„Þetta frumvarp kemur okkur í opna skjöldu miðað við umræðuna sem var á Alþingi í vor,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka smábátaeigenda. „Flestir voru nú sammála um að leiðrétta veiðigjaldið hjá litlum og meðalstórum útgerðum.“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti nýtt frumvarp um veiðigjöld í gær. Þar er ekki tekið á málum lítilla og meðalstórra útgerða, sem átt hafa erfitt uppdráttar vegna veiðigjaldanna.
„Mér fannst alla vega enginn ágreiningur um það, ágreiningurinn fólst aðallega í því hvort stærstu útgerðirnar myndu líka fá afsláttinn,“ segir Örn í samtali við mbl.is.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Hann segir atvinnuveganefnd Alþingis auk þess hafa bókað að hún vænti þess að í nýju frumvarpi yrði tekið á málinu. „Það voru skýr skilaboð til sjávarútvegsráðherra. Þess vegna var ég undrandi yfir því að þetta skyldi ekki vera í frumvarpinu. Ég taldi sjálfgefið að svo yrði.“
„Við höfum bent á að það er allt annað að gera út smábáta, þar sem kannski eru tveir um borð, en að vera með stórt fyrirtæki sem hefur veiðiheimildir fyrir mörgum tegundum,“ segir Örn. Hann segir smábátaeigendur yfirleitt aðeins hafa veiðiheimildir fyrir þorski og ýsu og að veiðigjöld þeirra tegunda hafi hækkað um meira en 100%. „Það endurspeglaði ekki hagnaðinn sem við höfðum verið að skila. Hagnaðurinn hjá stóru útgerðunum dreif upp þessar hækkanir.“
Örn segir frumvarpið mikil vonbrigði, þótt þar sé þokast í átt að því að finna veiðigjöldum, sem séu komin til að vera, réttan farveg. „Ég bind vonir við það að gerðar verði breytingar á frumvarpinu í meðferð atvinnuveganefndar.“