Svifaldan, verðlaunagripur fyrir framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar, hefur verið veitt í áttunda sinn. Kom gripurinn í hlut þeirra Davíðs Freys Jónssonar, Gunnars Þórs Gunnarssonar og Kára Ólafssonar, fyrir hugmynd að þróun vélar til sæbjúgnavinnslu.
Davíð er framkvæmdastjóri Aurora Seafood, sem hefur í samstarfi við tæknifyrirtækið Curio unnið að þróun vélarinnar. Allar götur síðan árið 2003, þegar vinnsla sæbjúgna hófst á Íslandi, hafa framleiðendur reynt að hanna og smíða vélar til að skera bjúgun, að því er fram kemur í tilkynningu.
Davíð Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Aurora Seafood.
Ljósmynd/Sjávarútvegsráðstefnan
Það hafi þó reynst erfitt, þar sem sæbjúgu hafi mjög breytilega lögun.
Viðlíka vélar og búnaður til vinnslu á sæbjúgum eða öðrum hryggleysingjum hafi enda ekki verið smíðaður áður. Vél þessi er sögð myndu gera fullvinnslu afurða á vestrænum atvinnusvæðum gerlega og arðbæra.
„Með vélinni færast framleiðendur nær neytendum vörunnar og möguleikar á framleiðslu ýmissa afurða s.s. hreinsuð heil sæbjúgu, kjöt og skinnframleiðsla verður samkeppnishæf við ódýrt erlent vinnuafl. Með tilkomu þessa búnaðar er Ísland að merkja sér áhugaverða hillu á markaði afurða sæbjúgna og ekki síst markaði vélbúnaðar fyrir vinnslu á sæbjúgum í heiminum,“ segir í tilkynningunni.
Þokuúðun og toghlerar
Einnig fengu tvær aðrar hugmyndir viðurkenningu. Annars vegar svonefnt Caligo Sapo-fjölþokukerfi, en því standa Gunnar Brynjólfsson hjá B.G.B TECH og Baldur Halldórsson hjá Vatnslausnum. Segir í tilkynningu að sótthreinsun í fiskvinnslu með þokuúðun hafi verið vel þekkt í um 25 til 30 ár. Með þessari hugmynd sé aðferðin tekin enn lengra, þar sem sápu sé einnig úðað á vélar og tæki með sömu aðferð og með sama tækinu CALIGO SAPO.
Hins vegar fengu Ekko-toghlerar verðlaun, en að henni þeirri hugmynd stendur Smári Jósfatsson hjá Nýrri toghlerahönnun ehf.
„Með nýjum vænglaga Ekkó toghlerum verður tæknibylting sem skilar margháttuðum ávinningi umfram hefðbundna toghlera.“