Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir ásakanir Heiðveigar Maríu Einarsdóttur, sem hyggst bjóða sig fram til að gegna formannsembættinu, vera rógburð og óhróður af óþekktri stærðargráðu í íslenskri verkalýðssögu.
Þetta kemur fram í grein sem Jónas ritar í Morgunblaðið í dag. Í viðtali við 200 mílur í síðustu viku benti Heiðveig á að lagabreytingar sem sagðar hafa verið gerðar á síðasta aðalfundi, virðist ekki vera getið í fundargerðum félagsins. Þá hafi lög á vef félagsins breyst um síðustu mánaðamót, mörgum mánuðum eftir aðalfundinn í desember síðastliðnum.
Jónas byrjar grein sína á að segja að á fundinum hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum 45 sjómanna að binda kjörgengi í félaginu við þá sem greitt hefðu í félagið undangengin þrjú ár hverju sinni.
„Allir sjómenn á fundinum greiddu tillögunni atkvæði. Nú hefur stigið fram Heiðveig María Einarsdóttir sjómaður sem segir samþykktina falsaða. Hún sakar stjórn félagsins um að falsa fundargerðir og breyta lögum að eigin geðþótta. Hún krefst afsagnar stjórnar.
Ég hef marga fjöruna sopið en aldrei kynnst annarri eins ósvífni. Hún vefengir ákvörðun 45 manna félagsfundar sem samþykkti samhljóða þriggja ára regluna og svívirðir stjórn Sjómannafélagsins, trúnaðarmannaráð og starfsfólk. Hún sakar alla þessa aðila um samsæri gegn sér og vilja stöðva framboð sitt til formennsku Sjómannafélags Íslands,“ skrifar Jónas.
„Þetta er rógburður og óhróður af áður óþekktri stærðargráðu í íslenskri verkalýðssögu. Aldrei hafa í yfir 100 ára sögu Sjómannafélagsins verið bornar brigður á fundargerðir, hvað þá að þær væru falsaðar. Dettur nokkrum manni í hug að stjórn og starfsfólk Sjómannafélags Íslands falsi samþykkt 45 manna aðalfundar? Ég bara spyr. Ásökunin er svo geggjuð að tekur út yfir allan þjófabálk. Við á skrifstofu félagsins hefðum mátt standa okkur betur í að setja lagabreytingarnar á heimasíðu félagsins en blaðri um stílabækur, skjáskot af vefsíðum, fonta og leturstærðir er hrært í pott svo út kemur göróttur drykkur samsæris hringavitleysu. Undir þetta taka falsmiðlar sem spyrja Heiðveigu ekki gagnrýninna spurninga,“ fullyrðir hann.
Þá segir hann Heiðveigu hafa verið boðið að koma á skrifstofu félagsins 12. október til að skoða fundargerðir, en að hún hafi ekki þegið boðið. Trúnaðarmannaráð félagsins muni þá koma saman á morgun, „til þess að ræða hinar dæmalausu ásakanir á hendur félaginu“.
„Hvað liggur að baki þessu brjálæði?“ spyr Jónas í framhaldinu.
„Fyrir hverja er Heiðveig María að vinna? Fyrir útgerðina í landinu? Er hún að vinna fyrir HB Granda eða Samherja? Von er að spurt sé því hvað hefur Heiðveig María unnið með rógi sínum? Því er fljótsvarað. Henni hefur tekist með lygum og óhróðri að stöðva sameiningu sjómanna við Eyjafjörð, í Eyjum, Grindavík, Hafnarfirði og Reykjavík. Henni hefur tekist að stöðva löngu tímabæra sameiningu langflestra sjómanna í landinu í eitt öflugt sjómannafélag; félag fiskimanna á togurum og bátum, farmanna á millilandaskipum, skipum Gæslunnar og Hafró ásamt ferjanna Herjólfs og Baldurs.“
Enn fremur fullyrðir Jónas að Heiðveig hafi, með lygum og óhróðri, rústað öllu því mikla starfi sem átt hafi sér stað frá verkfallinu í fyrra. Vísar hann þar til sameiningarferlis fjögurra sjómannafélaga auk Sjómannafélags Íslands, sem langt var á leið komið þar til hin félögin fjögur drógu sig til hlés í viðræðunum í síðustu viku í kjölfar deilna stjórnarinnar og Heiðveigar.
„Mönnum er vissulega brugðið yfir því að Eyfirðingar og Eyjamenn hafi kosið að draga sig út úr viðræðum vegna rógburðar Heiðveigar Maríu. Mesta hagsmunamáli sjómanna er stefnt í tvísýnu. Félögin fimm voru komin langleiðina í viðræðum líkt og Morgunblaðið skýrði frá í fréttaskýringu á dögunum. Hugmyndin var að ný forysta kæmi að nýju sameinuðu félagi. Nú er sameiningin út af borðinu og útgerðarmenn fagna. Hvers vegna vill Heiðveig sjómenn sundraða og Sjómannafélag Íslands ekki hluta af öflugri breiðfylkingu íslenskra sjómanna?“ spyr Jónas að lokum.
„Hvaða hagsmuna gætir Heiðveig?“
Greinina má í heild sinni lesa í Morgunblaðinu í dag.