Stofnendurnir ótrúlega framsýnir

Guðbjörg segir FleXicut-lausnina, sem hún leiddi fyrir nokkrum árum, vera …
Guðbjörg segir FleXicut-lausnina, sem hún leiddi fyrir nokkrum árum, vera æðislegt dæmi um sjálfvirknivæðingu. mbl.is/Eggert

Í sjávarútvegi erlendis er horft til Íslands þegar kemur að tæknivæðingu í veiðum og vinnslu. Þetta segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, sem tók við stöðu framkvæmdastjóra Marels í september.

Í samtali við 200 mílur segir Guðbjörg ánægjulegt að sjá að sjávarútvegur hér á landi skapi sífellt meiri verðmæti, þrátt fyrir stöðugan afla. Hún segist fyrst hafa kynnst Íslenskum sjávarútvegi með almennilegum hætti þegar hún hóf störf við vöruþróun fiskvinnslubúnaðar hjá Marel.

„Ég fór að skilja betur hvað hann er verðmætur fyrir okkur sem þjóðfélag,“ segir Guðbjörg, en spurð hvort hún verði þess vör að samfélagið meti ekki sjávarútveg og tengdar greinar sem skyldi, miðað við þau verðmæti sem þar eru á ferð, nefnir hún dæmi um könnun sem Marel hefur látið gera um viðhorf hérlendis gagnvart fyrirtækinu.

„Í 98% tilvika er fólk jákvætt eða mjög jákvætt gagnvart Marel. En svo þegar spurt er hvers vegna, þá er viðkvæðið oft „fiskur“ eða „hugbúnaður“. Svarið verður einhvern veginn miklu óljósara. Fólk veit því greinilega að þetta skiptir máli en ég hugsa að það sé ekki endilega að kafa mikið dýpra,“ segir hún.

„Á sama tíma er ferðaþjónustan mjög áberandi og um leið áhrifin af vexti þeirrar greinar á samfélagið. Ég hugsa því að fólk sé almennt jákvætt gagnvart grósku í sjávarútvegi en hafi ekki endilega dýpri þekkingu en sem því nemur. Það er heldur ekki endilega auðvelt að tala um tækni og nýsköpun ýmiss konar. Það er ekki beinlínis umræða sem fólk stekkur inn í, enda er hún ef til vill ekki oft á nógu miklu mannamáli.“

Í fararbroddi í hvítfiskvinnslu

Guðbjörg segist finna að erlendur sjávarútvegur horfi til Íslands þegar kemur að tæknivæðingu í veiðum og vinnslu. „Hvítfiskvinnslan er til að mynda lengst komin hér á landi, miðað við vinnslur í öðrum löndum. Sú reynsla og þekking sem byggst hefur upp í hvítfiskinum nýtist síðan þegar litið er til vinnslu á annars konar sjávarafurðum,“ segir Guðbjörg. Þannig séu Íslendingar í fararbroddi í vinnslu á hvítfiski.

„Ég hugsa að það fari fáir í heiminum að vinna hvítfisk að ráði án þess að frétta hvað er að gerast á Íslandi. Sjávarútvegurinn hefur alltaf verið mjög mikilvægur fyrir þjóðarhag Íslands, og hann stendur ennþá undir 40% af vöruútflutningi frá landinu.“

Verðmæti í tækni og þekkingu

Hluti af starfsemi Marels byggist á sjálfvirknivæðingu fiskvinnslu og bendir Guðbjörg á að víða sé þeirri tækni jafnan sýndur mikill áhugi, sérstaklega þar sem launakostnaður er hár.

Aðspurð segir hún að nýsköpunarumhverfið á Íslandi sé heilbrigt, og að svo virðist sem stjórnvöld séu sífellt meðvitaðari um mikilvægi nýsköpunar í heild. Marel finni fyrir miklum meðbyr og samtalið um nýsköpun hér á landi sé nokkuð jákvætt.

Þá finnist henni skemmtilegt að sjá, á sama tíma og útlit sé fyrir að aflamagn við Íslandsstrendur muni ekki endilega aukast á komandi árum, að sjávarútvegur hérlendis sé samt sem áður að skapa sífellt meiri verðmæti. Annars vegar með betri nýtingu afurða, með hjálp tækninnar, og hins vegar með útflutningi á sjálfri tækninni og þeirri þekkingu sem þar býr að baki.

