Blikur á lofti yfir Bretlandi

Fjárfesting íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í nýjum skipum og tæknivæddari vinnslum er …
Fjárfesting íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í nýjum skipum og tæknivæddari vinnslum er líkleg til að halda áfram á næstu árum, að sögn Jóns Þrándar. Ljósmynd/Þröstur Njálsson

Breytt eignarhald íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, yfirvofandi óvissa vegna Brexit og sterkari samkeppnisstaða Rússa er á meðal þess sem dr. Jón Þrándur Stefánsson, yfirmaður greininga hjá Sea Data Center, nefnir þegar litið er til baka yfir árið í sjávarútvegi. Hann spáir hér í spilin fyrir komandi ár.

Í samtali við 200 mílur segir Jón Þrándur að íslenskir útflytjendur hafi að einhverju leyti náð aftur vopnum sínum á erlendum mörkuðum, eftir afdrifaríkt verkfall sjómanna snemma á síðasta ári. Áhrifa verkfallsins gæti þó enn sums staðar.

„Sem dæmi má nefna markaðinn í Sviss, en þar er staða Íslands mjög veik eftir verkfallið. Að stórum hluta hafa kaupendur leitað í vörur annarra,“ segir hann.

„En ef litið er yfir þróunina frá því verkfalli lauk og fram til dagsins í dag kennir ýmissa grasa. Það hafa verið breytingar hér innanlands en einnig erlendis, sem hafa haft áhrif á markaðs- og samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda sjávarafurða.“

Á því ári sem nú er að líða segir Jón Þrándur að breytingar á eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja standi tvímælalaust upp úr. Í því sambandi má nefna kaup Útgerðarfélags Reykjavíkur, áður Brims, á stórum eignarhlut í HB Granda, sölu Ögurvíkur úr hendi þess fyrrnefnda til þess síðarnefnda, og kaup Fisk-Seafood á eignarhlut Útgerðarfélags Reykjavíkur í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum.

„Í þessu felast bæði breytingar á þeim þáttum sem snúa að hefðbundnum veiðum og vinnslu, en líka afleiddar breytingar hvað varðar markaðsþáttinn, svo sem á sölumálum, en ýmis tækifæri og áskoranir hafa vaknað við þær.“

Til dæmis nefnir Jón Þrándur að sú staðreynd, að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., seldi eignarhlut sinn í HB Granda sem hann átti ásamt öðrum í gegnum félögin Vogun hf. og Fiskveiðihlutafélagið Venus hf., geti haft áhrif á mörkuðum erlendis, sem hingað til hafi reynst útgerðinni erfiðir sökum tengingarinnar við hvalveiðar.

„Þegar horft er út fyrir landhelgina má síðan sjá mjög spennandi þróun, eins og í Rússlandi, sem kemur til með að hafa mikil áhrif til langframa á stöðu hvítfisksfyrirtækja á mörkuðum. Rússarnir eru ekki bara að fjárfesta í nýjum skipum heldur eru þeir einnig að efla landvinnslu sína. Ef horft er fram á veginn gætum við séð Rússland sem mjög sterkan samkeppnisaðila á sumum af þessum stærstu mörkuðum í Evrópu,“ segir Jón Þrándur.

„En ef við beinum sjónum okkar aftur hingað innanlands, þá höfum við núna á síðari hluta sumars og á haustmánuðum séð umræðu um veiðigjöldin, sem endaði svo með því að ný lög voru samþykkt. Þar með virðist vera komin niðurstaða í þau mál, að minnsta kosti til skamms tíma,“ segir hann og bætir við að tilkoma laganna ætti að hafa jákvæð áhrif á stöðugleika í sjávarútvegi. Með því að færa viðmið innheimtu gjaldanna nær sjálfri innheimtunni fáist meiri fyrirsjáanleiki í rekstur fyrirtækjanna, sem sé ávallt af hinu góða.

