Lífeyrissjóðurinn Gildi vill að fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka verði fengin til að meta fyrirhuguð kaup HB Granda á öllu hlutafé Ögurvíkur, og skilmála þeirra. Hefur lífeyrissjóðurinn gert tillögu um að bókun þessa efnis verði tekin til meðferðar á hluthafafundi HB Granda sem fram fer 16. október.
Fyrir fundinum liggur þegar tillaga um að staðfesta ákvörðun stjórnarinnar um kaup félagsins á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf. af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem áður bar nafnið Brim.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Sé hafin yfir allan vafa
Segir í greinargerð með tillögu Gildis að þar með liggi fyrir hluthöfum að leggja mat á og taka afstöðu til þess hvort viðskiptin séu hagfelld fyrir HB Granda. Tillagan sé þá meðal annars lögð fram í ljósi þess að aðaleigandi seljanda, Guðmundur Kristjánsson, sé á sama tíma forstjóri HB Granda og stærsti hluthafi fyrirtækisins. Markmið tillögunnar sé því að tryggja að ákvörðunartakan sé hafin yfir allan vafa.
Enn fremur kemur fram í greinargerðinni að fyrir liggi sérfræðiskýrsla sem sé meðal annars þeim annmarka háð að einungis sé byggt á einni tiltekinni matsaðferð, án þess að horft sé til annarra þátta sem kunni að skipta máli þegar viðskiptin séu metin á heildstæðum grunni.
Stjórn HB Granda samþykkti 13. september samning um kaup á öllu hlutafé í Ögurvík, en samningurinn var gerður 7. september. Kaupverðið er 12,3 milljarðar króna og var í tilkynningu þann dag sagt byggjast á niðurstöðum tveggja óháðra matsmanna. Ögurvík ehf. gerir út Vigra RE-71, 2.157 tonna frystitogara sem var smíðaður árið 1992.
Aflaheimildir félagsins á fiskveiðiárinu sem hófst 1. september 2018 eru 7.680 tonn af botnfiski og 1.663 tonn af makríl, miðað við úthlutun árið 2018. Félagið hefur rekið útgerð frá Reykjavík í meira en hálfa öld.