„Samtök atvinnulífsins leggjast gegn því gríðarlega umfangsmikla myndavélaeftirliti sem ætlað er að koma upp til að fylgjast með meintum og ætluðum brotum á lögum sem gilda um veiðar, vinnslu, flutning og meðferð afla.“ Þannig segir meðal annars í umsögn SA um drög að frumvarpi til laga um myndavélaeftirlit í sjávarútvegi.
Drögin hafa verið til umsagnar og auk SA hefur Hafnasamband Íslands sent frá sér álit, en skila átti umsögn fyrir 10. ágúst. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fengu hins vegar frest til að skila umsögn. Fjallað var um frumvarpsdrögin í Morgunblaðinu 10. júlí undir fyrirsögninni: „Alsjáandi augu fylgist með sjávarútvegi“.
SA bendir á að í kynningu á Samráðsgáttinni segi að meginmarkmið frumvarpsins sé „að skapa traust til sjávarútvegsins með notkun á nýjustu tækni við eftirlit með vigtun, brottkasti og framhjáafla“ með nýjustu tækni.
Í umsögn SA, sem undirrituð er af Halldóri Benjamín Þorbergssyni framkvæmdastjóra, segir: „Í frumvarpsdrögunum er lagt til að myndavélar fylgist með einstaklingum og vinnu þeirra um borð í öllum fiskiskipum, öllum höfnum, flutningatækjum, fiskvinnslum auk þess sem ætlunin er að Fiskistofa reki flota af fjarstýrðum loftförum til að tryggja að eftirlitið verði alsjáandi um alla hegðan þeirra sem störfum þessum sinna.
Enginn vafi er á að nái þessi áform fram að ganga munu þau verða fyrirmynd annarra eftirlitsstjórnvalda og innan fárra ára gætu Íslendingar búið við eftirlitsþjóðfélag af áður óþekktri gerð sem hingað til hefur einungis verið til í skáldsögum og kvikmyndum. Dæmin sanna að verði auknar eftirlitsheimildir veittar einni stofnun linna aðrar ekki látum fyrr en þær búa við sömu heimildir.
Nú hafa nánast allar stofnanir heimildir til að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir. Auðvelt er að sjá fyrir sé að myndavélaeftirlit Matvælastofnunar með meðferð og vinnslu annarra matvæla en sjávarfangs, myndavélaeftirlit Samgöngustofu í öllum ökutækjum, loftförum og skipum til að tryggja að farið sé að lögum og myndavélaeftirlit Vinnueftirlits ríkisins á öllum vinnustöðum til að tryggja að aðstæður séu jafnan í samræmi við lög og reglur.“
SA segir rökstuðning í frumvarpsdrögum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um nauðsyn myndavélavélaeftirlits heldur fátæklegan. Því verði vart trúað að ráðuneytið telji hann fullnægjandi til að leggja í að safna milljónum klukkustunda af myndbandsefni og að ætla eftirlitsmönnum Fiskistofu að fara í gegnum það. Þá sé ekki mat á ávinningi sem ætlunin sé að ná og hvernig hann vegi upp á móti þeim milljarða króna kostnaði sem umrædd kerfi og þjónusta og eftirfylgni við þau sem og úrvinnsla upplýsinganna muni hafa í för með sér.
„Það er ekki óvenjulegt að fréttaflutningur af meintum misbrestum í ólíkri starfsemi komi upp og það er nauðsynlegt að eftirlitsstjórnvöld beiti úrræðum sem samrýmast reglum um meðalhóf og eru í samræmi við tilefnið í stað að gera alla starfsemi í viðkomandi atvinnugrein tortryggilega og ganga út frá að starfsfólkið stundi lögbrot við venjubundin störf sín.
Sú framtíðarmynd sem dregin er upp í frumvarpsdrögunum er ógeðfelld, og ástæða er til að efast um að árangur verði í samræmi við erfiðið,“ segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins.
Í umsögn stjórnar Hafnasambandsins, sem Gísli Gíslason, formaður, skrifar undir, kemur fram það álit að of langt sé gengið í að setja auknar skyldur og kröfur á hafnir. Eðlilegra sé að unnið verði í samræmi við drög að samstarfsyfirlýsingu íslenskra hafna og Fiskistofu, sem nú liggi fyrir í lokadrögum. Fyrirhugaðar lagabreytingar verði lagaðar að ákvæðum yfirlýsingarinnar.