„Svo geta menn sjálfsagt alltaf byrjað upp á nýtt að rífast um krónur og aura. En þessi fyrirsjáanleiki skiptir öllu máli.“

Fjárfesting íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í nýjum skipum og tæknivæddari vinnslum er því líkleg til að halda áfram á næstu árum, að hans sögn.

„Fyrirsjáanleikinn hefur þannig líka góð áhrif á þau tæknifyrirtæki sem selja búnað í skipin og vinnslurnar sem verið er að fjárfesta í.“

„Við erum ekki laus við Brexit. Síður en svo,“ segir …
„Við erum ekki laus við Brexit. Síður en svo,“ segir Jón Þrándur. AFP

Hvað mun gerast eftir Brexit?

Á komandi ári blasa við nokkrir óvissuþættir að sögn Jóns Þrándar. Þeirra helstur er væntanleg útganga Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Við erum ekki laus við Brexit. Síður en svo. Við vitum ekki hvernig endanlega niðurstaðan verður og hvað Brexit varðar skipta tveir þættir ef til vill mestu máli. Annars vegar hvort Brexit muni hafa áhrif á dreifileiðir á íslenskum fiski í gegnum Bretland og til meginlands Evrópu, og hins vegar hvort Brexit muni hafa áhrif á markaðsaðgang breskra fyrirtækja sem að miklu leyti stóla á íslenskt hráefni í sinni framleiðslu. Stór hluti þeirrar vinnslu sem fram fer í bresku bæjunum Grimsby og Hull, svo dæmi séu tekin, hefur ekki bara farið á markað í Bretlandi heldur líka verið fluttur áfram til meginlands Evrópu. Allir erfiðleikar sem upp geta komið í flutningum á milli Bretlands og Evrópusambandsins geta því haft áhrif á rekstur þessara fyrirtækja.“

Á sjálfum Bretlandsmarkaði eru einnig blikur á lofti. „Gengi sterlingspundsins er nokkuð sem fylgjast þarf gaumgæfilega með. Íslenskur sjávarútvegur hefur í gegnum áratugina hagað seglum eftir vindi, hvað varðar gengi krónunnar og erlendra gjaldmiðla. Ef breska pundið verður áfram veikt gæti athygli íslenskra útflytjenda færst á aðra markaði á erlendri grundu.“

Vinnslan samkeppnisfær?

Spurður hvort útganga Bretlands úr Evrópusambandinu geti haft í för með sér að sú vinnsla, sem fram fer í Bretlandi á íslenskum sjávarafurðum, færist að hluta til Íslands, segir hann að svo geti mögulega farið.

„Ef íslenskir útflytjendur komast inn á það tengslanet kaupenda, sem vinnslurnar þar búa yfir er möguleiki á að einhver hluti þessarar vinnslu geti farið fram hér á landi. Það sem mælir hins vegar á móti því er mikill kostnaður við vinnsluna á Íslandi, meðal annars í formi hárra launa. Einnig ríkir óvissa um launaþróun á komandi ári og þar af leiðandi hvort vinnsla hérlendis verði samkeppnisfær við vinnslu afurða annars staðar,“ segir Jón Þrándur.

„Við höfum séð á þessu ári að meiri ásókn er í útflutning á óunnu hráefni frá Íslandi. Vel getur verið að þegar útgerðir fara að leggjast yfir bækur sínar að niðurstaðan verði sú að það borgi sig ekki að vinna jafn mikið af hráefni hér innanlands og gert er í dag, á meðan kostnaður er eins hár og raun ber vitni.“

Ekki séu ótvíræð skilaboð um að öll fiskvinnsla sé að færast úr landi. „En það eru ákveðnar vísbendingar um að hætt sé við því að þróunin verði á þennan veg.“

Ítarlegra viðtal við Jón Þránd má lesa í ViðskiptaMogganum, sem fylgdi Morgunblaðinu í dag.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 209,66 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 76,84 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 209,66 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 76,84 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »