Áhugaverðir tímar í vændum

Bjarni Sæmundsson siglir í var. Við mælingar á loðnustofninum í …
Bjarni Sæmundsson siglir í var. Við mælingar á loðnustofninum í janúar leituðu skip Hafrannsóknastofnunar í var á Ísafirði. Myndin er tekin um borð í Árna Friðrikssyni, sem sigldi samsíða Bjarna Sæmundssyni inn Ísafjarðardjúpið. Í baksýn má sjá hrikaleg fjöllin á Hornströndum. Ljósmynd/Svanhildur Egilsdóttir

Niðurstöður úr loðnuleiðangri í september þóttu hvorki gefa ástæðu til að gefa út kvóta loðnu í vetur né upphafskvóta fyrir næsta fiskveiðiár. Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á sviði uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, segir í samtali við 200 mílur að loðnustofninn hafi varla verið lélegri frá upphafi mælinga. Þó megi velta fyrir sér hvort fram undan séu breytingar til betri vegar, í kjölfar kólnunar sjávar við Ísland undanfarin ár.

Við höfum séð hlýnun fyrir norðan land frá því í kringum aldamótin, eða árin þar rétt á undan. Síðan þá hefur verið tiltölulega hlýr sjór fyrir norðan land, miðað við það sem við áttum áður að venjast,“ segir Birkir.

„Á sama tíma sjáum við þessa færslu loðnunnar til vesturs og norðurs, og þetta virðist því haldast í hendur, því það er talsvert ólíkt þeirri útbreiðslu sem tíðkaðist fyrir aldamót. Loðnan virðist vilja vera á mörkum pólsjávar og hlýrri sjávar, og færist með þeim breytingum sem á þeim verða. Þessi hlýnun hefur að minnsta kosti skapað einhverjar aðstæður sem valda því að hún færir sig til norðurs og vesturs.“

Birkir bendir á að hitastig sjávar eitt og sér eigi þó ekki allan hlut að máli þegar kemur að útbreiðslu loðnunnar. „Auk annarra þátta hefur framboð á fæðu auðvitað líka áhrif á göngurnar, þar sem hún er í fæðuleit.“

Nýliðun léleg á þessari öld

Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.
Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Vart varð við kólnun á yfirborði sjávar norður af Íslandi upp úr árinu 1960. „Þá á sér þarna stað ákveðin kólnun, og um sama leyti eru loðnuveiðar reyndar að hefjast í fyrsta sinn. Fram undir aldamót virðist sem loðnustofninn sé í góðu ástandi – á þessum kaldari árum. En við vitum auðvitað ekki hver staða stofnsins var fyrir þann tíma, þar sem veiðar voru ekki hafnar.“

Vísitala ungfisks í loðnustofninum hefur verið lág undanfarin ár, og í raun hefur nýliðun innan stofnsins reynst léleg flest ár sem liðin eru frá aldamótum. „Að sumu leyti skýrist það þó af því að einhver árin áttum við í erfiðleikum með að ná almennilega utan um ungloðnu í okkar mælingum. Samt sem áður má álykta að nýliðun hafi verið léleg flest ár á þessari öld.“

Aðspurður viðurkennir Birkir að loðnustofninn hafi varla verið lélegri en nú, frá upphafi mælinga. „Það eru kannski tilvik á níunda áratugnum, í kringum 1982, og svo aftur í kringum 2009. En það er alveg óhætt að segja að þetta er óvenju slæmt ástand, ef rétt reynist.“

Breytingar stofninum í hag?

Birkir segir að þegar horft sé fram á veginn, þá megi hugsanlega vænta töluverðra breytinga á næstu árum. „Við höfum verið að sjá, fyrir suðvestan og sunnan land, að þar hefur sjór verið að kólna. Eins og hafstraumarnir liggja þá má búast við að þessi kólnun muni að lokum berast norður fyrir land, á þessi svæði þar sem loðnan heldur sig, og það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif kólnunin hefur á stofninn.“

Úti fyrir Faxaflóa eru nú þegar farin að sjást merki um kólnun og minni sjávarseltu, sem getur verið fyrsta vísbending um að þessi kaldi sjávarmassi sé að fara að berast norður fyrir land.

„Við eigum því mjög áhugaverða tíma í vændum hvað loðnuna varðar, og út frá þeim gögnum sem fyrir liggja þá er hugsanlegt að þessar breytingar verði stofninum í hag. En þekking okkar er enn sem komið er svo takmörkuð að það má ekkert fullyrða um þetta með vissu – hvað nákvæmlega muni gerast. Það eru að minnsta kosti breytingar í farvatninu, það er það eina sem ég get sagt.“

Í máli Birkis kemur einnig fram að útbreiðsla hafíss hafi nokkur áhrif á göngur loðnunnar.

„Hafís hefur jafnt og þétt farið minnkandi á þessu svæði sem loðnan heldur sig á, og maður veltir því fyrir sér hvaða áhrif sú þróun hefur – og hvaða áhrif hafísinn hefur yfirhöfuð á loðnuna. Við vitum ekki mikið um það en þarna getur verið að eiga sér stað töluvert samspil, sem nú reynir á þegar hafísröndin færist sífellt norðar. Meðal annars hvað varðar aðgang afræningja að loðnunni og birtustig, svo dæmi séu nefnd. Hugsanlega verður minna um það að loðnan haldi sig í grennd við hafísröndina.“

Ekki fylgst nógu vel með

Birkir tekur fram að auk þess að vera mikilvægur nytjastofn sé loðnan líka mikilvæg sem fæða fyrir aðrar verðmætar tegundir. „Hún nærist og vex þarna norður í höfum, og svo með hrygningargöngunni upp á landgrunnið okkar, þá er hún að bera hingað gríðarlegan lífmassa sem er ómetanlegur fyrir vistkerfið og þá nytjastofna sem þar eru, eins og þorsk, ýsu, ufsa og fleiri fisktegundir.“

Að lokum segir hann að ljóst sé að almennt séu miklar breytingar að eiga sér stað á hafsvæðinu umhverfis Ísland. „Við höfum einfaldlega ekki fylgst nógu vel með, fram til þessa. Þetta eru stór verkefni sem bíða okkar og þess vegna er mikilvægt að vera með góð tól í höndunum til að takast á við þau. Í þessum efnum þurfum við sem Íslendingar að taka okkur á, efla rannsóknir, bæta þekkingaröflun og virkja frekara samstarf við nágrannaþjóðir. Við þurfum að draga fleiri með okkur í þetta, þar sem þessi málefni varða jú fleiri en okkur,“ segir Birkir.

Hann vonast þá til að tilvonandi nýtt skip Hafrannsóknastofnunar, sem ætlað er að koma í stað hálfrar aldar gamals Bjarna Sæmundssonar, muni koma að góðum notum. „Það er mikilvægt að vel verði að því staðið, og að það henti okkar aðstæðum. Þekking kostar peninga, en þekkingarleysi er ennþá dýrara.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 209,66 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 76,84 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 209,66 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 76,84 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »