Fiskeldi svar við risavöxnum áskorunum

Mikilvægt er að undirstrika það að fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein …
Mikilvægt er að undirstrika það að fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem getur í krafti sinnar sérstöðu lagt mikið af mörkum til að uppfylla fæðuþörf mannkynsins. mbl.is/Hari

Útflutningsverðmæti fiskeldis á ársgrundvelli hér á landi gæti komið til með að slaga hátt upp í útflutningsverðmæti þorskaflans, þegar okkur tekst að nýta burðarþol fjarðanna samkvæmt fyrirliggjandi burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar.

„Eins og þetta blasir við þá er fiskeldi að verða æ mikilvægari þáttur í matvælaframleiðslu á heimsvísu,“ segir Einar K. Guðfinnsson, sem starfar að fiskeldismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

„Þróunin hefur verið á þann veg að prótínneysla hefur aukist mjög mikið, hún jókst til að mynda um fjörutíu prósent frá aldamótum og fram á okkar dag. Það er umfram fólksfjölgun á sama tímabili og skýrist meðal annars af bættum lífskjörum í heiminum og vaxandi þéttbýlismyndun,“ segir Einar í samtali við 200 mílur.

„Því er spáð að þessi aukning verði enn meiri á komandi árum þar sem fólki í svokölluðum neysluhópi (e. consuming class), það er fólki sem hefur tekjur fyrir ofan ákveðið mark, fer svo ört fjölgandi. Talið er að um 200 milljónir manna muni bætast í þennan hóp á ári næstu árin, sem er ekkert lítið miðað við það til dæmis að innan Evrópusambandsins búa um 500 milljónir manna. Það er í þessu ljósi sem við sjáum fiskeldið byggjast svona mikið upp, ekki síst vegna þess að hefðbundin matvælaframleiðsla á borð við kvikfjárrækt og hefðbundinn sjávarútveg getur ekki annað þessari eftirspurn með góðu móti,“ segir hann.

Horft yfir kvíar í Reyðarfirði. Einar segir að nærtækast sé …
Horft yfir kvíar í Reyðarfirði. Einar segir að nærtækast sé að átta sig á umfangi og möguleikum fiskeldisins með því að bera það saman við sjávarútveginn.

Myndin skýr í N-Atlantshafi

„Fiskveiðar hafa staðið í stað um það bil síðustu þrjátíu til fjörutíu árin, þó hér á landi hafi gengið vel að auka verðmæti vinnslufangs á sama tíma. Við vitum líka að víða sverfur að ræktarlandi. Þetta gerir það að verkum að þjóðir sem stunda fiskeldi eða geta komið því við, eru allar að horfa til þess að auka það og efla til muna.

Hér í Norður-Atlantshafi er myndin mjög skýr. Norðmenn hafa auðvitað stóraukið sitt fiskeldi eins og allir vita og eru orðnir langstærstu laxeldisframleiðendur í heimi. Færeyingar eru sömuleiðis komnir í þá stöðu að tekjur af fiskeldi mynda saman langstærstu útflutningsgrein þjóðarinnar. En við Íslendingar höfum verið eftirbátar og það er ekki fyrr en nú á allra síðustu árum sem þetta hefur aðeins verið að breytast. Nú er fiskeldi þegar farið að skipta efnahagslegu máli hér á landi,“ segir Einar.

„Þetta hefur hins vegar tekið mjög langan tíma og framleiðslan á síðasta ári var til að mynda álíka og árið 2017. En sem betur fer má búast við því að laxeldisframleiðsla hér á landi nær tvöfaldist í ár miðað við síðasta ár og fiskeldi í heild vex sömuleiðis. Við erum því að sjá hérna grein sem er verulega farin að láta um sig muna og er sannarlega orðin ein af vaxtarbroddunum, sem skiptir miklu máli í okkar þjóðarbúi. Meira að segja er það orðið svo að um hana munar í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir Alþingi.“

Framsýni um aldamótin

Upp úr síðustu aldamótum var tekin sú ákvörðun að loka stærstum hluta strandlengjunnar fyrir laxeldi í sjó. Var það gert til að koma til móts við þá sem áhyggjur höfðu af því að sjókvíaeldi hefði neikvæð áhrif á villta laxastofna. Einar segir að sér sé ekki kunnugt um að í öðrum löndum hafi verið gengið jafn langt í þessum efnum.

„Í Noregi hefur laxeldið í ýmsum tilvikum verið stundað nánast við ósa laxveiðiánna. Og þó um sé að ræða einhver svæði í einstökum löndum þar sem sjókvíaeldi er bannað þá er það hvergi nærri með sama hætti og við Íslendingar ákváðum að gera. Ég tel að sú ákvörðun sem þarna var tekin, í tíð Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra, hafi sýnt mikla framsýni og að með þessu hafi verið reynt að skapa ákveðna sátt um þessa atvinnugrein til frambúðar. Það hafa ekki orðið miklar deilur um þá ákvörðun í sjálfu sér.“

Kvíar í Berufirði. Kolefnisfótspor fiskeldisins hér á landi skýrist að …
Kvíar í Berufirði. Kolefnisfótspor fiskeldisins hér á landi skýrist að langmestu leyti af fóðurframleiðslunni, sem laxeldisfyrirtækin sjálf geta litlu um ráðið að sögn Einars.

Kolefnisfótspor eldis grunnt

Þegar fylgst er með umræðunni í íslensku samfélagi virðist sem sífellt mikilvægara sé að taka til skoðunar kolefnisfótspor þeirrar fæðu sem við neytum, þ.e. hversu miklu kolefni er blásið út í andrúmsloftið við framleiðslu hennar og flutning.

„Á það hefur verið ítrekað bent að heimurinn standi frammi fyrir tveimur risavöxnum áskorunum. Það er annars vegar hvernig við getum sinnt vaxandi fæðuþörf með sífellt meiri fólksfjölgun og aukinni velmegun og hins vegar hvernig við getum á sama tíma tryggt að við minnkum kolefnisútblástur, sem margir telja að sé brýnasti vandinn sem leysa þarf nú á dögum,“ segir Einar.

„Í því sambandi er mikilvægt að undirstrika það að fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem getur í krafti sinnar sérstöðu lagt mikið af mörkum til að uppfylla fæðuþörf mannkynsins. Landssamband fiskeldisstöðva ákvað að fá færustu sérfræðinga til að reikna út hvert væri raunverulegt kolefnisfótspor laxeldis í sjókvíum hér við land. Niðurstaðan var sú að það er afar grunnt, grynnra heldur en í flestri annarri matvælaframleiðslu og laxeldið hefur því að þessu leyti mjög góða sögu að segja.“

Bendir hann á að athyglisvert sé að kolefnisfótspor fiskeldisins hér á landi skýrist að langmestu leyti af fóðurframleiðslunni, sem laxeldisfyrirtækin sjálf geti litlu um ráðið. „En með aukinni fiskeldisframleiðslu innanlands opnast auðvitað möguleikar á því að hefja fóðurframleiðslu hér á landi í nágrenni við fiskeldið fyrir austan og vestan. Það er auðvitað svolítið sérkennilegt að hugsa til þess að á Íslandi er framleitt í dag fiskimjöl og lýsi, sem selt er svo til Noregs þar sem því er breytt í fóður fyrir fiskeldi, áður en það er svo flutt að einhverju marki aftur til Íslands,“ segir hann..

„Það mun auðvitað draga enn úr þessu fótspori, jafnframt því að mikil framþróun á sér stað í fóðurframleiðslunni. Við höfum líka lýst vilja til þess að kolefnisjafna að fullu okkar starfsemi og erum byrjuð að skoða þann kost af fullri alvöru, hvort sem er með skógrækt eða landbótum að öðru leyti, sem við myndum vinna með viðurkenndum aðilum.“

Fiskeldi er að verða æ mikilvægari þáttur í matvælaframleiðslu á …
Fiskeldi er að verða æ mikilvægari þáttur í matvælaframleiðslu á heimsvísu, segir Einar.

Þrjár sviðsmyndir framtíðar

Einar segir að áhugavert sé að velta fyrir sér stöðu fiskeldis á Íslandi í hinu stóra samhengi. Nærtækast sé að átta sig á umfangi og möguleikum fiskeldisins með því að bera það saman við sjávarútveginn, eina helstu grundvallarstoð útflutnings og efnahagslífs Íslendinga.

„Við sjáum á tölum sem við höfum frá síðasta ári að verðmæti eldisafurðanna alls nam um þrettán milljörðum króna, sem er álíka og útflutningsverðmæti makríls á sama tíma. Fiskeldið fer hins vegar vaxandi og framundan er hægur en öruggur vöxtur,“ segir hann og bendir á þrjár áhugaverðar sviðsmyndir til að skoða vöxt greinarinnar í samhengi við sjávarútveg í framtíðinni.

