„Þetta er einfaldlega kolólöglegt, og það er ljóst að þeir hafa ekki unnið sína undirbúningsvinnu nógu vel,“ segir Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður Heiðveigar Maríu Einarsdóttur, sem vikið var úr Sjómannafélagi Íslands eftir að stjórnarmenn sökuðu hana um að vinna gegn hagsmunum félagsins.
„Þetta er að fara fyrir Félagsdóm, það er bara þannig,“ segir Kolbrún í samtali við 200 mílur og gerir um leið athugasemdir við starfshætti Sjómannafélagsins, en trúnaðarmannaráð þess vék Heiðveigu úr félaginu 25. október eftir að þess var krafist í bréfi frá fjórum félagsmönnum.
„Í raun og veru hefði ég haldið að bera hefði átt ákvörðun trúnaðarmannaráðs undir félagsfund. Ekki er kveðið á um slíkt ferli í lögum félagsins en ég held að allur framgangurinn í þessu máli sé á skjön við allar heilbrigðar reglur í vinnurétti,“ segir Kolbrún.
Í tilkynningu sem Heiðveig fékk senda frá félaginu á þriðjudag segir að stuðst hafi verið við heimild í a- og b-lið 10. greinar laga félagsins, en við síðustu skoðun á lögunum segir í b-lið greinarinnar að hver sá maður sé brottrækur úr félaginu, í lengri eða skemmri tíma, sem að áliti trúnaðarmannaráðsfundar hafi unnið gegn hagsmunum félagsins, valdið því tjóni eða gert því eitthvað til vansa.
„Þó að lög félagsins kveði á um eitthvað ákveðið, þá eru þau auðvitað bundin af lögum frá Alþingi og stjórnarskrárvörðum rétti manna til jafnræðis og félagafrelsis,“ segir Kolbrún og bætir við að hún hafi undanfarna daga leitað eftir dómafordæmum í svipuðum málum. Leita þurfi þó langt aftur.
„Þetta hefur í raun ekki þekkst síðan á sjötta áratugnum; að reynt sé að víkja félagsmanni úr félagi með þessum hætti. Og meira að segja þá dæmdi Félagsdómur brottvikninguna ólögmæta. Þetta er því fordæmalaust, eftir því sem ég fæ best séð – að félagsmanni sé vikið úr verkalýðsfélagi fyrir eiginlega það eitt að bjóða sig fram til formanns,“ segir Kolbrún.
„Formaður Sjómannafélagsins hefur að vísu bent á að öðrum félagsmanni hafi verið vikið úr félaginu fyrir einhverjum fimmtán árum, en þá hefur eflaust ekki verið mikill ágreiningur um það eða viðkomandi samþykkt brottvikninguna.“
Kolbrún segist einnig hafa rætt mál Heiðveigar við nokkra sérfræðinga í vinnurétti, sem séu sama sinnis.
„Þeir hafa bent á að eftir dómafordæmi Félagsdóms frá umræddum tíma, það er frá sjötta áratug síðustu aldar, þá hefur þetta bara lagst af – að mönnum sé vikið úr félögum með þessum hætti. Nema þeir hafi gerst alvarlega brotlegir við lög eða málið sé annars þess eðlis.“
Bendir hún enn fremur á að nýtt og umdeilt ákvæði laganna, um að til að hljóta kjörgengi þurfi félagsmenn að hafa greitt félagsgjöld í þrjú ár þar á undan, stangist á við meginreglu íslensks réttar um jafnræði.
„Ég er ekki að véfengja það að þessi lagabreyting hafi verið tekin fyrir á fundi og hún samþykkt, heldur velti ég fyrir mér hvort það standist lög að gera þetta að skilyrði fyrir kjörgengi.“
Í samtali við 200 mílur, sem birtist í ViðskiptaMogganum í dag, segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélagsins, að tilgangur ákvæðisins hafi verið að koma í veg fyrir að vanhæft fólk yrði kosið til ábyrgðarstarfa. Í félaginu, eins og flestum öðrum, hafi menn verið valdir í ábyrgðarstöður eftir að hafa sýnt fram á áhuga á málefninu.
„Það er í raun eina leiðin til að sjá hvort menn verði virkir í starfinu. Þess vegna er þessi þriggja ára regla sett; svo að menn hafi tíma til að sanna sig og geti sýnt fram á að þeir séu að meina eitthvað. Það væri erfitt að taka fólk inn af götunni – afleysingafólk líkt og í tilviki Heiðveigar – og komast síðar að því að ekkert gagn er að því í starfi félagsins.“
„Það hefði þá þurft að vera einhver regla til staðar um hæfi fólks til að gegna ábyrgðarstöðum,“ segir Kolbrún um þennan rökstuðning. „Það er ekki bara hægt að setja svona skilyrði upp úr þurru,“ bætir hún við og bendir jafnframt á að ef einhver sem virtist óreyndur og óhæfur byði sig fram í embætti innan félagsins myndu félagsmenn eflaust hafna viðkomandi í kosningu. „Jafnræðisreglan, um að geta verið kjörgengur til starfa í eigin félagi, er algjörlega þurrkuð út þarna.“
Kolbrún segir að ekki síst séu skyldur félagsins til að upplýsa sína félagsmenn, um réttindi þeirra og skyldur, algjörlega vanvirtar.
„Málflutningur Sjómannafélagsins gengur út á að reglum um kjörgengi hafi verið breytt á aðalfundi í desember 2017 og þess vegna sé allt löglegt hvað það varðar,“ segir hún.
„En þegar Heiðveig María sendir þeim erindi á vinsamlegum nótum í maí á þessu ári, um að hún hyggist setja saman lista og óskar upplýsinga um reglur um kjörgengi og annað, þá telur starfsmaður félagsins ekki þörf á því að upplýsa hana um þessa veigamiklu breytingu, hvorki í tölvupósti, né í heimsókn hennar á skrifstofu félagsins daginn eftir þar sem hún fylgdi erindi sínu eftir.“
Umrædd lagabreyting var ekki birt á vef félagsins fyrr en um síðustu mánaðamót, eins og Heiðveig hefur bent á, tíu mánuðum eftir að hún á að hafa tekið gildi.
„Það er upphafið að gagnrýni hennar á félagið, sem endar með þessum ósköpum af hálfu stjórnar og trúnaðarráðs SÍ um brottrekstur úr stéttarfélagi – sem stenst enga skoðun.“