Tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa til skoðunar hvaða leiðar séu færar til þess að veita laxeldisfyrirtækjunum „sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli og faglega sé staðið að öllum málum.“ Þetta kemur fram í Facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra en þar vísar hún til Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra og Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra.
Í færslunni segir Katrín að bæjarstjóri Vesturbyggðar og oddviti Tálknafjarðarhrepps hefðu mætt á fund formanna stjórnarflokkanna í gær ásamt sveitarstjórnarmönnum í sveitarfélögunum til þess að ræða stöðuna sem upp er komin hjá laxeldisfyrirtækjum í sveitarfélögunum eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi starfsleyfi fyrirtækjanna. Leyfin voru felld út vegna tæknilegra annmarka á útgáfu leyfanna.
Að sögn Katrínar lögðu sveitarstjórnarmenn áherslu á að fyrirtækin hefðu hafið starfsemi sína í góðri trú um að hafa aflað með réttum hætti allra tilskilinna leyfa. „Þau lögðu áherslu á að starfsemi fyrirtækjanna væri þess eðlis að það væri til þess fallið að valda þeim tjóni til allrar framtíðar að stöðva starfsemina án fyrirvara, og ekki í anda meðalhófs. Þau lýstu sömuleiðis áhyggjum sínum af áhrifum þess á samfélögin fyrir vestan,“ skrifar Katrín.
„Við upplýstum þau um að sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra hafa verið með til skoðunar hvaða leiðir eru færar til þess að gæta meðalhófs í þessu máli og öðrum, þannig að fyrirtæki geti almennt fengið sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli og faglega sé staðið að öllum málum. Það er von mín að farsæl lausn finnist á þessu máli sem allra fyrst.“
Í tilkynningu frá Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, og Bjarnveigu Guðbrandsdóttur, oddvita Tálknafjarðarhrepps, er greint frá sjónarmiðunum sem komu fram á fundinum með formönnum stjórnarflokkanna þriggja.
Kemur þar fram að þar hefði verið greint frá þeim alvarlegum áhrifum sem úrskurðirnir hafa á íbúa sveitarfélaganna og það óvissuástand sem nú er uppi. Í sveitarfélögunum tveimur búa 1.268 manns, og hafa fyrirtækin tvö 165 manns á launaskrá, auk fjölda verktaka og þjónustufyrirtækja sem þessar ákvarðanir snerta beint. Verði ekki brugðist strax við er ljóst að þetta mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.
„Á fundinum var greint frá því að stjórnvöld væru að vinna að tilteknum lausnum til að bregðast við því óvissuástandi sem íbúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps standa nú frammi fyrir. Forsvarsmenn sveitarfélaganna treysta því að stjórnvöld veiti fyrirtækjunum skjól þannig að þau geti haldið sinni starfsemi áfram á meðan leyst er úr þeirri stjórnsýslulegu flækju sem upp er komin.“