Lítil og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi glíma við erfitt rekstrarumhverfi, ekki síst eftir að ekki rættist úr frumvarpi atvinnunefndar um endurútreikning veiðigjalda. Þetta segir Gunnar Gíslason, viðskiptastjóri hjá Arion banka.
„Ástandið er einkum erfitt hjá þeim sem eru ekki með aflaheimildir og þurfa því að kaupa fisk á markaði. Þar gengur erfiðlega, bæði út af erfiðara aðgengi að aflaheimildunum og einnig vegna þess að laun hafa hækkað umtalsvert á síðustu árum. Þá þurfa menn að bregðast við, ýmist með frekari tæknivæðingu eða sameiningu fyrirtækja, nema hvort tveggja sé,“ segir Gunnar Gíslason, viðskiptastjóri hjá Arion banka, sem annast fyrirtæki í sjávarútvegi.
„Víða reyna menn nú að finna leiðir til hagræðingar, þar sem í alþjóðlegri grein eins og sjávarútvegi reynist fyrirtækjum erfitt að koma hækkunum á rekstrarkostnaði út í söluverð á mörkuðum,“ segir Gunnar og bendir á hækkandi launakostnað hérlendis sem dæmi um áhrifavald.
„Vinnulaunin eru töluvert dýrari í fiskvinnslu núna en undanfarin ár, og menn vita það.“ Matvælavinnsla geti í auknum mæli færst héðan af landi og til Póllands, þar sem laun þarlends verkamanns séu á við tæplega þriðjung launa íslensks verkamanns fyrir sama starf. „Vinnulaunin, hráefnið og flutningur afurðanna; þetta er allt mun ódýrara þar en hér.“
Almennt segir hann að mjög þungt sé yfir greininni. Jákvæð þróun á mörkuðum með aukaafurðir síðustu mánuði hafi þó komið ýmsum fyrirtækjum til aðstoðar.
„Markaðir eins og Nígería hafa lagast mjög hratt undanfarna mánuði. Það selst allt sem þangað fer og manni heyrist sem verð hafi hækkað, sem eru góðar fréttir. Það var mikill skellur fyrir marga þegar sá markaður lokaðist eiginlega að öllu leyti fyrir um einu og hálfu ári. En hækkandi launa- og rekstrarkostnaður étur það ef til vill upp.“
Gunnar segir að fólk í atvinnugreininni fagni vitaskuld þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og hækka aflaheimildir í þorski, ýsu og ufsa meðal annars.
„Það er þá meira magn af fiski. Þetta selst allt. Aflaheimildir ganga hins vegar kaupum og sölum hjá þessum litlu og meðalstóru útgerðum. Veiðigjöldin koma virkilega illa við þær nú þegar kreppir að, enda urðu margir fyrir vonbrigðum þegar Alþingi neitaði að samþykkja frumvarp um endurútreikning veiðigjaldanna fyrr í mánuðinum.“
Býst hann við því að mikil hreyfing verði á aflaheimildum í haust vegna þessa. „Maður velti því fyrir sér á síðustu Sjávarútvegssýningunni, hvort að á næstu sýningu yrðu mun færri fyrirtæki vegna samþjöppunar og sölu á aflaheimildum frá minni útgerðum til þeirra sem stærri eru. Þetta verður þungt ár í rekstri fram undan fyrir marga, nema menn ráði við að fjárfesta enn meira í tækninni, því það er það sem gildir. Annars verða menn bara undir.“
Veiðigjöldin hafi þannig þau áhrif, auk hækkandi rekstrarkostnaðar, að samþjöppun sé og verði mun meiri í atvinnugreininni en ella.
„Þessar meðalstóru útgerðir vilja bæta við sig kvóta, það er það sem maður heyrir; þær vilja nýta húsin sín og tækin betur. Þær munu þá líkast til fá kvóta frá þeim minnstu. Og þegar veiðigjöldin skella á mönnum sem eru kannski aðeins með hundrað tonna kvóta, er þá von að þeir spyrji sig hvort ekki sé best að selja og hætta þessu streði? Við erum líka svo agnarsmá í stóra samhenginu, þegar litið er til erlendra markaða, og það gerir það að verkum að menn verða að vera vel vakandi ef ekki á að fara illa. Mín tilfinning er því sú að útgerðum og fiskvinnslum muni einungis fækka þegar fram líða stundir, og að þær stækki um leið.“
„Miðað við verð á kvóta undanfarin misseri held ég að þessar minnstu útgerðir nái alveg að bjarga sér með sölu aflaheimilda,“ segir Gunnar, spurður hvort útlit sé fyrir að margar útgerðir stefni í gjaldþrot á næstu mánuðum. „Ekki nema allir ætli sér að selja kvótann sinn á sama tíma.“
Hann segir það ljóst að ekki muni allir ráða við að greiða yfirvofandi veiðigjöld. „Hvort sem þau eru raunhæf eða ekki, það er annar kafli út af fyrir sig. En eins og staðan er í dag þá eru þau þarna og þá verða menn að vinna með þeim, á meðan þeim er ekki breytt,“ segir Gunnar.
„Vonandi finnst lausn á þeim sem fyrst, þetta er auðvitað stórskrýtið að reyna að reka sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi, þú veist aldrei hvað stjórnvöld ætla að gera næst. Það er ekki ýkja gott rekstrarumhverfi en það jákvæða er að íslensku fiskistofnarnir virðast vera í góðu ástandi og fiskurinn er að seljast.“