Útgáfa bráðabirgðarekstrarleyfis til fiskeldisfyrirtækisins Arctic Sea Farm hefur verið kærð, en leyfið var gefið út í nóvember eftir að samþykkt voru á Alþingi lög til að koma í veg fyrir að starfsemi fyrirtækisins legðist af.
Matvælastofnun hafði veitt fyrirtækjunum rekstrarleyfi í lok árs 2017 en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi þau úr gildi 27. september. Með gildistöku laganna í nóvember var ráðherra veitt heimild, að fenginni umsögn Matvælastofnunar, til að gefa út tímabundið rekstrarleyfi til allt að 10 mánaða.
Í kærunni er bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Arctic Sea Farm stefnt fyrir dómstóla og gerð sú krafa að rekstrarleyfið til bráðabirgða verði fellt úr gildi, að því er vestfirski fréttavefurinn bb.is greinir frá.
Segir þar að málið verði tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem samþykkt hafi flýtimeðferð málsins. Stefnendur séu þá eftirtaldir:
- Ari P. Wendel, fyrirsvarsmaður samtakanna Laxinn lifi.
- Árni Finnsson, formaður Náttúrurverndarsamtaka Íslands.
- Óttar Yngvason, fyrirsvarsmaður Geiteyri ehf. og Akurholts ehf., sem eru félög um veiðiréttindi í ám á Vesturlandi.
- Guðmundur Halldór Jónsson, fyrirsvarsmaður Varplands ehf., sem á veiðiréttindi í Ísafjarðardjúpi.
- Páll A. Jónsson, fyrirsvarsmaður veiðifélags Laxár á Ásum í Húnavatnssýslu.
- Víðir Hólm Guðbjartsson, Grænuhlíð, Bíldudal, vegna Hringsdals.
- Atli Árdal Ólafsson, Selfossi, vegna veiðiréttinda í Ísafjarðardjúpi.