Ekki er hægt að fullyrða að verulega þurfi að auka veiðar á hvölum til að þær hafi áhrif á afrakstur annarra nytjastofna sjávar til lengri tíma litið. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar, þar sem birt er svar við umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða.
„Síðasta tilraun til að meta afrán hvala við Ísland (og á aðliggjandi hafsvæðum) og hugsanleg áhrif þess var gerð fyrir rúmlega 20 árum. Þá (1997) birtust tvær tímaritsgreinar um málið (Sigurjónsson & Víkingsson 1997, Stefánsson et al. 1997),“ segir á vef stofnunarinnar.
„Í þeirri fyrrnefndu var afrán þeirra 12 hvalategunda sem finnast reglulega við landið metin um 6 milljónir tonna. Var um þriðjungur (2 milljónir tonna) afránsins talinn vera fiskur, rúmlega fimmtungur smokkfiskategundir og tæplega helmingur krabbadýr (áta). Takmörkuð fyrirliggjandi gögn gáfu ekki tilefni til nánari sundurliðunar á fæðusamsetningunni.“
Í síðarnefndu greininni frá 1997 hafi verið leitast við að leggja gróft mat á áhrif þriggja hvalategunda (hrefnu, langreyðar og hnúfubaks) á langtíma-afrakstur stofna þorsks, loðnu og rækju.
„Niðurstöðurnar voru háðar mikilli óvissu m.a. vegna gagnaskorts um fæðusamsetningu hvalanna og framtíðarþróun í stofnstærðum hvalastofnanna. Að gefnum forsendum, bentu niðurstöðurnar þó til að neikvæð áhrif alfriðunar hvala gætu verið umtalsverð til lengri tíma litið bæði hvað varðar loðnu og þorsk.“
Rannsóknirnar hafi byggt á stofnstærðartölum sem orðnar séu aldarfjórðungs gamlar. Samkvæmt talningum undanfarinna áratuga hafi orðið umtalsverðar breytingar á hvalastofnum við landið, en þó mismiklar eftir tegundum.
„Einnig liggja nú fyrir betri gögn um stofnstærðir ýmissa tegunda smáhvala svo og um fæðusamsetningu hrefnu. Séu útreikningarnir uppfærðir með nýjustu stofnstærðartölum hefur afránið í heild aukist og reiknast 7,6 milljónir tonna (þar af 3,3 milljónir tonna af fiski). Stórtækustu afræningjarnir eru langreyður (1,8 milljón tonn), hrefna (1,5 milljón[ir] tonn[a]) og hnúfubakur (1,1 milljón tonn). Þær tegundir sem vitað er til að éti þorskfiska taka samtals um 735 þúsund tonn af þessum fæðuflokki samkvæmt þessum útreikningum. Þar eru atkvæðamestar hnýðingur (384 þúsund tonn) og hrefna (331 þúsund tonn), en einnig hnísa (3 þúsund tonn) og búrhvalur (65 þúsund tonn).“
Bent er á að veruleg óvissa sé um margar forsendur þessara útreikninga og að ekki sé unnt að leggja tölulegt mat á óvissuna með fyrirliggjandi gögnum.
„Helstu óvissuþættir varða fæðusamsetningu margra tegunda, stofnstærðir tannhvala og viðverutíma farhvala við landið. Hvalatalningar eru hannaðar til að fá sem best mat á fjölda skíðishvala við landið, einkum nytjategundanna langreyðar og hrefnu. Við mat á öðrum tegundum var beitt varúðarnálgun og þær sennilega vanmetnar.“
Enn sé því mikil óvissa um afrán hvala við landið og enn meiri óvissa um hugsanleg áhrif á fiskveiðar.
„Einungis eru stundaðar veiðar á tveim tegundum hvala, hrefnu og langreyði. Aflamark er reiknað samkvæmt RMP veiðistjórnunarkerfi Alþjóðahvalveiðiráðsins sem miðar að því að halda hvalastofnunum í 60% af hámarksstærð (K). Frá því að hvalveiðar í atvinnuskyni hófust að nýju árið 2006 hafa veiðar verið langt undir settu aflamarki og því ólíklegt að þær hafi haft nein teljanleg áhrif á stofnstærðir hvala og þar með afrán þeirra. Verði hins vegar hvalastofnar fullnýtt[i]r í framtíðinni skv. RMP kerfinu gæti það hugsanlega haft veruleg áhrif á afrán hvala og/eða samkeppni við fiskistofna enda eru hvalir óvíða eins stór hluti vistkerfa hafsins eins og hér við land,“ segir á vef stofnunarinnar.
„Flestir eru sammála um að taka beri aukið tillit til vistfræðilegs samspils tegunda í tengslum við stjórn nýtingar auðlinda hafsins. Enn er þó langt í land í því sambandi en mikilvægt er að áhrif hvala séu metin sem hluti af þróun slíkrar vistkerfisnálgunar. Þessi málefni eru einnig ofarlega á baugi hjá nágrannaþjóðum okkar og er Hafrannsóknastofnun aðili að samstarfsverkefni um mat á afráni sjávarspendýra í Norðaustur-Atlantshafi sem væntanlega mun skila niðurstöðum á næsta ári.“
Frá því fyrir síðustu aldamót hafi hlýnun sjávar leitt til umtalsverðra breytinga í lífríki hafsins.
„Þar má nefna breytingar á útbreiðslu ýmissa fiskistofna (makríll, loðna, skötuselur, ýsa). Fækkun hrefnu á landgrunnsvæði Íslands virðist mega rekja til fæðuskorts (síli, loðna) og benda nýlegar talningar Norðmanna við Jan Mayen til að útbreiðslan hafi hliðrast verulega til norðurs. Samhliða þessari fækkun á íslenska landgrunninu hefur hlutfall stærri fiska (þorskfiska og síldar) aukist í fæðu. Þessar miklu breytingar, sem ekki sér fyrir endann á, torvelda mjög allt mat á áhrifum hvalveiða á lífríkið og afrakstur fiskistofna.“
Frá því að úttekt á þjóðhagslegum áhrifum hvalveiða hafi síðast verið gerð árið 2010 hafi framfarir í mati á vistfræðilegu samspili hvala- og fiskistofna verið takmarkaðar. Þó liggi fyrir betri gögn um stærð hvalastofna sem bendi almennt til meira afráns en þá var áætlað.
„Auk þess benda nýlegar rannsóknir á hrefnu til meira afráns á fiski en fyrri rannsóknir þrátt fyrir fækkun tegundarinnar á svæðinu. Hvalveiðar undanfarinn áratug hafa sennilega ekki haft nein merkjanleg áhrif á viðkomandi hvalastofna enda hafa þær verið vel innan við útgefinn hámarksafla vegna markaðsvandamála. Ef marka má RMP veiðistjórnunarkerfið mun fullnýting viðkomandi hvalastofna til lengri tíma (áratuga) stefna þeim í 60% af þeirri stærð sem þeir væru án veiða. Þótt fyrirliggjandi þekking gefi ekki tilefni til magnbundinnar spár um hugsanlega áhrif slíkra hvalveiða á afrakstur tiltekinna fiskistofna, verður að telja líklegra en hitt að slík áhrif yrðu jákvæð vegna minnkaðs afráns og/eða samkeppni,“ segir að lokum.
„Miðað við það sem að ofan greinir er því ekki hægt að fullyrða að verulega þurfi að auka veiðar á hvölum til að þær hafi áhrif á afrakstur annarra nytjastofna sjávar til lengri tíma litið.“