Við Íslendingar eigum ómæld ónýtt tækifæri í fiskeldi, en erum á góðri leið með að hindra framganginn með deilum og ótta. Þetta er fullyrt í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, en undir hana rita þau Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi á Ísafirði, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, Jens Garðar Helgason, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, og Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.
„Við greinarhöfundar eigum það sammerkt að þekkja samtímasögu sjávarbyggða. Sum okkar fædd þar og uppalin og muna þá tíð þegar sjávarbyggðir meðfram allri strandlengjunni blómstruðu. Það var því miður á forsendum ofveiði og óhagkvæmni. Markvissari sóknarstýring og hagræðing í greininni var nauðsynleg,“ segir í greininni.
„Íslenskur sjávarútvegur er í dag hátækniiðnaður þar sem störfin hafa færst úr því að skera fisk, setja í frysta og slá úr pönnum yfir í störf ofar í virðisaukakeðjunni svo í nýsköpun, vöruþróun og markaðsmál. Þetta er ánægjuleg þróun sem gerir okkur kleift að vera í fremstu röð og standast alþjóðlega samkeppni en því er ekki að neita að hefðbundnum störfum í sjávarbyggðunum hefur fækkað. Þessar nauðsynlegu breytingar komu eðlilega harðast niður á íbúum sjávarbyggða. Réttur þeirra nú sem fyrr er að nýta tækifærin í nærumhverfi í sátt við náttúruna, þjóðarbúinu öllu til hagsbóta.“
Benda greinarhöfundar á að forsenda velmegunar velferðarríkisins Íslands sé verðmætasköpun.
„Til að viðhalda hér lífskjörum sem eiga sér fáa líka í heiminum verðum við nýta þau tækifæri sem landið, miðin og mannauðurinn gefa okkur hverju sinni. Kjörnum fulltrúum og stofnunum ríkisins ber að tryggja að lagaumhverfi og stjórnsýsla séu með þeim hætti að hvati sé fyrir fyrirtæki og einstaklinga að sækja fram og sjá ný tækifæri til sóknar fyrir okkur öll. Ef Íslendingar ætla ekki að dragast aftur úr í lífskjörum í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar þurfum við að auka útflutning um 1.000 milljarða næstu 20 árin. Það þýðir að á hverju ári verðum við að auka útflutning um 50 milljarða eða um tæpan milljarð á viku. Þetta er verkefnið sem blasir við okkur Íslendingum.“
Fiskeldi geti þá uppfyllt hluta af þessum 1.000 milljörðum.
„Ef vel tekst til gætu útflutningstekjur af því orðið um 100 milljarðar á ári innan áratugar. Það gefur því augaleið að mikið er í húfi fyrir þjóðina alla. Þótt fiskeldið hafi hvað augljósust áhrif í hinum dreifðu byggðum þá skiptir það okkur öll máli. Íslensk fiskeldisfyrirtæki afla þjóðarbúinu verulegs gjaldeyris enda yfir 90% afurðanna seld á erlendum mörkuðum. Útflutningsverðmæti eru í dag á annan tug milljarða. Ekkert samfélag hefur rétt til að varpa slíku frá sér á forsendum deilna, tilfinningahlaðinnar umræðu og fordóma.“
Greinarhöfundar segja fiskeldi hafa orðið mörgum byggðum kærkomið tækifæri.
„Með vexti þess hafa rótgrónar sjávarbyggðir á ný fengið tækifæri, langt umfram það sem jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona. Áhrifa fiskeldis gætir t.d. í öllum bæjum og þorpum Vestfjarða nú þegar og Vestfirðingar flytja í dag út meiri verðmæti í laxi en þorski. Þetta er því atvinnugrein sem skiptir máli og með nýjum tækifærum koma nýir íbúar. Hjól atvinnulífsins eru farin að snúast og íbúarnir fullir trúar á framtíðina. Það er verkefni stjórnmálanna að uppfylla þessar væntingar.“
Segjast þau vilja að fiskeldi hér á landi verði settar sanngjarnar kröfur, en ekki þannig að þær nálgist að vera hreint bann.
„Við skorum á þingmenn allra flokka, og þá ekki síst Sjálfstæðisflokksins, að lyfta umræðu upp úr hjólförum efasemdarhyggju og ómálefnalegra sjónarmiða í farveg skynsemi og sanngirni. Ef við berum gæfu til að hafa pólitíska forystu í þessu mikilvæga máli verður fiskeldi í sátt við náttúruna farsælt verkefni en ekki vandamál. Þingmenn og ráðherrar þurfa að stíga inn í umræðuna og axla ábyrgð sem löggjafi. Í þessu er ekki í boði að skila auðu.“
Greinina í heild sinni má lesa í Morgunblaðinu í dag.