Það kom mörgum á óvart að krónan skyldi ekki veikjast þegar sjómenn fóru í verkfall á síðasta ári, en gjaldeyristekjur streyma núna inn úr fleiri áttum, s.s. í gegnum ferðaþjónustu. Hefur það styrkjandi áhrif á krónuna og breytir um leið rekstrarskilyrðum sjávarútvegsfyrirtækja.
„Stundum var talað um það að krónan hefði verið felld til að hjálpa greininni en raunin er að á þeim tíma var sjávarútvegur langsamlega stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin og gangurinn í sjávarútvegi nátengdur gangi efnahagslífsins hverju sinni. Þetta þýddi að þegar veiddist vel streymdi gjaldeyririnn inn og gerði það að verkum að krónan styrktist, en þegar kom aflabrestur fylgdi því gjarnan gjaldeyriskreppa enda fáum öðrum útflutningstekjum til að dreifa en þeim sem voru frá sjávarútvegi komnar.“
Erna flutti erindi um krónuna og sjávarútveginn á Sjávarútvegsráðstefnunni 2018, sem haldin hefur verið í Hörpu í gær og í dag. Auk Ernu tóku til máls fleiri sérfræðingar frá Arion banka og kynntu ítarlegar skýrslur og greiningar um rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs.
Að sögn Ernu er alkunna að þegar gengi krónunnar er veikara séu aðstæður alla jafna betri fyrir sjávarútveginn, enda tekjur greinarinnar að langmestu leyti í erlendum myntum en kostnaðurinn að einhverju leyti í krónum. Veikara gengi þýði að fleiri krónur fást fyrir sjávarafurðir og meira aflögu þegar búið er að draga kostnaðarlið frá. Árin eftir bankahrun voru því hagfelld greininni en róðurinn tekinn að þyngjast undanfarin tvö til þrjú ár í takt við styrkingu krónunnar.
En fleira gerðist í kjölfar bankahrunsins: mikill vöxtur varð í ferðaþjónustugeira og raunar svo mikill að í dag hefur þjóðarbúið meiri gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum en af fiski. Erna bendir á að þar sem búið sé að renna fleiri stoðum undir innstreymi gjaldeyris megi reikna með að hagkerfið geti viðhaldið sterkara raungengi og að krónan sveiflist ekki með sama hætti í takt við árferðið í sjávarútvegi. „Þetta þýðir að greinin stendur frammi fyrir nýjum veruleika og öðrum rekstrarskilyrðum en áður.“
Minnkað vægi gjaldeyristekna af sölu sjávarafurða sást meðal annars í sjómannaverkfallinu í ársbyrjun 2017. „Margir bjuggust við því að krónan myndi veikjast mikið en í staðinn stóð gengið í stað og styrktist svo bara enn meira þegar verkfallinu lauk.“
Greiningardeild Arion banka hefur gert spá um gengisþróun komandi ára og segir Erna Björg óvenjumiklar hreyfingar á gengisspánni að þessu sinni. Fjallað er nánar um spá bankans í ViðskiptaMogganum.