Matvælastofnun hefur rætt við skipverja á Bíldsey SH-65 sem skar sporðinn af hákarli og sleppti honum sporðlausum lifandi í sjóinn. Athæfið var tekið upp á myndband en Matvælastofnun beinir spjótum sínum fyrst og fremst að þeim sem skar sporðinn af.
Alls hefur þremur skipverjum á Bíldsey verið sagt upp störfum vegna málsins. Tveimur þeirra var sagt upp í gær og þá greindi dv.is frá því í morgun að þriðja manninum hefði verið sagt upp.
Þóra J. Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir málið komið í ferli hjá stofnuninni. Fyrsta skref sé að hafa samband við hlutaðeigandi og það hafi verið gert. Þar sé gerð grein fyrir því að rökstuddur grunur sé um að mennirnir hafi brotið lög um velferð dýra og viðurlög við því geti verið sekt eða kæra til lögreglu.
Síðan sé farið yfir rannsóknargögn og þær upplýsingar sem Matvælastofnun hafi um málið en þar er málið statt í dag.
„Í framhaldinu er tekin ákvörðun um hvernig málið skuli afgreitt,“ segir Þóra. Í slíkum málum getur viðkomandi fengið stjórnvaldssekt, málið kært til lögreglu eða látið niður falla. Matvælastofnun hefur heimild til þess að beita sektum upp á allt að milljón með tilliti til alvarleika brots, samstarfsvilja og ásetnings.
Skipverjar á Bíldsey SH-65 gætu átt yfir höfði sér refsingu fyrir athæfi sitt.
Ljósmynd/Björgvin Baldursson
Þóra segist reikna með því að málið verði afgreitt frekar hratt. „Við höfum fengið mikið af upplýsingum í gegnum myndbönd sem hafa hjálpað til við að fá heildarsýn á málið,“ segir Þóra.
Hún segir að stofnunin beini spjótum sínum fyrst og fremst að þeim sem skar sporðinn af hákarlinum. „Við lítum svo á að það sem virðist koma fram í þessu myndbandi er að einn aðili taki sérstaklega þessa ákvörðun og framkvæmi hana. Við vinnum eftir því eins og er.“