Vinnslustöðin fjárfest fyrir 8 milljarða síðustu 3 ár

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson.

Á næsta ári hefur Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni, staðið í stafni útgerðarfélagsins Vinnslustöðvarinnar í Vestmanneyjum í tvo áratugi. Það hefur engin lognmolla leikið um félagið á þeim tíma. Það stendur nú styrkum fótum eftir miklar fjárfestingar á síðustu árum. Hann segir framtíðina bjarta og fagnar nýjum hluthafa, FISK Seafood, sem eignast hefur tæpan þriðjungs hlut í fyrirtækinu.

Við kajann liggur nýjasta skip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum (VSV). Ríflega 50 metra langur togari sem hlotið hefur nafnið Breki. Það vísar til eldra aflaskips sem selt var frá fyrirtækinu rétt fyrir aldamótin síðustu. Nýsmíðin er skýrasta dæmið um þá fjárfestingu sem ráðist hefur verið í á vettvangi VSV á síðustu árum. Binni segir að sú fjárfesting hafi verið tímabær og kærkomin enda hafi fyrirtækið þurft á endurnýjun að halda og það einnig vaxið mikið á þeim tíma frá því að nýir eigendur komu að því í árið 2002.

„Veltan hefur á þessum tíma aukist úr 30 milljónum evra í u.þ.b. 80 milljónir evra. Við höfum á síðustu árum verið að fiska 60 til 80 þúsund tonn á ári. Það fer nokkuð eftir úthlutun í loðnu en þetta hefur verið fremur stöðugt en vaxandi.“

Og fyrirtækið er í blönduðum veiðum, bæði botnfiski og uppsjávartegundum og svipar að því marki til félaga á borð við Skinney-Þinganes og HB Granda þó stærð þeirra sé misjöfn.

„Í þorskígildum talið erum við u.þ.b. jafn stór í þessum flokkum tveimur en ef við tökum makrílinn með þá eru tekjurnar að koma að 60% hluta úr uppsjávartegundunum og 40% úr botnfiskinum. Við höfum verið með 4-4,5% af þorskígildum. Þau eru ekki algildur mælikvarði en til samanburðar er HB Grandi með um 12%. Þess vegna er HB Grandi um þrisvar sinnum stærri en VSV.“

Fyrirtækið hefur vaxið mikið

En vöxturinn sem Binni nefnir hefur ekki komið til af sjálfu sér.

„Við höfum frá árinu 2000 verið að stækka með sameiningum við aðrar útgerðir. Fyrst og fremst eru það fyrirtæki í Eyjum. Þar má nefna Björgu, Danska-Pétur, Gandí, Ísleif, Ufsaberg útgerð og Glófaxa. Í flestum tilvikum urðu hluthafar félaganna einnig hluthafar í VSV og margir þeirra eru það enn. Þá keyptum við Jón Erlingsson úr Sandgerði og einnig keyptum við veiðiheimildir en ekki í stórum stíl,“ segir hann.

En er það stærðarhagkvæmnin sem öllu skiptir rekstri fyrirtækis á borð við VSV?

„Ekki endilega, alla vega ekki gagnvart veiðunum sem slíkum. Það er ekki óskaplega mikill munur á því hvernig útgerð er rekin í litlu eða stóru fyrirtæki. Kostnaðarhlutföll eru nokkuð föst og svo er það bara þannig að ef góður skipstjóri og vélstjóri koma saman þá stenst ekkert stórfyrirtæki þeim snúning. Við höfum mörg dæmi um það hér í Eyjum.“

Nýjasta skip Vinnslustöðvarinnar, togarinn Breki VE.
Nýjasta skip Vinnslustöðvarinnar, togarinn Breki VE. Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson

En hann segir að öðru máli gegni um vinnsluna og sölu- og markaðsstarf.

