Kastljós, fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, vann ekki heimavinnuna sína, lét nota sig og braut á viðmælendum sínum. Þetta segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag segir hann að ásakanir Kastljóss á hendur nafngreindum fyrirtækjum hafi verið falskar og rangar, en tímasettar í samhengi við framlagningu veiðigjaldafrumvarpa á Alþingi.
Þegar hefur Elín Björg Ragnarsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda, stigið fram og sagt Kastljós hafa „gróflega misnotað“ viðtal við sig. Viðtal sem tekið hafi verið árið 2012, klippt úr samhengi og birt um tveimur mánuðum síðar í tengslum við umfjöllun Kastljóss um húsleit hjá Samherja.
Í upphafi greinar sinnar í dag vísar Brynjar til þess að í siðareglum Ríkisútvarpsins segi eftirfarandi:
„Fréttamenn skulu skýra viðmælendum og heimildarmönnum frá því með hvaða hætti viðtöl eða upplýsingar frá þeim verði notaðar, um hvað fréttin eða þátturinn snúist.“
„Þetta er orðrétt úr siðareglum RÚV og er út af fyrir sig athyglisvert að stofnunin telji sig þurfa að setja á blað leiðbeiningar um vinnubrögð sem þykja eðlileg meðal siðaðra manna,“ skrifar hann.
„Viðmælandi hefur kært Kastljós til siðanefndar RÚV fyrir meðferð Helga Seljan á sér og viðtali við sig í mars 2012. Nefnt ákvæði og mörg önnur í siðareglum og fréttareglum RÚV voru þar þverbrotin og við vinnslu fjögurra þátta í sömu seríunni. Elín Björg Ragnarsdóttir lögfræðingur var ekki eini viðmælandi Helga Seljan sem þarna var brotið á. Þeir voru fleiri.“
„Páll Magnússon var útvarpsstjóri á þessari vakt og sér enn ekkert athugavert við vítaverð vinnubrögð Kastljósliðsins. Ekki vefst fyrir mér að staðfesta að við Páll erum sammála um að aðför Más Guðmundssonar & co. gagnvart Samherja hafi verið reist á sandi og ekki standi þar steinn yfir steini. Æskilegt væri í framhaldinu að hann viðurkenndi að Kastljósþættirnir fjórir voru líka reistir á sandi!“ skrifar Brynjar.
Þar hafi því verið haldið fram að sjávarútvegsfyrirtæki flyttu hagnað úr landi með undirverðlagningu sjávarafla og að þau brytu gjaldeyrislög.
„Allt var rannsakað í þaula. Máli Samherja lyktaði með sýknu en Vinnslustöðvarinnar með niðurfellingu ákæru sérstaks saksóknara. Eftir stendur að ásakanir Kastljóss á hendur nafngreindum fyrirtækjum voru falskar og rangar en tímasettar í samhengi við framlagningu veiðigjaldafrumvarpa. Þetta kalla ég samsæri starfsmanna RÚV, Seðlabanka og þáverandi stjórnvalda.“
Stjórnendur Samherja og Vinnslustöðvarinnar hafi þá verið „blákalt“ sakaðir um lögbrot.
„Í mínu tilviki frétti ég af því að Kastljós myndi fjalla um mál tengt félaginu mörgum vikum áður en þátturinn var sendur út. Tíminn var nægur og með örlítilli heimildarvinnu og viðtölum við kunnáttufólk í sjávarútvegi hefðu stjórnendur Kastljóss áttað sig á að ekki stóð steinn yfir steini í málatilbúnaðinum. Helgi Seljan [þáverandi umsjónarmaður Kastljóss] og samverkamenn hans í Seðlabankanum rugluðu t.d. saman verði á karfa á innanlandsmarkaði og á erlendum mörkuðum, sem var hærra vegna flutningskostnaðar!“
Í þættinum þar sem Vinnslustöðin hafi fyrst komið við sögu hafi Brynjar ekki fengið tækifæri til að bregðast við strax, eins og kveðið sé á um í reglum RÚV: „Sé um að ræða alvarlegar ásakanir, t.d. um lögbrot eða vanhæfi, verður að gefa viðkomandi möguleika til andsvara í sama fréttatíma.“
„RÚV hafði samband þremur klukkustundum fyrir útsendingu í byrjun apríl en þá var auðvitað ekkert svigrúm til að bregðast við ruglinu sem Seljan og Seðlabankinn höfðu kokkað frá því í janúar. Daginn eftir lýsti ég vinnubrögðum Kastljóss og viðtalið var afkynnt með þeim orðum að Kastljós stæði í einu og öllu við umfjöllun sína. Þátturinn stendur enn við þau orð sín, eða hvað?
Kastljós vann ekki heimavinnuna sína, lét nota sig og braut á viðmælendum sínum. Páll Magnússon ætti að íhuga hvort hann treystir sér til að taka áfram ábyrgð á því sem þarna gerðist á vaktinni hans.“