Sala á ferskum íslenskum sjávarafurðum til Bandaríkjanna er háð flutningum með flugi. Með gjaldþroti WOW kom babb í bátinn og gæti fiskurinn þurft að fara lengri leið á markað vestanhafs.
Gaman var að fylgjast með því undanfarin ár hvernig íslensku flugfélögin juku umsvif sín jafnt og þétt. Bæði fylgdu hverjum nýjum áfangastað fleiri ferðamenn og líka nýir viskiptamöguleikar og voru seljendur íslenskra sjávarafurða ekki lengi að nota tækifærið til að stofna til nýrra viðskiptasambanda þegar ný borg bættist við leiðakerfið.
En nú er WOW air horfið af sviðinu, eftir að hafa þegar á síðasta ári byrjað að draga seglin töluvert saman. Tengingum Íslands við umheiminn hefur fækkað og ekki hægt að koma eins miklu magni af ferskum fiski beinustu leið í hendur kaupenda erlendis. Markaðsgreinendur hafa bent á að þetta bitni einkum á fyrirtækjum sem selja ferskar sjávarafurðir til Bandaríkjanna, enda eru þau meira háð flutningum með flugi en þeir sem selja kældan fisk til Evrópu.
Sindri Már Atlason, sölustjóri ferskra afðurða hjá HB Granda, tekur undir þetta: „Bandaríkjamarkaður er drifinn áfram af flutningum með flugi og er það forsenda þess að ferskar sjávarafurðir geti haldið áfram að vaxa á þeim markaði að útflytjendur geti gengið að nægri flutningsgetu hjá flugfélögunum,“ segir hann og bendir á að árið 2018 hafi orðið aukning í sölu íslenskra fyrirtækja á ferskum fiski vestanhafs.
Að mati Sindra þýðir gjaldþrot WOW þó ekki að komið sé upp alvarlegt vandamál fyrir sjávarútveginn til lengri tíma, þó að missir sé að flugfélaginu. „Vissulega dregur eitthvað úr framboði á flutningsrými með flugvélum á leið til Bandaríkjanna, og mikilvægt fyrir seljendur að geta afhent sínar vörur hratt og hnökralaust. En ef ekki er hægt að senda fiskinn með beinu flugi til borgar A má í staðinn fljúga með fiskinn til borgar B og svo koma honum þaðan á áfangastað með tengiflugi eða með flutningabíl,“ segir Sindri. „Vissulega er beint flug ákjósanlegra, en þetta er leið fyrir seljendur til að bjarga sér og leysa úr því sem vonandi verður bara skammtímavandamál.“
Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Niceland Seafood, hefur svipaða sögu að segja. „Við höfum náð að finna hentugar dreifileiðir fyrir alla okkar núverandi viðskiptavini, en við erum að stækka nokkuð hratt þannig að vinnan við að tryggja flutningspláss er eitt af okkar daglegu verkefnum,“ segir hún og bendir á að þegar verið sé að senda ferskan fisk úr landi megi ekkert klikka. „Við leggjum mikla áherslu á að veita viðskiptavinum okkar góða þjónustu og er afhendingaröryggið hluti af því.“
Niceland er ungt fyrirtæki með gamla kennitölu, en félagið byggir á rekstri Viking Fresh sem flutt hefur út ferskan fisk í marga áratugi. Var mikil vinna lögð í að þróa Niceland-vörumerkið og hampa þannig gæðum og uppruna vörunnar, og eru t.d. allar pakkningar merktar með kóða sem neytendur geta skannað og fengið upplýsingar um hvernig fiskurinn var veiddur með sjálfbærum hætti og hvernig hann ferðaðist frá sjómanni til verslunar.
Hefur Niceland m.a. náð ágætri útbreiðslu á Denver-svæðinu, í Chicago-borg og Minneappolis. Fyrirhugað er að fjölga sölustöðum í miðríkjum Bandaríkjanna á næstu vikum og mánuðum, einkum í Texas og Flórída. „Við vinnum mikla markaðsvinnu í samvinnu við viðskiptavini okkar á hverjum stað og nýtum okkur m.a. samfélagsmiðla til að finna þann hóp viðskiptavina sem við teljum að geti haft áhuga á Niceland-sjávarafurðum, auk þess sem við vöndum valið á verslanakeðjum og veitingahúsum þar sem okkar vörumerki á vel heima,“ útskýrir Heiða Kristín.
Henni þykir eftirsjá að flugtengingum WOW til Bandaríkjanna en þar sem beinna tenginga nýtur ekki við fari Niceland-fiskurinn með tengiflugi ýmist í gegnum evrópska eða bandaríska flugvelli. „Það væri gaman að sjá önnur flugfélög taka við keflinu og tengja Ísland t.d. við Miami-flugvöll allt árið, en hann er mjög hentugur fyrir dreifingu á vörum vítt og breitt um Bandaríkin,“ segir hún og bætir við að beinar tengingar séu alltaf ákjósanlegastar, bæði svo að varan hafi sem lengstan endingartíma þegar hún er komin í hillur verslana og eins til að lágmarka sótsporið af flutningunum. „Það eykur líka alltaf flækjustigið ef fiskurinn þarf að hafa viðkomu á fleiri stöðum á leið sinni til kúnnans.“
Spurð að hvaða marki stækkun leiðakerfa flugfélaganna hafi stýrt útrás fyrirtækja eins og Niceland segir Heiða Kristín að erfitt sé að segja hvort hafi komið á undan, hænan eða eggið.
„Við fórum meðal annars inn á Denver því þar var meira flutningspláss í boði, en mestu skiptir samt að byggja upp markaði sem vit er í að sækja inn á – sem í okkar tilfelli snýst um að einblína á stærstu borgirnar og byggðina á vestur- og austurströndinni. Markaðurinn leiðir ákvarðanirnar, frekar en flutningsleiðirnar og eru Bandaríkjamenn öllu vanir þegar kemur að því að skipuleggja vöruflutninga og senda t.d. ferskan fisk með trukk yfir vegalengdir sem okkur gætu þótt allt of langar við fyrstu sýn.“
Segir Heiða Kristín að hún óttist ímyndartjón vegna hvalveiða miklu meira en röskun á flugi. „Það má alltaf leysa úr óstöðugleika í flutningsleiðum, en sama er ekki hægt að segja um orðspor Íslands og vörumerkisins okkar. Þar tel ég yfirvofandi áframhald hvalveiða vera óásættanlegan áhættuþátt fyrir íslenskan sjávarútveg.“
Umfjöllun um málið birtist í nýjasta sjávarútvegsblaði 200 mílna og Morgunblaðsins, sem fylgdi blaðinu þriðjudaginn 16. apríl.