Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist ekki enn hafa fengið á sitt borð tillögur forstjóra Hafrannsóknastofnunar, um hvernig stofnunin muni bregðast við kröfu stjórnvalda um hagræðingu.
„Ég óskaði eftir hugmyndum forstjóra í desember, um mögulegar leiðir til að mæta þeirri hagræðingarkröfu sem komið hefði fram,“ segir Kristján Þór í samtali við 200 mílur. „Það var skömmu fyrir jól og við höfum einfaldlega ekki getað farið almennilega yfir málið enn þá. Ég hef ekki enn fengið þær inn á mitt borð.“
Aðspurður segist Kristján Þór ekki vilja tjá sig um væntanlegar uppsagnir stofnunarinnar.
„Ekki fyrr en við höfum farið yfir þær hugmyndir sem forstjórinn leggur upp við ráðuneytið, og með hvaða hætti það verði gert. Þess vegna vil ég ekki tjá mig um það að sinni. Ég tel þó að við höfum alla möguleika á því að koma í veg fyrir að þessar ýtrustu hugmyndir gangi eftir,“ segir hann og bætir við: „Það hefur verið unnið að lausn þessa máls síðastliðnar vikur og ég vonast eftir niðurstöðu í þeirri vinnu á allra næstu dögum.“
Ráðherrann bendir á að töluverður hluti, eða nokkur hundruð milljóna króna, af fjármögnun Hafrannsóknastofnunar, hafi undanfarin ár fengist með fjárframlagi úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Stærstur hluti þess niðurskurðar sem blasi við stofnuninni nú sé vegna þess að tekjur úr sjóðnum hafi dregist verulega saman á síðastliðnum árum.
„Um er að ræða fjármuni sem fást vegna upptöku ólögmæts sjávarafla. Í mínum huga er það ekki boðlegt fyrirkomulag að stofnunin sé háð slíkri fjármögnun heldur þyrfti stofnunin að vera fjármögnuð með allt öðrum og ábyrgari hætti. Það er meðal annars breyting á því fyrirkomulagi sem orðið hefur núna og kallar á það að við setjumst yfir þetta og skoðum málið í stærra samhengi. Það er það sem við erum að gera og ég er vongóður um að á næstu dögum munum við finna leiðir til að Hafrannsóknastofnun geti áfram sinnt sínu mikilvæga hlutverki með forsvaranlegum hætti. Annað kemur ekki til greina í mínum huga.“
Í sameiginlegri yfirlýsingu Sjómannasambands Íslands, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Félags skipstjórnarmanna og VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna, sem birt var í morgun, var bent á að krafa um hagræðingu og niðurskurð hjá Hafrannsóknastofnun rímaði illa við þau sjónarmið sem fram hefðu komið í þingsályktun þeirri sem gerð var í sumar, í tengslum við smíði á nýju hafrannsóknaskipi.
„Ég tek undir það sem þar kemur fram, um mikilvægi rannsókna. En ég ítreka það enn og aftur, að það hefur engin ákvörðun enn þá verið tekin í þessum efnum. En þau sjónarmið sem fram koma í yfirlýsingu félaganna – ég tek undir þau.“