„Mikilvægt er að vinnslukerfi uppsjávarfisks sé stórt og afkastamikið. Þar er stærðarhagkvæmni mikilvæg. Vissulega er hún mikilvæg í botnfiski einnig að einhverju marki en ég held þó að það sé ekki ákjósanlegt fyrir samfélagið að fyrirtækin séu mjög fá, mjög stór og einsleit. Fjölbreytni gefur oft fleiri tækifæri og hugmyndir.“

Þá bendir Binni á að þótt sjávarútvegurinn sé umsvifamikill hér á landi í samanburði við aðrar atvinnugreinar sé verið að selja inn á gríðarstóra markaði erlendis.

„Sé ætlunin að selja vöru þarf að hafa mikið magn í boði. Fyrir rúmu ári keyptum við hlut í Okada Suisan, japönsku framleiðslufyrirtæki, sem kaupir af okkur í ár um 2.000 til 2.500 tonn af makríl. Stærstur hluti þessarar vöru endar í hádegisverðarboxi sem fer til einnar verslunarkeðju í Japan. Það sýnir svart á hvítu hversu mikið magn þarf til þess að anna eftirspurn á stórum mörkuðum.“

Hann segir Samherja gott dæmi um það hvernig gott getur reynst að taka sölustarfsemina undir eigin merki.

„Samherjadæmið er farsælt og við viljum fara svipaða leið. Sú afstaða útilokar samt ekki þann möguleika að fyrirtæki leiti samstarfs á þessu sviði en þá verða menn að geta unnið saman. Þá er heldur ekki galið að samstarfsaðilar framleiði mismunandi vörur þótt sölustarfið fari í gegnum eitt og sama fyrirtækið.“

Afhendingaröryggi þarf að tryggja

Oft er talað um afhendingaröryggi og að það megi ekki bregðast þegar verið er að brjóta sér leið inn á nýja markaði. Binni segir að það sé rétt en að það verði að tryggja með ólíkum hætti eftir því hvaða vörur séu til sölu.

„Sé seldur ferskur fiskur verður að róa í hverri viku. Svo er það önnur framleiðsla eins og í makrílnum hjá okkur. Þá er fiskurinn veiddur á vertíð og hann frystur. Svo er hann einfaldlega afhentur eftir þörfum kaupendanna. Eins er það með saltfiskinn. Ef þú saltar hann fyrir Portúgalsmarkað þarf að láta hann standa svo hann fái verkunarbragðið sem þeir sækjast eftir. Annað á við um léttsaltaða fiskinn sem fer til Spánar. Hann er frystur og það býður upp á annars konar geymslu. Þannig erum við með ólíkar aðferðir til að tryggja afhendingaröryggi mismunandi fisktegunda. Það er samspil ólíkra þátta og menn verða að sinna sínum hluta markaðarins.“

Hann bendir einnig á að sum fyrirtæki fari þá leið að selja allan fisk til hæstbjóðanda sem er einn í dag og annar á morgun. Það kunni hins vegar að reynast skeinuhætt við ákveðnar aðstæður.

„Verðið getur verið hátt í eina átt í dag og aðra á morgun. Þá koma upp tímar þegar hlutirnir ganga ekki vel og þá getur verið erfitt auk þess sem það tekur tíma að opna á nýja markaði. Ef verð lækkar mikið af einhverjum ástæðum getur verið erfitt fyrir seljandann að koma vörunni út með farsælum hætti. Hugmyndin um að selja alltaf á hæsta verði getur komið illilega í bakið á seljendum, einkum ef þeir leggja öll sín egg í þá körfu.“

Binni segir að þessar staðreyndir sýni að virðiskeðjan skipti miklu máli og að menn séu alltaf að átta sig á því að eftir því sem menn hafi betri stjórn á henni upp úr og niður úr sé yfirsýnin betri.

