökum tvo hvali í túr og verðum að vera komnir með þá [í land] eftir sólarhring ef þeir fá einn. Ef það er mikið af brælum þá veiðum við aldrei þennan kvóta. Við gætum veitt miklu fleiri hvali, en ef við fáum allt of mikið inn í einu þá vill þetta skemmast, þannig að okkar reynsla er að með svona tvo hvali [í túr] þá gengur þetta ágætlega,“ segir Kristján.

Blaðamaður spurði Kristján að því hvort hann væri viss um að hvalveiðar Íslendinga væru þjóðhagslega hagkvæmar, vegna þeirra orðsporshnekkja sem Ísland verður fyrir á alþjóðavísu þeirra vegna.

Hann segist viss um að hvalveiðar séu allavega ekki þjóðhagslega óhagkvæmar. Það var einnig niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem árið 2010 gerði úttekt á þjóðhagslegri hagkvæmni hvalveiða.

Kristján Þór Júlíusson ráðherra sjávarútvegsmála hefur boðað nýja úttekt á hagkvæmni hvalveiða og niðurstöður eiga að liggja fyrir í haust.

Kristján segir að ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi hafi blómstrað sem aldrei fyrr eftir að Hvalur hf. hóf veiðar í atvinnuskyni á nýjan leik. Það sýni tölfræðin.

„Ef þú ferð og skoðar aukninguna í ferðamönnum á Íslandi, þá segi ég að þetta sé allt okkur að þakka,“ segir Kristján og spyr hvort að blaðamaður telji ferðamenn virkilega vera flykkjast til Íslands til „að forðast hvalveiðarnar.“

„Þetta er svo langsótt þvæla að ég skil ekki að menn séu að lepja þetta upp ár eftir ár,“ segir Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.1.25 530,91 kr/kg
Þorskur, slægður 10.1.25 666,95 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.1.25 311,13 kr/kg
Ýsa, slægð 10.1.25 245,17 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.1.25 266,60 kr/kg
Ufsi, slægður 10.1.25 298,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 10.1.25 341,64 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 2.870 kg
Þorskur 657 kg
Keila 118 kg
Hlýri 67 kg
Ufsi 13 kg
Samtals 3.725 kg
10.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 7.696 kg
Ýsa 3.572 kg
Steinbítur 629 kg
Langa 201 kg
Hlýri 34 kg
Keila 33 kg
Karfi 6 kg
Samtals 12.171 kg
10.1.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Þorskur 90 kg
Ýsa 83 kg
Steinbítur 57 kg
Langa 56 kg
Hlýri 48 kg
Keila 40 kg
Karfi 23 kg
Samtals 397 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.1.25 530,91 kr/kg
Þorskur, slægður 10.1.25 666,95 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.1.25 311,13 kr/kg
Ýsa, slægð 10.1.25 245,17 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.1.25 266,60 kr/kg
Ufsi, slægður 10.1.25 298,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 10.1.25 341,64 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

10.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 2.870 kg
Þorskur 657 kg
Keila 118 kg
Hlýri 67 kg
Ufsi 13 kg
Samtals 3.725 kg
10.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 7.696 kg
Ýsa 3.572 kg
Steinbítur 629 kg
Langa 201 kg
Hlýri 34 kg
Keila 33 kg
Karfi 6 kg
Samtals 12.171 kg
10.1.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Þorskur 90 kg
Ýsa 83 kg
Steinbítur 57 kg
Langa 56 kg
Hlýri 48 kg
Keila 40 kg
Karfi 23 kg
Samtals 397 kg

Skoða allar landanir »