Ráðherra getur ekki viðhaldið þeirri veiðistjórn makrílveiða sem hefur verið lítt breytt frá árinu 2011, í kjölfar þeirra dóma Hæstaréttar sem féllu í desember. Ef gefin yrði út reglugerð fyrir makrílveiðar á árinu 2019, sem byggð væri á veiðireynslu áranna 2013 til 2018, er líklegt að úthlutun aflaheimilda samkvæmt henni myndi skapa ríkinu skaðabótaskyldu.
Þetta er ein af meginniðurstöðum starfshóps, sem fenginn var til að fara yfir þýðingu þeirra dóma Hæstaréttar sem féllu í byrjun desember og vörðuðu úthlutun aflaheimilda í makríl á árunum 2011 til 2014. Með dómunum var viðurkennd skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna tjóns tveggja útgerðarfélaga, en talið var að skipum þeirra hefði verið úthlutað minni aflaheimildum en skylt var samkvæmt lögum.
Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu sinni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem meðal annars er farið yfir valdheimildir ráðherra að óbreyttum lögum og jafnframt helstu valkosti ef valið verður að bregðast við dómunum með lagasetningu.
Hópurinn bendir í fyrsta lagi á að ráðherra sé samkvæmt núgildandi lögum skylt að ákveða leyfilegan heildarafla í makríl fyrir næsta veiðitímabil. Þá sé honum aðeins heimilt að ákveða með reglugerð að miða aflahlutdeild í makríl við veiðireynslu þriggja bestu veiðitímabilanna af síðustu sex árum, þ.e. 2013 til 2018, en eins og áður sagði er talið líklegt að slík úthlutun myndi skapa ríkinu skaðabótaskyldu. Ráðherra myndi með þeim hætti halda áfram að baka þeim útgerðum tjón sem fengju minna úthlutað en þær hefðu fengið á grundvelli veiðireynslu fyrir árið 2011.
Með öðrum orðum væri slík reglugerð byggð á formlega fullnægjandi lagastoð en efnislega myndi hún viðhalda ólögmætu ástandi.
Bendir hópurinn þess vegna á að löggjafinn hafi ýmsa kosti til að greiða úr núverandi ástandi með lagasetningu.
Í 3. málslið 1. greinar laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða segir að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Með hliðsjón af þessu ákvæði og dómaframkvæmd Hæstaréttar er það mat starfshópsins að löggjafinn hafi nokkuð rúmar heimildir til að ákveða veiðistjórnun og úthlutun hlutdeilda samkvæmt eigin mati.
„Lagabreyting sem fæli í sér hóflega skerðingu á úthlutuðum eða væntum aflahlutdeildum á grundvelli lögmætra markmiða og reist væri á efnislegum mælikvarða væri ekki til þess fallin að skapa bótaskyldu,“ segir í skýrslu hópsins.
Í þeim tilgangi að auðvelda undirbúning mögulegrar lagasetningar eru í kjölfarið reifaðir fjórir ólíkir valkostir við stefnumörkun sem mögulegt væri að ráðast í, án þess að skapa ríkinu bótaskyldu að mati hópsins.
Í fyrsta lagi er nefndur sá kostur að veita ráðherra heimild til að miða við veiðireynslu áranna 2005 til 2010 við úthlutun aflaheimilda. Með því væri undið ofan af ólögmætri stjórnsýsluframkvæmd og ráðherra gefin heimild með lögum til að láta af slíkri framkvæmd. Hins vegar væri með lagasetningu af þessum toga verið að skerða verulega hagsmuni þeirra sem veitt hafa makríl og eftir atvikum fjárfest í þeirri sókn í góðri trú allt frá árinu 2011. Hugsanlegt sé að koma einhvern veginn til móts við þá skerðingu með því að taka frá hluta aflamagns hvers árs og úthluta sérstaklega til þeirra. Fordæmi fyrir slíku séu til staðar.
Ítarlegri umfjöllun er að finna í ViðskiptaMogganum, sem fylgdi Morgunblaðinu á fimmtudag.