30 umsagnir og athugasemdir höfðu í gær borist atvinnuveganefnd Alþingis vegna frumvarps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskeldi. Meðal annars höfðu nokkur sveitarfélög sent nefndinni athugasemdir og koma ýmis sjónarmið þar fram.
Í umsögn sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar er lýst andstöðu við frumvarpið og segir þar að ljóst sé að verði fyrirliggjandi frumvarp samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi „er efnt til stórfelldra átaka um fiskeldi um ókomna framtíð. Með frumvarpinu er rofin sú sátt sem undirrituð var um meðferð áhættumats í lögum af öllum nefndarmönnum í starfshópi um stefnumörkun í fiskeldi“.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar sendi atvinnuveganefnd bókun bæjarstjórnar frá 27. mars. Þar er þeim markmiðum fagnað sem frumvarpinu sé ætlað að ná fram, að tryggja betri stöðuleika í rekstrarskilyrðum fyrirtækja í fiskeldi og auka gegnsæi.
Sérstaklega er fagnað markmiðum frumvarpsins um að efla stjórnsýslu og auka eftirlit með fiskeldi þannig að vernd og sjálfbærni í nýtingu auðlinda og náttúrugæða verði betur tryggð. Þrátt fyrir áherslur í frumvarpinu um innra eftirlit þá sé ljóst af efni þess að aukin eftirlitsskylda sé lögð á opinberar stofnanir sem hafi eftirlit með fiskeldi, þ.e. Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun.
Bent er á uppbyggingu í laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum og ítrekar bæjarstjórnin kröfu sína um að störf þeirra sem sinna eftirliti með fiskeldi verði staðsett þar sem fiskeldið fer fram.
Sömu kröfu um staðsetningu eftirlitsstarfa í sveitarfélaginu er að finna í umsögn frá Fjarðabyggð. Þá er þar m.a. lagt til að Hafrannsóknastofnun verði gert skylt að leita álits hjá staðbundnum stjórnvöldum og að við úthlutun eldissvæða verði tekið mið af stöðu einstakra byggða í atvinnulegu tilliti.
Ítarlegri umfjöllun á síðu 14 í Morgunblaðinu í dag.