„Í þeirri fyrstu skoðuðum við hvert gæti verið útflutningsverðmæti þess laxeldis sem þegar hafa fengist leyfi fyrir. Við erum ekki komin í þá framleiðslu strax en þau leyfi liggja fyrir. Þegar við verðum farin að fullnýta þau gæti útflutningsverðmætið legið á bilinu 30 til 35 milljarðar króna. Til að skilja þetta aðeins betur þá er það svipuð tala og svarar til útflutningsverðmæti loðnu og makríls á síðasta ári. Þess ber þó að geta að útflutningur loðnu var fremur lítill og við vitum að hann getur verið sveiflukenndur í uppsjávarveiðunum. Engu að síður gefur þetta til kynna það umfang sem við gætum verið að sjá innan ekki svo langs tíma,“ segir Einar.

90 til 100 milljarðar króna

„Ef við skoðum síðan það magn sem Hafrannsóknastofnun taldi, með áhættumati sínu árið 2017, að óhætt væri að ala af frjóum laxi í sjókvíum án þess að það hefði neikvæð áhrif á umhverfið, þá væri útflutningsverðmæti þess á bilinu 45 til 50 milljarðar króna. Það er nálægt heildarútflutningsverðmæti alls uppsjávarfisksins okkar, það er að segja loðnu, síldar, makríls og kolmunna samanlagt,“ bætir hann við og vísar loks til þriðju sviðsmyndarinnar.

„Ef við fyndum leiðir til að fara með framleiðsluna upp í burðarþolsmatið, þ.e. það sem lífríki fjarðanna, þar sem á annað borð er heimilt að ala fisk, þyldi, þá væri útflutningsverðmætið á bilinu 90 til 100 milljarðar króna. Er það þá farið að slaga upp í útflutningsverðmæti þorskaflans á síðasta ári. Að mínu mati gefur þetta til kynna annars vegar það hversu mikið fiskeldið er að fara að telja á allra næstu árum, og hins vegar sýnir þetta þau tækifæri sem fiskeldið felur í sér.“

Viðtalið birtist fyrst í sjávarútvegsblaði 200 mílna og Morgunblaðsins, sem fylgdi blaðinu þriðjudaginn 16. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 13.11.24 593,32 kr/kg
Þorskur, slægður 13.11.24 534,98 kr/kg
Ýsa, óslægð 13.11.24 396,87 kr/kg
Ýsa, slægð 13.11.24 380,71 kr/kg
Ufsi, óslægður 13.11.24 217,00 kr/kg
Ufsi, slægður 13.11.24 322,30 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 13.11.24 304,54 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

13.11.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 1.006 kg
Ýsa 92 kg
Keila 55 kg
Steinbítur 35 kg
Samtals 1.188 kg
13.11.24 Egill ÍS 77 Dragnót
Ýsa 4.367 kg
Þorskur 632 kg
Sandkoli 111 kg
Samtals 5.110 kg
13.11.24 Ólafur Bjarnason SH 137 Dragnót
Ýsa 733 kg
Þorskur 627 kg
Skrápflúra 534 kg
Sandkoli 115 kg
Skarkoli 96 kg
Steinbítur 83 kg
Samtals 2.188 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 13.11.24 593,32 kr/kg
Þorskur, slægður 13.11.24 534,98 kr/kg
Ýsa, óslægð 13.11.24 396,87 kr/kg
Ýsa, slægð 13.11.24 380,71 kr/kg
Ufsi, óslægður 13.11.24 217,00 kr/kg
Ufsi, slægður 13.11.24 322,30 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 13.11.24 304,54 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

13.11.24 Sandfell SU 75 Lína
Þorskur 1.006 kg
Ýsa 92 kg
Keila 55 kg
Steinbítur 35 kg
Samtals 1.188 kg
13.11.24 Egill ÍS 77 Dragnót
Ýsa 4.367 kg
Þorskur 632 kg
Sandkoli 111 kg
Samtals 5.110 kg
13.11.24 Ólafur Bjarnason SH 137 Dragnót
Ýsa 733 kg
Þorskur 627 kg
Skrápflúra 534 kg
Sandkoli 115 kg
Skarkoli 96 kg
Steinbítur 83 kg
Samtals 2.188 kg

Skoða allar landanir »