„Sá sem stýrir ferlinu frá veiðum til vinnslu og sölu getur betur stýrt því hvert varan fer á hverjum tíma og hann hefur meiri yfirsýn yfir stöðu mála. Þetta snýst um útsjónarsemi og það að tryggja sem best verð til lengri tíma litið. Markaðssetningin og salan er ekki síður undirorpin henni en veiðarnar sjálfar.“

Vænn floti

Vinnslustöðin er með sjö skip í flotanum. Þau eru misjöfn að stærð og gerð og þá er aldursmunurinn einnig talsverður. Binni segir að fyrir liggi að gera verði ákveðnar breytingar á samsetningunni hjá fyrirtækinu á komandi misserum í ljósi aukins kvóta í tilteknum tegundum.

„Við gerum út þrjú uppsjávarskip með Kap og Ísleif lykilhlutverkum. Þá höfum við Sighvat Bjarnason á hliðarlínunni ef það er mikil loðna eða ef við þurfum að grípa til hans á loðnuhrognavertíð.“

Botnfiskskipin eru fjögur og þar er eins og áður sagði Breki, sá yngsti í fjölskyldunni.

„Við fengum Breka afhentan fyrir skemmstu og hann gengur afburðavel. Svo eru það Drangavíkin, Brynjólfur og gamla Kap, Kap II. Svo er það Sindri sem smíðaður er í Japan 1972. Það fer að styttast í annan endann hjá honum.“

Breki og systurskipið Páll Pálsson ÍS eru með stærstu skrúfur sem um getur í íslenska fiskiskipaflotanum. Líkt og fréttayfirlit af smíðaferli Breka gefur til kynna var það ekki þrautarlaust fyrir VSV að fá skipið afhent.

„Þetta var merkileg reynsla í Kína. Þetta var erfiðasta leiðin sem hægt var að fara, lengst í burtu og ólíkustu menningarheimarnir. Við unnum þetta með Hnífsdælingum [Hraðfrystihúsið Gunnvör] og það reyndist okkur mikið lán. Góð samvinna var á milli fyrirtækjanna og skipti sköpum. Það gekk hins vegar á ýmsu. Kínverjarnir hefðu getað afhent skipin ári fyrr en þeir gerðu. Þeir ætluðu hins vegar ekki að afhenda þau eins og við vildum. Við vorum þrjóskir og byggðum á smíðalýsingunni og samningum. Við náðum okkar fram og fengum skipið búið heim eins og við ætluðum.“

Kommúnismi í Kína reyndist þröskuldur fyrir íslensku útgerðirnar að komast yfir. Binni dregur ekkert undan í lýsingum á því hvernig hugmyndafræði og þjóðskipulag Kínverja þvældist fyrir líkt og mörg dæmi önnur eru til um raunir kommúnismans í mannkynssögunni.

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum.
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Í alræði ríkisins, sem kommúnisminn hefur leitt yfir Kína, breyttist hegðun manna. Ég fór að ráði kínversks vinar míns sem er afkomandi Kínverja sem flúðu yfir til Taívans. Hann sagði okkur að í Kína yrðum við að hafa eftirlit með öllu. Í löndunum er sama fólkið með sama menningarlega bakgrunn en sitt hvort þjóðskipulagið. Af einhverjum ástæðum leiddi alræði ríkisins í Kína og endalaust regluverk þess um allt mögulegt og ómögulegt til breyttrar hegðunar. Til að komast af þarftu að svindla á vitlausum reglum. Án þess að vita, þá hegðuðum við okkur eins og Lenín orðaði þetta: „Traust er ágætt en eftirlit betra.“ Það reyndist rétt. Við vorum með herskara í eftirliti með smíðinni. Það tryggði okkur gott og glæsilegt skip.“

Og þannig varð Breki til, skref fyrir skref undir vökulu auga fulltrúa VSV og Hraðfrystihússins.

