Hollvinasamtökum dráttarbátsins Magna hefur áskotnast aðalvél sömu gerðar og var í bátnum. Magni var smíðaður hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík eftir teikningum Hjálmars R. Bárðarsonar. Hann var fyrsta stálskipið sem smíðað var á Íslandi og var tekinn í notkun í júní 1955.
Hann var í eigu Reykjavíkurhafnar og notaður í áratugi.
Árið 1987 var báturinn seldur einkaaðila. Það var jafnframt seinasta árið sem Magni var í rekstri, samkvæmt upplýsingum frá Hollvinasamtökunum. Í ferð upp í Hvalfjörð var fyrir mistök lokað fyrir smurolíukæli sem olli því að aðalvél skipsins bræddi úr sér. Magna var lagt í kjölfar þess og hefur hann legið í Reykjavíkurhöfn síðan.
Hollvinasamtök Magna voru stofnuð 25. júní 2017 og hafa síðan þá unnið ötullega að því að koma skipinu í upprunalegt horf. Meginmarkmið samtakanna eru þau að skipið verði haffært að nýju og geti siglt með fólk um Sundin.
Einstakur og raunhæfur möguleiki
Í bréfi sem Hollvinsamtökin skrifuðu Faxaflóahöfnum er því lýst hvernig samtökin fundu nýja vél í bátinn. Í sumar var vélin flutt til Svendborg í Danmörku. Ástand hennar var skoðað og reyndist það gott. Vélin er af árgerð 1968 og var í fullum rekstri fyrir ári. Vélin kostaði 400.000 dkr, eða jafnvirði 7,5 milljóna íslenskra króna. Samtökin hafa greitt 1,6 milljóna innborgun á vélina.
„Það er mat okkar að þar sé um að ræða einstakan og raunhæfan möguleika á því að skipta um aðalvél í Magna og gera hann gangfæran,“ segir í bréfinu til Faxaflóahafna, um leið og leitað er eftir fjárstyrk til verkefnisins. Stjórn Faxaflóahafna frestaði afgreiðslu erindisins til næsta fundar.
Magni var tekinn í slipp í febrúar á þessu ári þar sem botnhreinsun var gerð og báturinn málaður.