Valdimar Óskarsson framkvæmdastjóri alþjóðlegu flutningsmiðlunarinnar DB Schenker á Íslandi segir að vandi steðji að fraktflutningum á eldisfiski frá Íslandi vegna falls WOW air.
Valdimar, sem hélt erindi undir yfirskriftinni „Aðfangakeðjan frá Íslandi, Noregi og Færeyjum. Hvernig stöndumst við samkeppnina“ á ráðstefnunni Strandbúnaði á dögunum, segist þar hafa verið að benda á hverju útflytjendur megi búast við hvað varðar tímalengd í flutningum á fiski. Segir hann að þegar skoðaður er flutningstími og verð þá séu Íslendingar undir í samkeppninni miðað við nágrannalöndin.
„Eldisfiskurinn sækir mikið inn á Bandaríkjamarkað og pláss langt undir þörfum,“ segir Valdimar.
Í erindinu kom fram að útflutningur eldisfisks frá Íslandi árið 2018 hafi numið 17 þúsund tonnum. 95% hafi verið ferskur fiskur, og 5% frosinn fiskur. Til samanburðar fluttu Norðmenn út 1,1 milljón tonna af eldisfiski árið 2018 og Færeyingar 70 þúsund tonn.
„Við þurfum helst að koma vörunni með flugi út á flugvöll með alþjóðlegar tengingar. En flug frá Íslandi er dýrt. Við getum keppt með því að senda vöruna í skipi og síðan flugi eins og Færeyingar gera. Þeir gera mikið af því að sigla fyrsta hlutann og fljúga svo annan hlutann. Með því myndum við standa okkur í verðsamkeppni, en við stöndumst ekki samkeppni í tímalengd. Færeyingar eru til dæmis miklu nær stórum alþjóðlegum flugvöllum, og eru bara 40 klukkustundir að sigla með fiskinn. Ef við fljúgum með fiskinn frá Íslandi þá getum við keppt við Norðmenn hvað tíma varðar, en þá er flutningurinn orðinn helmingi dýrari.“
Valdimar segir að eitt af því sem geri fraktflutninga frá Íslandi erfiða sé að það sé mun minni innflutningur en útflutningur svo útflytjandinn sé alltaf að borga fyrir báða leggina, þar sem flugvélarnar koma tómar af frakt heim. Þá sé oft erfitt að flytja út eldisfisk, því hann greiðir lægstu fraktina, og þarf því að víkja fyrir betur borguðum vörum á alþjóðaflugvöllum,eins og nýjum iPhone-símum til dæmis.
En hvernig hafa menn brugðist við falli WOW og því plássi sem þar tapaðist í fraktflutningum?
„Icelandair er að reyna að stækka sínar vélar, en erlendu flugfélögin eru almennt ekki að taka neina frakt, félög eins og Easy Jet, Wizz air, Norwegian tekur smá en þeir fljúga líka á staði þangað sem við sendu ekki okkar afurðir eins og Bergen. Sum flugfélög taka frakt, en neita að taka fisk út af hættunni á því að einhverjir kassar brotni og skemmi út frá sér.“
Valdimar segir að einnig sé ekki sama hvort verið sé að flytja lax eða hvítfisk. Hvítfiskur sé betur borgandi vara, og laxinn víki fyrir honum í flugfraktinni. „Íslendingar hafa náð frábærum árangri síðustu ár í að búa til merkjavöru úr hvítfiskinum. Eldislaxinn íslenski er ekki enn orðin sama sérvaran.“
Spurður um líftíma afurðanna og hvort það sé skaðlegt að varan sé lengi í skipi, segir Valdimar að fiskurinn sé fluttur ísaður, og sigling frá landinu taki 4-5 daga. „Kælikeðjan er algjörlega lokuð og gámurinn er stilltur á mínus eina gráðu. Menn ná að halda fiskinum í mjög góðu ásigkomulagi. Þá má nefna að í fluginu er ákveðin áhætta líka, þar sem ekki er hægt að kæla fiskinn þar. Skip eru í raun mjög góð flutningsleið, en framleiðsludagsetningin er alltaf stimpluð á vöruna, og menn horfa svolítið á það.“
Valdimar bendir á að fiskur á beini haldi sér lengur. „Menn hafa talað um 14 -20 daga geymslutíma á ferskum fiski við réttar aðstæður.“
Hvað framtíðina varðar segir Valdimar að fyrirséð sé að framleiðsla á eldislaxi hér á landi muni þrefaldast, og því þurfi að tækla flutningsvandann. „Annaðhvort þurfa flugfélög að fjölga breiðþotum, eða menn að vera tilbúnir að greiða meira fyrir fraktina. Eða þá að setja vörurnar í skip. Maður er ekki að sjá að kerfið geti tekið við mikilli magnaukningu á næstu árum. Ef Íslendingum tekst að gera sérvöru úr laxinum eins og Skotar hafa t.d. gert með sinn lax, þá auðveldar það málið líka.“
Starfsemi DB Schenker á Íslandi skiptist til helminga í inn- og útflutning, og segir Valdimar aðspurður að 90% af útflutningnum sé fiskur. „Það fóru 35 þúsund tonn af fiski um okkar flutningaumsjón í fyrra.“
Umfjöllunin birtist fyrst í sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu 16. apríl.