Ef fram fer sem horfir og engin loðna verður veidd á komandi vikum má búast við töluverðum áhrifum í þeim sveitarfélögum sem reiða sig á uppsjávarveiðar.
„Núna bíða bara allir eftir því að sjá hvað gerist. Annars vegar hvað æðri máttarvöld gera og hins vegar hvað stjórnvöld gera,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Sveitarfélagið er eitt þeirra sem horfa fram á töluvert tekjutap af völdum aflabrests í loðnu, en ekki er útlit fyrir að gefnar verði út aflaheimildir fyrir lok vertíðarinnar, sem eru alla jafna um miðjan marsmánuð.
Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á mánudag að fela fjármálastjóra sveitarfélagsins að fara yfir fjárhagsleg áhrif loðnubrests á tekjur aðalsjóðs og hafnarsjóðs bæjarins og leggja fyrir bæjarráð.
„Óvíða er uppsjávarvinnsla meiri en í Fjarðabyggð og ljóst er að loðnubrestur mun hafa mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Þá er einnig mikið áhyggjuefni að ekki er búið að ljúka samningum um kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu, sem ekki síður hefur mikil áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin í Fjarðabyggð,“ sagði í ályktun ráðsins.
Karl Óttar segir í samtali við 200 mílur að líklega verði niðurstöður fjármálastjórans kynntar á fundi bæjarráðs á mánudag.
„Þó er óhætt að segja að þetta eru umtalsverð áhrif sem þetta mun hafa, og við þurfum í raun aðeins að fá að vita hversu mikið við þurfum að draga saman hjá okkur,“ segir Karl Óttar.
„Þetta hefur klár áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin – tekjurnar þeirra lækka, sem hefur svo áhrif á fólkið í sveitarfélaginu sem vinnur við þetta, sem síðan hefur áhrif á útsvarstekjur sveitarfélagsins.“
Hann segir það bæta gráu ofan á svart að íslensk stjórnvöld hafi ekki enn náð samkomulagi um kolmunnaveiðar. „Þannig að fimmtíu prósent af kolmunnaveiðum eru í uppnámi líka. Við höfum þess vegna miklar áhyggjur af því hvernig þessi vertíð muni leika samfélagið okkar í Fjarðabyggð í heild sinni.“
„Þetta er smátt og smátt að koma í ljós þessa dagana og vikurnar. Við fylgjumst með þessu og munum ræða stöðuna og hafa til hliðsjónar við okkar vinnu,“ segir Þór Steinarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps. Hann bendir á að það sé vel þekkt ástand að aflabrestur verði í loðnu og að slíkt eigi sér stað á um það bil tíu ára fresti.
„Þetta er einfaldlega sá raunveruleiki sem við búum við, í þessum sjávarplássum úti á landi. Reksturinn okkar er háður mjög fáum þáttum og líf fólks þar með.“
Ítarlegri umfjöllun er að finna í ViðskiptaMogganum, sem fylgir Morgunblaðinu í dag.