„Menn í Kína þekkja auðvitað ekki íslenska stórsjói. Þegar við fórum yfir festingar á öllum innréttingum í skipinu kom í ljós að þær voru bara eins og L-járn sem þú kaupir í IKEA. Í smíðalýsingunni kom fram hvernig þetta átti að vera en þeir ákváðu samt að fara ódýrari leiðina sem við samþykktum að sjálfsögðu ekki.“

Allt var þetta fyrirhafnarinnar virði en hingað komið kostaði skipið um 11,5 milljónir dollara. Við þá tölu á svo að bæta kostnaði vegna veiðarfæra, millidekks og eftirlits meðan á smíðinni stóð, auk heimsiglingar.

„Fyrstu túrarnir voru stuttir þegar við vorum að prufukeyra skipið. Það hefur allt gengið hnökralaust og skipið hefur veitt mikið og hefur mikla kosti. Stærsti kosturinn er hin stóra skrúfa en orkunýtingin er afburðagóð. Við erum að eyða mun minni orku á hvert veitt kíló en við höfum nokkru sinni séð. Við ætluðum Breka að veiða þær aflaheimildir sem Jón Vídalín og Gullberg veiddu áður. Það eru um 8.000 tonn. Við sjáum að þetta er hægt. Breki dregur tvö troll og afköstin eru gríðarleg. Við settum okkur það að markmiði að skipið myndi eyða helmingi minni olíu en skipin gömlu til samans. Hann er að fara fram úr okkar væntingum í þeim efnum.“

Gengið á ýmsu við fjárfestingar

Öðru hvoru sprettur upp sú umræða að VSV greiði of hátt hlutfall tekna sinna í arð til hluthafa í stað þess að endurnýja tól og tæki eins og nauðsynlegt sé. Binni segir þá gagnrýni ekki sanngjarna enda hafi fyrirtækið fjárfest fyrir um átta milljarða króna á síðustu árum. Hins vegar hafi ýmislegt gengið á í íslensku samfélagi á síðustu árum og það hafi sett áætlanir um fjárfestingu fyrirtækisins í ákveðið uppnám oftar en einu sinni.

„Okkur var eins og öðrum útgerðarmönnum boðið á árunum fyrir hrun að fjárfesta í bönkunum. Við sögðum nei, takk! Við skildum þetta ekki og gerðum það þess vegna ekki. Ég er reyndar gamall bankamaður og sá ekki að þetta gæti gengið upp. Árið 2008 vorum við lögð af stað með að brjóta niður stóran hluta af þessum gömlu húsum okkar og byggja ný. Við buðum út niðurbrot á húsinu en við hættum við það 15. apríl 2008. Það var samþykkt af stjórninni vegna þess að við áttuðum okkur á því að það væri eitthvað að gerast í íslenska bankakerfinu og við vorum ekki viss um að við myndum fá þá fjármögnun sem við þyrftum til uppbyggingarinnar. Svo hrundi landið um haustið.“

Hann segir að eftir bankahrunið hafi blasað við nýr veruleiki í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins sem hafi breytt áherslum þeirra.

„Öll sjávarútvegsfyrirtækin lentu í einhvers konar hremmingum. Umfjöllunin um þær hremmingar var hins vegar skökk á opinberum vettvangi. Vissulega jukust skuldirnar í íslenskum krónum alveg gríðarlega en ekkert í erlendri mynt. Tekjurnar voru sambærilegar en íslenskur kostnaður, laun, viðhald og annað lækkaði verulega. Þegar laun eru hlutfallslega mjög lág, eins og á þessum tíma, er ekki fjárhagslega skynsamlegt að fjárfesta í dýrum og nýjum búnaði. Þess vegna biðum við með það og fjölguðum fólki um allt að 150 manns. Þannig fórum við að vinna afurðirnar meira og það borgaði sig. Árið 2011 ákváðum við svo að hefja uppbyggingarferlið og þá voru bankarnir farnir að lána að nýju. Við gátum líka fengið lán erlendis frá. Það er skemmtilegt að segja frá því að þá var erlendur banki tilbúinn að lána okkur á betri kjörum en þeim sem íslenska ríkið naut. En þá kom babb í bátinn.“

Þar vísar Binni til fyrirætlana ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að stórauka skattlagningu á sjávarútveginn.

