Útgerðum sem ráða yfir aflahlutdeild hefur fækkað talsvert á síðustu árum. Í yfirliti á vef Fiskistofu kemur fram að fyrirtækin voru 382 á nýliðnu fiskveiðiári, en voru 946 fiskveiðiárið 2005-2006 og er fækkunin nálægt 60%. Handhafar bæði aflamarkshlutdeilda og krókaaflamarkshlutdeilda eru taldir með hvert fiskveiðiár. Fækkunin er áberandi meiri í síðarnefnda flokknum.
Í greinargerð með frumvarpi um veiðigjald, sem sjávarútvegsráðherra lagði nýlega fram á Alþingi, er m.a. fjallað um fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi á næstliðnum árum.
„Til þessa teljast bæði útgerðir með aflamarki og krókaaflamarki en langstærstur hluti þessarar breytingar liggur í smábátaútgerðinni. Á fiskveiðiárinu 2013-2014 voru krókaaflamarksbátar 354 talsins en við upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs [2016-17] voru þeir 258 talsins. Þeim hafði fækkað um fjórðung á fjórum árum.
Samtímis fór hlutdeild 50 stærstu handhafa krókaaflahlutdeildar vaxandi og er nú um 83%. Raunar virðast margir krókaaflamarksbátanna hafa litlar aflaheimildir eða eru ekki í rekstri. Auk innri og ytri aðstæðna er líklegt að lagabreyting vorið 2013 hafi hér haft sitt að segja en þá var stærðarmörkum bátanna lyft úr 15 brúttótonnum í 15 metra hámarkslengd og 30 brúttótonn, sem skóp aukna eftirspurn eftir krókaaflamarki.“
Stærðarmörk að þolmörkum
Komið er inn á þessi sömu atriði í kafla um stærðarmörk fiskiskipa og áhrif þeirra í niðurstöðum starfshóps um faglega heildarendurskoðun á regluverki í sjávarútvegi, sem nýlega var skilað til ráðherra.
Í umsögn Landssambands smábátaeigenda um stærðarmörk fiskiskipa segir meðal annars: „LS telur stærðarmörk krókaaflamarksbáta vera komin að þolmörkum. Þær viðvaranir sem LS kom með í umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða dags. 16. júní 2013 hafa því miður gengið eftir.
Stærð bátanna og umfang hefur orðið til að veiðiheimildir hafa færst til báta sem eru efstir í stærðarmörkum. Aðgangur útgerða minni báta að fjármagni til kaupa á veiðiheimildum er ekki jafn greiður og þeirra sem stærstir eru.“
Inn í krókaaflamarkið hafi komið stór útgerðarfyrirtæki og bátarnir hafi nægar veiðiheimildir til að fiska tvö þúsund tonn. Bátum í krókaaflamarki hafi fækkað um 77 frá því stækkunin var heimiluð eða um fjórðung.