„Og við eigum svo mikið inni. Þekkingin verður alltaf meira og meira virði. Það er svo ótrúlega víða sem sjálfvirknivæðingin á í raun enn eftir að eiga sér stað. Þannig er staðan í mörgum löndum í kringum okkur. Það bíður okkar því fjöldi tækifæra þar sem við lítum svo á að við eigum mikið fram að færa.“

Beingarður skorinn með vatni

Guðbjörg segir FleXicut-lausnina, sem hún leiddi fyrir nokkrum árum, vera æðislegt dæmi um sjálfvirknivæðingu.

„Í margar aldir hafa menn skorið beingarð úr fiskflaki með höndum. Og nú er það gert með vatni. Framleiðendur ná fram miklu betri nýtingu og það er miklu meira magn sem getur farið í gegnum vinnsluna. Þú þarft ekki að þjálfa starfsfólk í störf sem eru ekki eftirsótt. FleXicut er ótrúlega gott dæmi um hvað sjálfvirknivæðing getur haft mikið að segja.“ Spurð hvaða byltingu Marel muni næst leiða fram á sjónarsviðið bendir hún á nýjungar hjá fyrirtækinu á borð við að nota mikið magn miðlægra gagna til að spá um viðhald og varahlutaþörf tækja sem búið er að selja notendum.

„Hér áður fyrr gastu ef til vill fengið skýrslu frá hverju tæki fyrir sig að degi loknum, þegar gögnin voru búin að hlaðast upp. En núna, með hjálp 4G-nettækninnar og síðar 5G, þá geta allar upplýsingar flætt í rauntíma inn á skrifstofuna, þar sem vinna má með þær um leið. Þarna er Marel – með stærsta hugbúnaðarhús landsins – með ótrúleg tækifæri í höndunum.“

Framfarir í sjóntækni eru þá einnig í deiglunni, segir Guðbjörg. „Ef þú ætlar að sjálfvirknivæða, þá þarftu að sjá. Vélin getur ekki tekið ákvörðun um eitthvað upp úr þurru, hún þarf að geta séð hvað hún er að vinna með. Hérna er til dæmis hægt að nota gervigreind til að vinna úr upplýsingum sem koma frá myndavél, sem getur þannig tekið betri ákvarðanir í vinnslunni og með meiri áreiðanleika.“

Hanna fiskvinnslu framtíðar

Guðbjörg bendir loks á að í ár séu fjörutíu ár liðin síðan fyrsta rafeindavogin sem hönnuð var af stofnendum Marels leit dagsins ljós.

„Það er í raun ótrúlegt hvað þeir voru framsýnir og nútímalegir í hugsun, þar sem vogin safnaði einnig gögnum sem síðan voru notuð til að bæta vinnsluna, minnka sóun og auka virðið. Við höfum frá fyrsta degi horft á gögn sem uppsprettu virðisaukningar. Enn í dag byggjum við á þessum grunni, auk þess sem við erum að taka helstu tækninýjungar samtímans og færa þær í vélar fyrirtækisins,“ segir hún.

„Verkefnið er ærið og verðugt. Við erum að tryggja að matvæli séu framleidd á hagkvæman og sjálfbæran máta. Aðeins þannig getum við tryggt að nóg verði til þegar mannkynið verður tíu milljarðar árið 2025. Það er verkefnið fyrir fiskvinnslu framtíðarinnar og hana erum við að búa til í Marel, í samstarfi við viðskiptavini okkar.“

Viðtalið birtist fyrst í sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu síðast þann 14. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 209,66 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 76,84 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 209,66 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 76,84 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.12.24 Kristján HF 100 Lína
Karfi 261 kg
Þorskur 203 kg
Keila 107 kg
Ýsa 37 kg
Samtals 608 kg
21.12.24 Benni ST 5 Landbeitt lína
Þorskur 11.697 kg
Ýsa 99 kg
Steinbítur 45 kg
Keila 4 kg
Samtals 11.845 kg
21.12.24 Björg EA 7 Botnvarpa
Þorskur 103.876 kg
Ýsa 944 kg
Samtals 104.820 kg
20.12.24 Guðmundur í Nesi RE 13 Botnvarpa
Karfi 189.310 kg
Þorskur 103.686 kg
Grálúða 54.139 kg
Gulllax 9.379 kg
Blálanga 7.603 kg
Ufsi 2.610 kg
Hlýri 1.608 kg
Steinbítur 1.339 kg
Ýsa 605 kg
Langa 334 kg
Arnarfjarðarskel 207 kg
Keila 76 kg
Kolmunni 26 kg
Samtals 370.922 kg

Skoða allar landanir »