„Þá skipti engu máli hvort maður hefði fjárfest eða haft fleira fólk að störfum. Hefðu áætlanir þeirra gengið að fullu eftir þá hefði megnið af íslenskum sjávarútvegi orðið gjaldþrota því álögurnar voru slíkar í frumvarpi Indriða H. Þorlákssonar, Jóhönnu og Steingríms um veiðigjöldin. Óvissan af þessu öllu olli því að stjórn félagsins ákvað að fresta allri fjárfestingu.“

Tíminn leið og Binni segir að skattlagningin hafi ekki orðið jafn svakaleg og fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá hafi færi gefist sem VSV hafi nýtt sér svo um munaði.

„Þegar veiðigjaldavitleysan var að baki að mestu gátum við farið af stað. Við vorum á þeim tímapunkti með skuldlítið fyrirtæki en mjög gömul tæki, skip og tól. Við höfum endurnýjað skipastólinn að hluta, byggt frystigeymslu, uppsjávarvinnslu en eigum eftir að byggja upp botnfiskvinnsluna.“

En hann viðurkennir á sama tíma að fjárfesting síðustu ára sé farin að síga í.

„Í öllum atvinnurekstri verður að endurnýja tæki og tól. Við höfum gert það myndarlega núna. En núna verðum við að draga andann. Það er ekki hægt að fjárfesta endalaust og hlaða upp skuldum. Veiðigjöldin hafa þar einnig mikil áhrif og draga úr fjárfestingargetunni okkar. Nú þurfum við að vinna fisk og veiða og búa í haginn fyrir fjárfestingu framtíðarinnar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.7.24 469,84 kr/kg
Þorskur, slægður 22.7.24 397,62 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.7.24 367,07 kr/kg
Ýsa, slægð 22.7.24 230,45 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.7.24 159,32 kr/kg
Ufsi, slægður 19.7.24 15,00 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 19.7.24 190,37 kr/kg
Litli karfi 8.7.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 1.7.24 106,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.7.24 Viktor Sig HU 66 Handfæri
Ufsi 606 kg
Þorskur 349 kg
Karfi 264 kg
Samtals 1.219 kg
22.7.24 Bobby 3 ÍS 363 Sjóstöng
Þorskur 93 kg
Samtals 93 kg
22.7.24 Áki Í Brekku SU 760 Handfæri
Þorskur 3.342 kg
Ufsi 1.247 kg
Keila 74 kg
Karfi 29 kg
Langa 29 kg
Samtals 4.721 kg
22.7.24 Bobby 11 ÍS 371 Sjóstöng
Steinbítur 5 kg
Samtals 5 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.7.24 469,84 kr/kg
Þorskur, slægður 22.7.24 397,62 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.7.24 367,07 kr/kg
Ýsa, slægð 22.7.24 230,45 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.7.24 159,32 kr/kg
Ufsi, slægður 19.7.24 15,00 kr/kg
Djúpkarfi 21.6.24 304,40 kr/kg
Gullkarfi 19.7.24 190,37 kr/kg
Litli karfi 8.7.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 1.7.24 106,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.7.24 Viktor Sig HU 66 Handfæri
Ufsi 606 kg
Þorskur 349 kg
Karfi 264 kg
Samtals 1.219 kg
22.7.24 Bobby 3 ÍS 363 Sjóstöng
Þorskur 93 kg
Samtals 93 kg
22.7.24 Áki Í Brekku SU 760 Handfæri
Þorskur 3.342 kg
Ufsi 1.247 kg
Keila 74 kg
Karfi 29 kg
Langa 29 kg
Samtals 4.721 kg
22.7.24 Bobby 11 ÍS 371 Sjóstöng
Steinbítur 5 kg
Samtals 5 kg

Skoða allar landanir »